Í Perú leynast ótrúlega skemmtilegar hljómsveitir og kraftmikil tónlistarsena. Á sjöunda og áttunda áratugnum varð til mögnuð tónlist í Amasónhluta landsins: Chicha. Þetta eru nokkurs konar brimbrettatónar úr frumskóginum.

 

Rokktónlistarsprengingin á sjötta og sjöunda áratugnum hafði ekki einungis áhrif á tónlist á Vesturlöndum. Hún flæddi líka um fjarlæg lönd á borð við Indónesíu, Namibíu og Perú.

 

Lagið sem er stef útvarpsþáttar Lemúrsins á Rás 1, er komið alla leið frá frumskógum Perú. Hljómsveitin ber nafnið Los Mirlos og lagið heitir Sonido Amazonico, hljóðið í Amasón. Þetta er svokölluð chicha-tónlist.

 

Hljómsveitin Juaneco y su combo.

Hljómsveitin Juaneco y su combo.

 

Það var merkileg tónlistarbylgja sem hófst undir lok sjöunda áratugsins í borgum í perúska hluta Amasón.  Þá var þar mikill uppgangur vegna olíuvinnslu sem hafði í för með sér mikla fólksflutninga til svæðisins þegar fólk frá ýmsum hlutum Perú streymdi þangað í atvinnuleit. Við þetta varð ákveðið rótleysi og tómarúm sem virðist hafa boðið upp á menningarlegar stökkbreytingar.

 

Juaneco y Su Combo – Me Robaron Mi Runa Mula

Vídjó

 

Chicha er nokkurs konar afbrigði af kúmbíu-tónlist, sem upprunnin er í Kólumbíu en er nú vinsæl í gervallri Rómönsku Ameríku. Kúmbía varð til á Karíbahafsströnd Kólumbíu í hinum gífurlega stóra menningarlega og tónlistarlega suðupotti sem myndaðist þar á nýlendutímum þegar frumbyggjar, svartir þrælar og Spánverjar mættust í leik og starfi.

 

En tónlistin sem við heyrum hér er samsuða kúmbíu við rokktónlistina sem þá var mjög farin að ryðja sér til rúms í heiminum og þar með talið í hinum afskekktu olíubyggðum í Amasón. Við heyrum eitursvala brimbrettagítarhljóma og í orgelum innan um seiðandi suðuramerísk hljóðfæri.

 

Og í þessari blöndu er líka hefðbundin perúsk tónlist, ættuð frá indíánabyggðum Andesfjalla, en þar varð til merkileg tónlist þegar afkomendur inkanna sungu um raunir sínar um og eftir nýlendutímann.

 

Unga fólkið í Perú tók fagnandi á móti þessum frábæru tónum og þeir fóru brátt að heyrast á börunum í höfuðborginni Lima. Úr varð mikil tónlistarsena sem hefur haft mikil áhrif á tónlist almennt í Suðurameríku.

 

Chicha-tónlist hefur rekið á fjörur Árna Matthíassonar tónlistarblaðamanns á Morgunblaðinu og hann sagði meðal annars um hana í grein fyrir nokkrum árum:

 

Heitið chicha var og er alla jafna notað yfir það sem er ódýrt, hversdagslegt, alþýðlegt og hverfult. Diario chicha þýðir þannig gula pressan (chicha dagblað) og cultura chicha, chicha menning, alþýðumenning. til aðgreiningar frá „alvöru“ menningunni sem stunduð var í Lima.

 

Í bókinni Travesuras de la niña mala eftir Mario Vargas Llosa, dregur Llosa upp mynd af Lima fyrri tíma, heimi fína fólksins sem bjó í stórhýsum í Miraflores með skjólsælum garði þar sem dansað var á kvöldin um helgar mambó, guarachas, merengue, bolero og bugalú. Cumbia var lágstéttatónlist, klámfengin og ruddaleg í augum miðstéttarinnar og ekki bætti úr skák þegar menn voru búnir að flétta „dópmúsík“, sýrurokki, saman við og úr varð chicha.

