Upptökustjórinn og lagahöfundurinn George Morton var kallaður „skugginn.“ Það eru sennilega ekki margir sem þekkja nafn hans í dag, enda stóð skugginn lengst af í skugga annarra upptökustjóra – þá aðallega risavöxnum skugga Phils Spectors.
George Morton tróð sér í tónlistarbransann með nokkuð óvenjulegum hætti. Hann var kunningi lagahöfundarins Ellie Greenwich, sem samdi til að mynda eitt besta lag allra tíma, „Be My Baby“ sem The Ronettes sungu undir strangri stjórn áðurnefnds Spectors. En Morton var helst til ágengur við Greenwich, að minnsta kosti svo ágengur að eiginmaður hennar og samstarfsmaður, Jeff Barry, leist ekki á blikuna.
Barry og Greenwich störfuðu í hinni sögufrægu Brill-byggingu í Manhattan-hverfi New York-borgar, þar sem lagahöfundar höfðu gert garðinn frægan síðan á millistríðsárunum. Morton átti til að heimsækja skrifstofu þeirra hjóna, þar sem hann laug því til að hann væri sjálfur einnig lagahöfundur – til að ganga í augun á Greenwich.
Barry trúði skugganum hins vegar aldrei, sá að þetta var bara minnipokamaður sem væri að reyna að stinga undan honum. Barry sagði því einn daginn eitthvað í líkingu við „hei, ef þú ert lagahöfundur…hvernig væri þá að þú sýndir okkur dæmi um þessi frábæru lög sem þú ert að monta þig af?“
Barry bjóst ekki við að heyra frá Morton aftur. En sama dag ók skugginn á afvikinn stað, lagði bílnum og byrjaði að semja. Um kvöldið hafði hann lokið við gerð meistaraverksins „Remember (Walking in the Sand)“ – samið til þess eins að geta sannað fyrir Jeff Barry að hann hafi ekki verið lygari. Sem hann var. En samt ekki. Fyndið.
Óþekkt stúlknasveit, The Shangri-Las, flutti lagið að lokum og náði það alla leið í 5. sæti Billboard-listans árið 1964. Morton stjórnaði sjálfur upptökum og þótti hann hafa staðið sig vel, að minnsta kosti svo vel að honum var boðin staða upptökustjóra allra laga hjá nýju plötuútgáfu Jerry Leiber (úr tvíeykinu Leiber/Stoller sem sömdu m.a. „Stand By Me“) Red Bird Records.
Morton var því búinn að ná nokkuð langt, í sömu sporum og átrúnaðargoð hans, Phil Spector. Og ef vel er að gáð, verður að segjast að stíll þeirra beggja var nokkuð keimlíkur – já, hvort ef Morton hafi ekki bara verið að apa eftir Spector? Skugginn tók upp fleiri lög með Shangri-Las, til að mynda lagið „Leader of the Pack“ sem náði efsta sætinu á Billboard-listanum í nóvember 1964. Var það tvímælalaust hápunktur ferilsins hjá Morton.
Eftir þennan hápunkt tók við nokkuð stöðug hnignun, ef frá er talið samstarf við Janis Ian – sem skilaði plötunni Society’s Child. Á níunda áratugnum hvarf hann, bókstaflega, og vissi ekki nokkur maður eða kona hvar hann var niðurkominn. Morton glímdi við drykkjuvandamál sem olli því að hann hvarf oft svo dögum, jafnvel vikum skipti. Og það var þess vegna sem hann fékk gælunafnið, „skugginn.“ Það hafði enginn hugmynd um hvar hann væri staddur!
Morton lést í þann 14. febrúar 2013. Hann var 72 ára gamall.
Hér má heyra brot af snilld skuggans, lagið sem hann kom í efsta sæti vinsældalistans og steig þar með úr skugga annarra snillinga. Þetta er óneitanlega frábært lag.