Árið 1925 lagði breski landkönnuðurinn Percy Fawcett af stað inn í Amazon-regnskóginn í Brasilíu í leit að rústum höfuðborgar horfinnar siðmenningar, sem hann kallaði týndu borgina Zetu.
Þessarar borgar er einungis getið í einu gulnuðu handriti frá átjándu öld, en Fawcett var handviss um að hana væri að finna einhverstaðar djúpt inni í regnskógarþykkninu — og varð heltekinn af þeirri tilhugsun um að sjá borgina með eigin augum.
En sú þráhyggja hans átti að lokum ekki bara eftir að draga hann sjálfan til dauða, heldur varð hún til þess að fjöldi annarra lét einnig lífið.