 

Vídjó

 

Los Hijos Del Sol, Synir sólarinnar, syngja lagið Si Me Quieres. Þeir syngja: Ef þú er hrifin af mér láttu mig vita. Ef þú hatar mig láttu mig vita. Textarnir voru einfaldir og léttir. Markmiðið var að skemmta fólkinu. Til dæmis var sungið um veisluhöld, olíuvinnslu, og lífið í skóginum.

 

Chicha-tónlist var frekar gleymd fyrir nokkrum árum, allavega fyrir utan landsteina Perú.

 

Juaneco y Su Combo – Ya se ha muerto mi abuelo

Vídjó

 

Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Tomando trago (ayayay)
Tomando trago (ayayay)
 

Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Ya se ha muerto mi abuelo (ayayay)
Tomando masato (ayayay)
Tomando masato (ayayay)

 
Casi ha muerto mi abuela (ayayay)
Casi ha muerto mi abuela (ayayay)
Comiendo suri (ayayay)
Comiendo suri (ayayay)

 

Þýðing:

 

Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Hann drakk of mikið (æ, æ, æ)
Hann drakk of mikið (æ, æ, æ)
 
Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Afi minn er dáinn (æ, æ, æ)
Hann drakk masato (æ, æ, æ)
Hann drakk masato (æ, æ, æ)

 

Amma mín dó næstum (æ, æ, æ)
Amma mín dó næstum (æ, æ, æ)
Hún borðaði suri (æ, æ, æ)
Hún borðaði suri (æ, æ, æ)

 

Árið 2006 ferðaðist Frakkinn Olivier Conan til Perú en hann rekur plötufyrirtæki sem sérhæfir sig í skrýtinni suðuramerískri tónlist. Hann fann kassettur með Chicha-böndum hjá götusölum og í kassettusjoppum í mjög misjöfnu ástandi. Honum tókst á endanum það þrekvirki að finna frumupptökur með plötum bandanna en flest plötufyrirtækin sem gáfu út Chicha-tónlist voru farin á hausinn og nánast ómögulegt að átta sig á hvar menningarverðmætin væru falin.

 

Árið 2007 gaf Conan þessi út safnplötuna Roots of Chicha: Psychedelic Cumbias From Peru sem innihélt mörg frábær lög. Safndiskurinn fékk mikið lof, meðal annars í New York Times og hjá BBC og hinir gleymdu tónlistarmenn fengu skyndilega verðskuldaða athygli eftir mörg mögur ár í fúnum kassettutækjum.

 

rocvinyl_cover

 

Hér tekur bandið Los Destellos, eða Glamparnir, sem hefur gefið út fjölmargar plötur með frábærri tónlist, ekki ómerkari tónsmíð en Für Elise eftir Ludwig van Beethoven, eða Luis van Beethoven eins og þeir kalla hann.

 

Vídjó

 

Annað gott lag Los Destellos:

Vídjó

 

Ayahuasca mallar í potti.

Ayahuasca mallar í potti.

 

Ayahuasca er plöntuseyði sem frumbyggjar í perúska hluta Amasón hafa bruggað um aldir. Þeir telja það hafa mikinn lækningarmátt á andlega sviðinu. Hér er lag um þetta lyf:

Vídjó

 

Perú er land margra menningarstrauma eins og hér hefur verið rakið. Og það varð ekki bara til frábær tónlist í Amasónskóginum. Því í höfuðborginni Lima var líka blómlegt tónlistarlíf.

 

Í dag keppast plötusafnarar um allan heim um að eignast eintök með þeim ótrúlega fjölda frábæru hljómsveita sem varð til á þessum mikla blómatíma.

 

Bíl­skúrs­bandið Los Saicos var stofnað af fjórum korn­ungum piltum í Lima árið 1964. Þetta var auð­vitað á dögum Bítlaæðisins þegar rokk­hljóm­sveitir urðu allt í einu til um allar trissur. Lesið um það hér.