Margir kannast við þjóðarrétt Tælendinga, Pad Thai. Hinn gómsæti réttur er fáanlegur um heim allan og nýtur sífellt aukinna vinsælda. Í stuttu máli er rétturinn búinn til úr Pho-núðlum, hvítlauk, chili, lauk, fiskisósu, tamarind-sósu, baunaspírum, vorlauk, muldum hnetum, eggjum og safa úr límónu – auk þess sem einhverju próteini er yfirleitt bætt við, hvort sem það kann að vera kjúklingur, svínakjöt, tofu eða rækjur.
Tælensk-bandaríski blaðamaðurinn Pitchaya Sudbanthad skrifaði skemmtilega grein á dögunum, um tilurð Pad Thai. Eins og áður segir er þetta álitinn þjóðarréttur Tælendinga, á svipaðan hátt og við Íslendingar lítum á þorramatinn. En málið er auðvitað flóknara en svo.
Pad Thai er nefnilega réttur sem hafði pólitískan tilgang. Höfundur réttarins var forsætisráðherra Tælands, Luang Phibunsongkhram (1897-1964). Luang réði ríkjum í Tælandi fyrst milli 1938 til 1944, og síðan aftur frá 1948 til 1957. Var hann forsætisráðherra Tælands að nafninu til, en í raun er óhætt að kalla hann einræðisherra. Hann réði því sem hann vildi ráða.
Það má segja að Tæland hafi verið í nokkurs konar konar „limbó“ á fyrri hluta 20. aldar, þá sérstaklega upp úr fjórða áratugnum – þar sem alvarleg pólitísk átök og valdarán voru næstum daglegt brauð. Þegar Luang komst til valda, vildi hann leggja á það áherslu að ná fram samheldni og einingu meðal þjóðarinnar. Hann rak mikla þjóðernisstefnu og reyndi því að blása Tælendingum kraft í brjóst – nú mátti þjóðin vera stolt af sjálfri sér. Pad Thai var því búinn til, sem ákveðinn sameiningarréttur Tælendinga. Sameinaði hann hin ýmsu þjóðarbrot á einni wok-pönnu, en sem dæmi þá eru Pho-núðlurnar ættaðar frá Víetnam, tamarind-sósan frá Indlandi og fiskisósan frá Kína. Ekki er talið líklegt hins vegar, að Luang hafi komist niður á þennan rétt vegna virðingar hans á sögu og uppruna þjóðar sinnar. Hann mun frekar hafa áttað sig á aðstæðunum eins og þær voru. Rétturinn var liður í því að sameina þjóðina fyrir framtíðina, með því að taka hina og þessa bita úr fortíðinni.
Þarna komum við í raun inn á enn stærri spurningu, um uppruna hefðarinnar. Spurningunni um, hvað það er sem er upprunalegt? Hvað er það sem er ekta? Ef litið er til Pad Thai, sem er óumdeilanlega þekktasti tælenski rétturinn á heimsvísu, þá passar hann sérstaklega vel inn í það sem franski félagsmannfræðingurinn Pierre Bourdieu sagði um söguna: ,,endurskipuleggja með endurliti, fortíð sem hæfir þörfum nútíðarinnar.“ Bandaríski þjóðfræðingurinn Henry Glassie, sem hefur fjallað mikið um uppruna hefða, sagði að sama skapi: ,,Sagan er ekki það sama og fortíðin. Sagan er úthugsað púsluspil mismunandi hluta úr fortíðinni, hannað til þess að gagnast framtíðinni.“
En vitið þið af hverju Pho-núðlurnar urðu hluti af Pad Thai? Nú, hrísgrjónin voru helsta útflutningsvara Tælendinga – og því heppilegra að hafa núðlur frekar en grjón! Ágætis lausn, sem hafði mikið að segja í efnahagsuppgangi Tælendinga.
Þetta er síðan hægt að heimfæra á íslenska matarmenningu. Uppruni hinna vinsælu þorrabakka er nefnilega að finna á veitingastaðnum sáluga, Naustinu. Þeir rekja ekki uppruna sinn langt aftur um aldir í neinum hefðbundnum skilningi, heldur til 7. áratugar síðustu aldar. Þorrabakkinn hefur síðan verið notaður í æ meiri þjóðernisrembutilburðum sem enn sér ekki fyrir endann á.
Hæfir það kannski þörfum framtíðarinnar?