Lemúrinn hefur áður fjallað um breska grínleikarann John Cleese og sérlegt dálæti hans á lemúrum. Cleese hefur meðal annars gert heimildarmynd um lemúra þar sem vakin er athygli á hættunni sem steðjar að þessum furðulegu frændum mannsins. Auk þess gegnir hringrófulemúr tilkomumiklu hlutverki í Fierce Creatures, kvikmynd hans frá 1997.
Árið 1990 uppgötvaði rannsóknarteymi frá Zurich nýja lemúrategund við ána Manambolo í vesturhluta Madagaskar. Þetta var Bemaraha loðlemúrinn, brúnn lemúr með flatt nef og stór augu sem hefur þann sið að flauta á einkennilegan hátt.
Bemaraha loðlemúrinn hlaut þó ekki latneska flokkunarheiti sitt fyrr en árið 2005, en þá ákváðu svissnesku vísindamennirnir að hann skyldi heita Avahi cleesei í höfuðið á Cleese í viðurkenningarskyni fyrir baráttu hans í þágu lemúra.