Leikskáldið Jóhann Sigurjónsson (1880-1919) var með þekktari Íslendingum á fyrri hluta tuttugustu aldar en hann hlaut alþjóðlega frægð fyrir leikrit sín um Fjalla-Eyvind og Galdra-Loft. En Jóhann var ekki við eina fjölina felldur því hann dreymdi einnig um að verða moldríkur uppfinningamaður.

 

Snjallasta uppfinning Jóhanns — að minnsta kosti í huga hans sjálfs — var svokallað ryklok fyrir bjórglös. Lokið væri nauðsynlegt fyrir alla þá sem vildu forðast ryk og óhreinindi í glösum og myndi því fara sigurför um heiminn.

 

Í júlí árið 1916 birtist eftirfarandi frétt í blaðinu Ísafold. Er tónninn í greininni ekki dálítið kunnuglegur? Enn þann dag í dag birtast okkur fréttir á síðum blaða um leið og einhver Íslendingur er í þann mund að fara að slá í gegn.

 

Jóhanni Sigurjónssyni er fleira til lista lagt en skáldgáfan. Hann hefir einnig lagt mikla stund á uppfyndingar. Nú síðast hefir hann búið til nokkuð, sem hann á dönsku nefnir »Stövlaag«, þ. e. ryklok. Er það til þess ætlað að leggja ofan á glös og bolla til þess að firra innihaldið ryki og öðrum óþverra.

 

Ætlar Jóhann, að það muni sérlega vel til fallið í sjúkrahúsum og eins við drykkju undir beru lofti o. s. frv.

 

Hefir Jóhann fengið einkarétt á þessum hlut um Norðurlönd og er þegar farinn að selja talsvert.

 

Danska blaðið »Politiken« spáir því, að þessi uppfynding Jóhanns muni fara sigurför um landið.

 

Jóhann lét framleiða mörg þúsund ryklok um þetta leyti. Og bjóst við að rifist yrði um þau. En eitthvað fór úrskeiðis og lítið sem ekkert seldist. „Hugmyndin var ágæt. Verksmiðjum Carls Lunds leist vel á hana, og þær létu búa til 10.000 stykki af tinlokum. Því miður komst málið aldrei betur á rekspöl,“ sagði Ib Sigurjónsson eiginkona hans síðar.

 

Ryklokið góða. Skann úr bók Jóns Viðars Jónssonar um Jóhann Sigurjónsson, Kaktusblómið og nóttin.

 

Gunnar Gunnarsson rithöfundur var einn nánasti vinur Jóhanns um ævina, en þeir hófu báðir skáldferilinn í Danmörku og hlutu báðir frægð fyrir skrif sín á dönsku. Gunnar skrifaði greinina Einn sit ég yfir drykkju um kynni sín af þessum merka vini sínum, en titillinn vísar í Bikarinn, frægt ljóð Jóhanns.

 

Um gróðadrauma Jóhanns skrifar Gunnar:

 

Jóhann var einlæglega hissa á því að gullfuglarnir skyldu ekki koma fljúgandi, þegar hann bandaði til hendinni, þá því fremur þegar hann lagði sig svo lágt að setjast við fjárhættuspil eða hugsa út oddlausar hattnælur eða ryklok yfir ölglös á útiknæpum og kaupa einkaleyfi um víða veröld; — undirritaður fékk skjalfest tíu hundraðshluti af hreinum ágóða í síðasttaldri uppfinningu, vegna smávægilegra umbóta: þriggja brettinga er gerðu lokið stöðugra á glasinu þó að það hallaðist og um leið komu í veg fyrir að flöturinn snerti borðið og óhreinkaðist þegar lokið var lagt til hliðar!

 

Smíði þessa rykloks sem margfrægt var orðið meðal kunningja Jóhanns heppnaðist honum að einhverju leyti; allmikill slatti ryðgaði upp hjá honum i skemmu í Charlottenlund. Samt var hann ekki af baki dottinn; hafði framvegis mörg járn í eldinum.

 

Önnur uppfinning Jóhanns, hattaklemma. Skann úr bók Jóns Viðars Jónssonar um Jóhann Sigurjónsson, Kaktusblómið og nóttin.

 

„[Hann] var mjög skapandi maður, fluggreindur og fjölhæfur. Hann orti ekki bara ljóð heldur var hann fær stærðfræðingur og svo má ekki gleyma uppfinningunum. Gáfurnar voru því mjög víðfeðmar. […] Hann gat verið mjög sveiflukenndur eins og ýmsir aðrir í fjölskyldunni, stundum langt niðri og stundum hátt uppi,“ sagði Jón Viðar Jónsson í viðtali við Morgunblaðið árið 2004.

 

Halldór Kiljan Laxness sagði að líf Jóhanns Sigurjónssonar hefði verið eins og klassískur harmleikur. Hann var maður sem vann glæsta sigra en líka herfilega ósigra.

 

Og Sigurður Nordal sagði: „Var ekki Krummi (eins og kunningjar hans nefndu hann stundum), þessi svarthærði, fjarræni, íslenski bóndasonur, í raun og veru máttugur töframaður úr Austurlöndum, sem hafði villst inn í hinn norræna þokuheim, skilið töfrasprotann eftir í ógáti heima hjá sér, en hætti alltaf við að gleyma því, að hann gat ekki reist heilar undrahallir og gert önnur furðuverk með einni bendingu, – og varpaði samt ljóma ævintýrisins á allt í kringum sig með andríki sínu og ímyndunarafli?“

 

Jóhann lést langt fyrir aldur fram árið 1919.

 

Það er ef til vill við hæfi að enda þetta stutta spjall með Bikarnum, einu frægasta ljóði Jóhanns. Vantaði kannski ryklok á þann bikar?

 

Einn sit ég yfir drykkju
aftaninn vetrarlangan,
ilmar af gullnu glasi
gamalla blóma angan.

 

Gleði, sem löngu er liðin,
lifnar í sálu minni.
Sorg sem var gleymd og grafin,
grætur í annað sinni.

 

Bak við mig bíður dauðinn,
ber hann hendi styrkri
hyldjúpan næturhimin
helltan fullan af myrkri.