Þriðji þáttur Lemúrsins á Rás 1 var fluttur 15. október. Lemúrinn fjallar um afskekktar smáeyjar í heimshöfunum, dularfullt hvarf þýskrar barónessu á Galapagos, um sögulega heimsókn Richards Nixon Bandaríkjaforseta til Kína þar sem bæði borðtennis og pöndur koma við sögu, og um vafasama íslenska náttúrufræðibók frá nítjándu öld.
Hlustið hér á þáttinn (mp3-skrá hjá hlaðvarpi RÚV).
Umsjónarmenn eru Helgi Hrafn Guðmundsson og Vera Illugadóttir.
Eyðieyjur hafa heillað marga. Við segjum frá ýmsum eyjum og fólki sem hefur flust til þeirra.
Allt frá blautu barnsbeini var Bandaríkjamaðurinn George Hugh Banning heillaður af eyjum. Því minni og afskekktari því betra — fátt heillaði hann meira en litlir dökkir deplar á heimskortinu, umluktir gríðarstórum bláum heimshöfunum.
Á fullorðinsaldri fékk Banning loksins tækifæri til þess að upplifa eyjadrauma sína þegar hann slóst í för með könnunarleiðangi um eyjarnar úti fyrir ströndum mexíkósku Kaliforníu á díselknúnum seglbát. Hann skrifar um þá ævintýralegu ferð í bókinni Í mexíkóskum höfum sem út kom árið 1925.
Ein þeirra eyja sem Banning var spenntastur að stíga fæti á var eyjan Socorro, eldfjallaeyju um 600 kílómetra frá landi. Spænskir landkönnuðir uppgötvuðu Socorro um miðja sextándu öld en þrjú hundruð árum síðar höfðu tiltölulega fáir menn enn stigið þangað fæti. Enda var þar lítið að sækja. Þverhníptir klettar Socorro rísa skyndilega upp úr hafinu. Eyjan er þakin þyrnóttum runnum og kaktusum og þar er lítið dýralíf nema nokkrar fuglategundir sem hafa þar viðkomu.
Kennarar Bannings, ættingjar og vinir eiga erfitt með að skilja þennan áhuga hans á afskekktum eyjum. Hvað í ósköpunum vill hann til Socorro? Hvað hefur þann þangað að sækja? Það er ekkert, svarar Banning. Það er ekkert þar, og það er það sem er svo fallegt.
Árið 1971 kom Richard Nixon Bandaríkjaforseti öllum á óvart þegar hann lýsti yfir að Bandaríkjastjórn hefði hafið samskipti við kínversku kommúnistastjórnina. Henry Kissinger, hægri hönd hans, hefði farið í leynilega för þangað skömmu áður og að hann myndi sjálfur fara þangað á næstunni.
Nixon og Maó formaður hittust og fóru með ýmis gamanmál. Þetta er furðusaga þar sem bæði pandabirnir og borðtennis kemur við sögu.
Já, borðtennis. Endurnýjuð kynni Bandaríkjamanna og Kínverja á þessum tíma hófust með því sem sagnfræðingar kalla Ping Pong Diplomacy, eða borðtennis erindrekstur. Því snemma árs 1971 opnaði Kínastjórn skyndilega landamæri sín og bauð bandarískum borðtennisleikmönnum að koma og keppa við kínverska leikmenn. Upphafið af þessu var á borðtennismóti í Japan. Glenn Cowan, bandarískur leikmaður, missti af rútunni sinni og fékk far með þeirri kínversku. Þar tókst mikil vinátta með honum og kínverskum leikmönnum.
Lemúrinn fjallar ítarlega um þessa heimsókn í nýjasta þætti sínum. Til dæmis eru spiluð skemmtileg og sérkennileg brot úr óperunni Nixon in China eftir John Adams sem fjallar um heimsóknina á sögulegan hátt.
Í henni Nixon með orðum tónskáldsins sjálfs „lýrískur baritónn með efasemdir um sjálfan sig sem stundum fyllist drungalegri sjálfsvorkunn“. Formaðurinn er hins vegar „Maó hinna stóru veggspjalda, ég ákvað að hann yrði tenór,“ sagði John Adams en hann hefur gert óperur um ýmsa sögulega viðburði, til dæmis um Manhattan-áætlun síðari heimsstyrjaldar, þegar Bandaríkin smíðuðu kjarnorkusprengju.
Árið 1884 kom út á Íslandi kennslurit um náttúrufræði. Höfundur var Páll Jónsson og ritið hét einfaldlega Ágrip af Náttúrusögu fyrir alþýðu. Það var hugsað sem námsbók og alþýðufræðari.
Lemúrinn fjallar um bókina í nýjasta þætti sínum og les valin brot.
Í bókinni er farið yfir helstu undirstöðuatriði í líffræði mannsins, dýrafræði, plöntufræði og undur steinaríkisins.
Eins og nærri má geta birtast úreld og vafasöm fræði í bókinni. Á þeim hundrað og þrjátíu árum sem liðin eru frá ritun þessa Ágrips eftir Pál Jónsson hafa auðvitað orðið ótrúlegar framfarir á öllum sviðum mannlífsins, ekki síst í vísindaheiminum.
Árið 1884 var nýlendustefnan í algleymi. Evrópuþjóðir sölsuðu undir sig náttúrugæði í löndum í Afríku og Asíu og beittu íbúa þeirra miklu harðræði.
Ríkjandi viðhorf hvítra manna var að aðrir kynþættir væru þeim óæðri. Þau viðhorf birtast svart á hvítu í þessari bók. Höfundur byggir á kynþáttafræði þýska náttúrufræðingsins Johann Friedrich Blumenbach sem lést árið 1840 og hafði gífurleg áhrif á fræðilega sýn Vesturlandabúa á mannskepnunni.