Íslendingar sem kvarta sáran yfir örlögum okkar litla eyríkis geta prísað sig sæla að búa ekki á Nárú. Suðurhafseyjan Nárú í Míkrónesíu er heimsins minnsta eyríki, aðeins 21 km² (til samanburðar er Reykjavíkurborg 273 km²). Þar búa rúmlega 10.000 manns.

 

Eyjan var sérstaklega rík af fosfati og eftir að hafa fengið sjálfstæði frá Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Bretlandi (löndin þrjú deildu stjórn landsins undir yfirsjá Sameinuðu þjóðanna) árið 1968 var hún um stund eitt af ríkustu löndum heims. Eyjarskeggjar skeindu sér á dollaraseðlum, í orðsins fyllstu merkingu. Annar hver maður keypti sér Lamborghini-sportbíl, þótt aðeins sé einn vegur á Nárú, og hámarkshraði þar 40 km/klst.

 

Planið var að safna fosfatgróðanum í fjárfestingarsjóð, rétt eins og Norðmenn með sinn digra olíusjóð, til mögru áranna, því ekki endist fosfatið að eilífu. En Nárúbúum tókst ekki alveg eins vel upp. Sjóðurinn fjárfesti í eintómri vitleysu.

 

Til dæmis eyddu þeir milljónum dollara í söngleik um ástalíf Leonardo da Vinci sem sett var upp á West End í Lundúnum. Ríkisstjórn Nárú mætti kampakát á frumsýninguna og skemmti sér að sögn konunglega, en sömu sögu var ekki að segja um aðra áhorfendur og gagnrýnendur, og leikritið lagði upp laupana eftir örfáar sýningar. (Þetta var fyrir daga Dan Brown.)

 

Heimili á Nárú.

 

Leifar eftir fosfatnámið.

 

Fosfatið var loks uppurið á níunda áratugnum. Skömmu síðar lýsti fosfatsjóðurinn yfir gjaldþroti, sem var í raun gjaldþrot náríska ríkisins, sem hafði engar tekjur umfram fosfatnámurnar.

 

Æ síðan hefur eyjarskeggjum gengið erfiðlega að fóta sig. Um tíma reyndu þeir að setja á stofn skattaparadís án árangurs og ferðamannaiðnaður er enginn þar sem ekkert er að sjá á eyjunni og loftslag óþægilegt. Í nokkur ár gátu þeir svo sníkt örfáa aura af áströlskum stjórnvöldum fyrir að reka á eyjunni flóttamannabúðir fyrir fólk sem reynt hafði að komast til Ástralíu. Þóttu aðstæður í þeim búðum mjög slæmar.

 

Í dag eru 90% íbúa eyjunnar atvinnulaus og íbúarnir virðast eyða tímanum aðallega í át, þar sem Nárúbúar eru einnig ein feitasta þjóð í heimi — 90% þeirra eru of feit.

 

Það er þó allavega fallegt um að litast á Nárú. Við lónið á eynni.

 

Myndir frá Christopher Robbins, Maddercarmine og ARM Climate Research Facility á Flickr.