Lenín gamli liggur enn smurður á Rauða torginu. Hann er ekki eini leiðtoginn sem fengið hefur þann heiður að lifa slíku framhaldslífi. Hér er sagt frá smurðum líkum Evitu Perón í Argentínu og Ferdinands Marcos á Filippseyjum.
Eva Perón, eða Evita, var eiginkona Juans Domingo Perón, sem var forseti Argentínu um miðja tuttugustu öldina. Evita var mikil hetja í augum milljóna manna þegar hún lést úr krabbameini aðeins 33 ára gömul árið 1952. Hún þótti hafa staðið sig vel í baráttunni fyrir réttindum fólks af lægri stættum. Ekkillinn Perón vildi reisa henni glæsilegan minnisvarða svo argentínska þjóðin gæti syrgt hana um aldur og ævi. Minnisvarðinn átti að vera gríðarstór stytta af ónefndum fátækum manni, stærri en sjálf Frelsisstyttan í New York. Líkami Evu átti svo að hvíla í grunni styttunnar, smurður, líkt og Lenín.
Á meðan hafist var handa við gerð styttunnar var Eva Perón smurð en geymd á skrifstofu hennar í Buenos Aires þar sem líkaminn var til sýnis. Þremur árum síðar var Perón hins vegar steypt af stóli eftir valdarán hersins. Styttan var hvergi nærri fullgerð. Perón þurfti að flýja land í snatri og náði ekki að sjá til þess að líkinu af Evu yrði bjargað. Herforingjastjórnin tók líkið og faldi það en markmið hennar var að þurrka út öll ummerki um Perón-hjónin og fá þjóðina til að gleyma þeim hreinlega.
Tveimur áratugum síðar kom í ljós að líkið hafði verið sent til Ítalíu og grafið undir dulnefni. Það hvílir nú í kirkjugarði í Buenos Aires. Notast var við vaxaðferð þegar lík Evu var varðveitt en múmíufræðingar segja að henni hafi verið nánast breytt í kerti. Það vantar á hana fingur því þegar herforingjastjórnin komst til valda var einn fingur skorinn af til að athuga hvort líkið væri ekta.
Ferdinand Marcos, sem var forseti Filippseyja frá 1965 til 1986, er smurður. Hann lést árið 1989 í útlegð en upp komst um gífurlega spillingu undir stjórn hans. Hann er talinn hafa hrifsað til sín fjarstæðukenndar upphæðir úr ríkissjóði og notað í eigin þágu. Kona hans Imelda Marcos varð fræg um allan heim fyrir skósafnið sitt en hún átti mörgþúsund skópör. Lík Marcos var smurt og hann liggur nú í glerbúri með neonljósum í grafhýsi sem eru í eigu fjölskyldu hans í norðurhluta Filippseyja.
New York Times heimsótti grafhýsið fyrir nokkrum árum:
Líkaminn, sem er ótrúlega unglegur að sjá, liggur á hvítu satínlaki, með glæsilegar orður á barminum, tærnar vísa þráðbeint upp í skínandi svörtum skóm.
En árin virðast hafi tekið sinn toll. Ofurlitlar svartar rendur sem virðast vera mygla liggja við jaðar laksins. Hljómflutningskerfi sem á að spila rólega tónlist er bilað.
Enginn virðist sinna litlu safni sem er í húsinu, þakið lekur og myndir á veggjum fölna og rammarnir brotnir. Enginn virðist sópa eða þrífa í safninu, hvað þá að fríska upp á það.
Grafhýsið er þó í betra ásigkomulagi en gríðarlega stór brjóstmynd af Ferdinand Marcos sem stendur á bjargi við Kínahaf skammt frá Manila, höfuðborg Filippseyja. Nokkurs konar Rushmore-fjall Asíu. Styttan, sem er um 30 metra há, var reist á áttunda áratugnum. Árið 2002 var andlit styttunnar sprengt í tætlur en talið er að óvinir Marcosar hafi verið að verki eða hugsanlega fjarsjóðsleitarar en forsetinn fyrrverandi kom peningum fyrir á ýmsum leynistöðum, til dæmis á bankareikningum í Sviss.