Það eru ekki margir sem kannast við Michael Fagan í dag. Hann vakti þó mikla athygli sumarið 1982 en þá tókst honum að brjótast inn í Buckingham-höll… ekki einu sinni heldur tvisvar!

 

Málsatvik líkjast helst atriði úr bíómynd, þar sem fimur innbrotsþjófur leikur á hvern vanvita öryggisvörðinn á fætur öðrum. Í fyrra skiptið klifraði Fagan upp veggi Buckingham-hallar með því að styðjast við frárennslisrör. Hann komst upp á þak þar sem gluggi var opinn. Þernur í höllinni heyrðu reyndar í honum og létu konunglega hallarverði vita. Þeir voru vissir um að þernurnar væru með ímyndunarveiki.

 

Í fyrra skiptið sem Fagan braust inn gekk hann í eldhúsið, náði sér í kex og cheddar-ost sem hann maulaði á meðan hann spókaði sig í höllinni. Hann drakk hálfa hvítvínsflösku sem hann fann í skemmtigöngunni en að lokum fór Fagan að leiðast þannig að hann fór heim.

 

Í seinna skiptið fór hann inn í höllina með sömu aðferð en var öllu klaufalegri. Hann setti viðvörunarkerfi sífellt í gang, í raun svo oft að konunglegir hallarverðir töldu að viðvörunarkerfið væri bilað. Nema það hafi verið ætlunin hjá Fagan. Segjum það bara.

 

Í þetta skiptið gekk Fagan inn í svefnherbergi drottningarinnar sjálfrar, Elísabetar II. Hann gekk að rúminu og gerði sig reiðubúinn til að setjast á rúmstokkinn. Elísabet vaknaði og var skiljanlega nokkuð brugðið. Hún flúði herbergið í gegnum hliðardyr og kallaði á hjálp. Fagan settist á rúmstokkinn og var hinn rólegasti. Hinir konunglegu hallarverðir voru að sjálfsögðu ekki fyrstir á vettvang, heldur kom inn í herbergið þerna – sem spurði hvort hún gæti ekki fært Fagan eitthvað. „Jú, kannski sígarettupakka,“ svaraði Fagan, alveg silkislakur.

 

Fagan fékk ekki sígaretturnar sínar, því skömmu síðar komu hallarverðir til að handsama hann.

 

Það fyndna er, að Fagan var aldrei kærður fyrir glæpsamlegt athæfi fyrir innbrotin tvö. Á þessum tíma var ekki brot á hegningarlögum að ganga um í óleyfi (e. trespassing) í Buckingham-höll, þótt þessi atvik hafi orðið til að breyta því. Fagan þurfti samt sem áður að dveljast á geðdeild næstu mánuði, en hann var talinn í ójafnvægi.

 

fagan

Móðir Fagans varði hann, sagði að sonur sinn gæti aldrei gert flugu mein. Hann hafi einungis viljað eiga notalegt spjall við drottninguna, kannski ræða við hana um vandamál sín, atvinnuleysi og börnin sín fjögur.

 

Fagan öðlaðist mikla frægð í Bretlandi og sérstaka aðdáun ungs manns frá Manchester. Steven Patrick Morrissey, betur þekktur af eftirnafni sínu einu, er líklega einn þekktasti andstæðingur drottningarinnar frá upphafi. Veit hann vart um megnari andstyggð en ríkidæmi drottningar og drambsemi, sem hún hefur ekki unnið fyrir á nokkurn hátt.

 

Árið 1985 stóðu yfir upptökur á plötu The Smiths, sem átti síðan eftir að fá nafnið The Queen is Dead. Vinnuheiti plötunnar var reyndar Margaret on the Guillotine eða Margrét á fallöxinni (Morrissey var sumsé ekkert hrifinn að Margaret Thatcher heldur).

 

smiths

The Smiths.

 

Morrissey hugsaði þá til Michaels Fagans og afreka hans. Hann ímyndaði sér hvað myndi gerast, ef hann sjálfur væri nógu hugrakkur til að feta í fótspor Fagans og brjótast inn í svefnherbergi drottningar. Varð það vísirinn að titillagi plötunnar, „The Queen is Dead.“

 

So, I broke into the palace
With a sponge and a rusty spanner
She said, „Eh, I know you, and you cannot sing“
I said, „That’s nothing, you should hear me play piano“
Hér má að lokum sjá goðsagnakennt tónlistarmyndband Dereks Jarmans við lagið „The Queen is Dead.“

 

Vídjó