Þeir sem eru á annað borð nógu „hugrakkir“ til að borða á veitingastöðum sem sérhæfa sig í norður-afrískri eða miðausturlenskri matargerð kannast eflaust við að fá rétti sína alla útataða í rauðu kryddi. Salat, hummus, kebap. Allt saman með rauðleitu skýi. Halda margir að hér sé um papriku-eða chiliduft að ræða, en svo er ekki. Hérna er á ferðinni kryddið sumac, sem er bara hreint ekki svo slæmt. Já, jafnvel bara mjög gómsætt!
Sumac er unnið úr Rhus-plöntunni svokölluðu sem vex aðallega í heittempraða beltinu, helst í Norður-Ameríku eða Afríku. Afbrigði plöntunnar eru um 250 en eiga það sameiginlegt að á þeim vex þykkur kjarni af steinaldinum. Þau eru oftast rauð að lit og úr þeim er sumac unnið. Hér er rétt að nefna að séu steinaldinin hvít, þá er best að varast þau. Ganga þau undir nafninu Poison Ivy og geta valdið alvarlegum ofnæmiseinkennum, útbrotum og vanlíðan. Já, og hét ekki persóna úr Batman-sögunum sama nafni?
Í matargerð er sumac vinsælast við Miðjarðarhafið og í Miðausturlöndum. Í Líbanon, Ísrael, Palestínu og Tyrklandi er það vinsælt í salöt og hummus, yfirleitt dreift yfir hvaða tegund matar sem er – sem er framreiddur í Meze, sem er nokkurs konar miðausturlensk útgáfa tapas. Í Íran er sumac ómissandi á kebap og er hér sérstaklega mælt með írönskum kebap, gefist lesendum færi á slíku góðgæti.
Bragðið af sumac er í raun svipað og bragð sítrónu, það er einfaldlega sítrus-bragð af sumac. Sem er gott og það sérstaklega fyrir okkur Norðurlandabúa, þar sem sítróna er einn vanmetnasti bragðbætir sem fyrirfinnst. Sítróna hressir nefnilega upp á allt, og það á til að gleymast. Sumac er ekki síður hressandi.
Svo skemmir ekki heldur, að rauði liturinn er bara ansi fallegur til að skreyta diskinn.