Í fornum sögum frá Indlandshafi segir frá risastórum fugli sem réðist á menn og gat borið skepnur á stærð við fíla og nashyrninga í klóm sínum. Þetta voru þjóðsögur af fuglinum Rok.

 

Í fimmtu sjóferð Sinbaðs sæfara, sem sagt er frá í sagnabálkinum Þúsund og einni nótt, lenti Sinbað ásamt mönnum sínum á eyðilegri strönd lítillar eyjar. Þar komu þeir auga á risastórt egg sem Sinbað taldi tilheyra Rok. Þegar menn hans brutu skurn eggsins kom í ljós stór fuglsungi sem þeir drápu og elduðu sér til matar.

 

Þegar Sinbað sá hvað menn hans höfðu gert óttaðist hann afleiðingarnar af flónsku þeirra og kallaði þá aftur um borð í skip sitt. Þeir höfðu ekki verið lengi úti á sjó þegar foreldrar ungans komu á eftir þeim. Fuglarnir brutu skip Sinbaðs með klettum sem þeir slepptu úr gríðarstórum klóm sínum. Drukknaði öll áhöfn skipsins en Sinbað sjálfur rak áfram einn í sjónum.

 

800px-sinbad_the_sailor_5th_voyage

 

Þessi saga er fræg enda hefur Rok brugðið fyrir bæði í kvikmyndum og öðrum bókmenntaverkum um hetjuna. Sögur af risastórum goðsögulegum fuglum hófust þó ekki með ævintýrum Sinbaðs. Í Vedaritum Indverja, fornum trúartextum frá 8. eða 9. öld fyrir Krists burð, segir til dæmis frá fuglinum Garuda sem flýgur um loftið með fullvaxinn fíl sem berst við krókódíl í klóm sínum.

 

edward_julius_detmold49

 

Sögurnar um fuglinn Rok bárust víða. Í lýsingu sinni á Madagaskar greinir Marcó Póló frá því þegar Kublai Khan Kínakeisari bað landkönnuði sína um að komast að því hvort eitthvað væri til í goðsögunum. Þeir færðu honum risastóra fjöður sem þeir áttu að hafa fundið á Madagaskar til sönnunar um tilvist fuglsins. Að öllum líkindum höfðu þeir þó tekið pálmablað raffíapálmans fyrir fjöður en hann vex víða á Madagaskar.

 

800px-raphia_australis

Raffíapálminn á Madagaskar.

 

Engar raunverulegar sannanir hafa fundist um tilvist risafuglsins Rok eins og honum er lýst í goðsögunum. Á Madagaskar bjó þó eitt sinn risafugl, hinn svokallaði fílastrútur. Hann var um 3 metrar á hæð og vó allt að 500 kg. Egg hans voru þau stærstu sem vitað er um, yfir 34 cm á lengd og 10 til 12 kg á þyngd eða 160 sinnum stærri en hænuegg og 7 sinnum stærri en venjuleg strútsegg.

 

Egg fílastrútsins og strútsegg.

Egg fílastrútsins og strútsegg.

 

Ekki er ólíklegt að arabískir sæfarar hafi séð þessi egg á 10 eða 11. öld, en vitað er til þess að þeir hafi siglt suður til Madagaskar, og að þar með hafi sagan af fuglinum Rok orðið til.

 

elephant_bird_skeleton

Beinagrind fílastrútsins.

 

Í ferðalýsingu fransks kaupmanns, sem heimsótti Madagaskar árið 1884, segir frá höfðingja sem útbjó skál úr eggi fílastrútsins. Var skálin svo stór að hún gat rúmað vín úr 13 vínflöskum. Kætti sú staðreynd kaupmanninn töluvert.

 

Talið er að fílastrúturinn hafi dáið út á 17. öld.

 

Egg fílastrútsins eru verðmæt. Árið 1993 greyddu áströlsk stjórnvöld ungum dreng 70,000 pund fyrir að finna egg fílastrúts en vísindamenn telja að það hafir borist frá Madagaskar til Ástralíu með hafstraumum.

Egg fílastrútsins eru verðmæt. Árið 1993 greiddu áströlsk stjórnvöld ungum dreng 70.000 pund fyrir að finna egg fílastrúts en vísindamenn telja að það hafi borist frá Madagaskar til Ástralíu með hafstraumum.