Á hernámsárunum á Íslandi var mikið skemmtanalíf í höfuðborginni. Dátarnir sem komu yfir hafið frá Bretlandi og síðar Bandaríkjunum þurftu að eyða frístundum sínum í eitthvað og auðvitað urðu skemmtanir ýmiskonar fyrirferðarmiklar. Íslenskar konur voru velkomnar á dansleiki hjá hernum en það voru karlmenn hins vegar oftast ekki sem varð stundum tilefni mikillar spennu á milli setuliðsins og heimamanna.
Þjóðskjalasafn Íslands geymir þessar auglýsingar frá hermönnum.
Unnur Birna Karlsdóttir skrifar um auglýsingarnar á vef Þjóðskjalasafns:
Dansleikirnir sem hér eru auglýstir voru haldnir í Reykjavík, en setuliðið auglýsti líka í borginni þær skemmtanir sem haldnar voru á svæði þess suður með sjó til að ná augum kvenþjóðarinnar og voru stúlkur keyrðar í bílum hersins á þessar skemmtanir og höfðu far til baka. En íslensk löggæsla sem fylgdist með þorði þó ekki við eftirgrennslan að fullyrða að jafnmargar stúlkur skiluðu sér heim með bílunum og fóru með þeim á þessar skemmtanir setuliðsins.
Konur voru velkomnar á dansleiki hersins, en öðru máli gegndi um íslenska karlmenn. Þeir fengu jafnvel ekki aðgang. Hernámið olli eins og þekkt er töluverðum titringi í íslensku samfélagi og skemmtanir hersins voru af mörgum litnar hornauga og þóttu vera vettvangur lasta og lauslætis. Áhugi setuliðsmanna á að komast í kynni við íslenskar stúlkur var gagnrýndur og voru dansleikir hersins litnir alvarlegum augum af þeim sem vildu sporna gegn „ástandinu“, eins og samskipti og sambönd setuliðsmanna og íslenskra kvenna var kallað. Sú viðleitni að berjast gegn ástandinu, m.a. með því að fylgjast með gerðum breska og síðan bandaríska hersins á hernámsárunum er einmitt ástæða þess að þessar handskrifuðu auglýsingar um dansleiki hjá hernum varðveittust. Þær voru hirtar sem sönnunargögn og varðveittar af aðilum sem höfðu eftirlit með samskiptum hersins og íslenskra stúlkna á hernámsárunum 1941-1945. Auglýsingar um skemmtanir hersins voru geymdar ásamt ýmsum öðrum gögnum um hernámið, sem vitnisburður um viðleitni hersins til að narra til sín íslenskt kvenfólk.