Árið 1976 fluttist enski listamaðurinn David Bowie til Vestur-Berlínar. Bugaður af vannæringu og óhóflegri neyslu á kókaíni hafði Bowie fyrir augum að taka sjálfan sig í gegn, andlega og líkamlega. Fíkniefnasalar Vestur-Berlínar hafa væntanlega fagnað þessum nýja íbúa, já og meðleigjanda hans í Schöneberg-hverfinu – engum öðrum en Iggy Pop. Að lokum tókst Bowie að gefa kókaínið upp á bátinn og eftir á að hyggja er tímabilið sem hann eyddi í Vestur-Berlín eitt það frjóasta og magnaðasta á ferli hans sem listamanns.

Hápunkturinn á þessu tímabili er, umdeilanlega, útgáfa smáskífunnar „Heroes“, titillag samnefndrar plötu sem var önnur í röð Berlínarplatna Bowies – áður hafði komið út tímamótaverkið Low og síðar Lodger. Smáskífan naut hins vegar ekki stórkostlegrar hylli fyrst um sinn. Hún komst í 24. sæti breska smáskífulistans, sem þótti ekki nógu gott miðað við fyrri smáskífur Bowies. Fyrsta smáskífan af Low, „Sound and Vision“, komst til að mynda alla leið í 3. sætið.

Það breytti því ekki að lagið var talið sérstakt. Það hafði að geyma ljósar og óljósar vísanir í nýtilkomna aðdáun Bowies á svokölluðu Krautrokki. Sú augljósasta er að finna í titli lagsins, sem vísar til lagsins „Hero“ með þýsku hljómsveitinni Neu! sem kom út á plötunni Neu! ’75. Lagið sjálft var samið af Bowie og hinum sérlundaða Brian Eno, en hann spilaði einnig undir á hljómborð á plötunni. Reyndu þeir félagar að fá gítarleikara Neu!, Michael Rother, til að sjá um gítarleikinn en án árangurs. Úr varð að Robert Fripp spilaði á gítar en hann er einna þekktastur fyrir afrek sín með proggsveitinni King Crimson.

Lagið var tekið upp í Hansa-upptökuverinu í Kreuzberg í Vestur-Berlín. Staðsetning Hansa-upptökuversins varð Bowie að innblæstri við textagerðina. Á þessum tíma stóð Berlínarmúrinn sem fastast, og út um glugga upptökuversins blasti múrinn við, með tilheyrandi varðturni þar sem vopnaðir austur-þýskir dátar stóðu vaktina allan sólarhringinn. Eitt sinn þegar Bowie var að virða múrinn fyrir sér út um gluggann, sá hann hvar maður og kona féllust í faðma og tóku til við að kyssast innilega upp við múrinn. Voru þetta reyndar upptökustjórinn sjálfur, Tony Visconti, og bakraddasöngkonan Antonia Maaß, sem létu þar undan lostafullum líkamlegum löngunum sínum. Lagið fjallar því um tvo elskendur, sem þurfa að berjast fyrir því að fá að elskast – jafnvel þótt ástin muni eingungis vara í einn dag. Bowie setur sig einnig í hlutverk upptökustjórans Visconti, og lýsir upplifuninni svo:

I can remember
Standing
By the wall
And the guns
Shot above our heads
And we kissed
As though nothing could fall
And the shame
Was on the other side

Margir myndu búast við því að skömmin sem er austanmegin við múrinn tengist pólitískum skoðunum á einhvern hátt. Líklegra þykir þó, að Bowie hafi verið að vísa þarna til þeirrar staðreyndar að Visconti var giftur söngkonunni Mary Hopkin á þessum tíma en margir muna væntanlega eftir smelli hennar; „Those Were The Days“. Visconti mun mögulega hafa skammast sín fyrir framhjáhaldið, en skilið þá skömm eftir hinum megin við múrinn. Hver veit?

Visconti gegndi engu að síður lykilhlutverki við að gera lagið jafn einstakt og það varð. Ber þar helst að nefna aðferð sem hann fann upp, til að magna upp hljóðmúrinn í upptökuherberginu – þó réttara væri reyndar að segja „upptökusal.“ Visconti stillti upp þremur hljóðnemum. Einn var staðsettur um einn metra frá Bowie. Annar var í um sjö metra fjarlægð og sá þriðji var í um 20 metra fjarlægð frá söngvaranum. Í byrjun lagsins er aðeins opið fyrir fyrsta hljóðnemann, en eftir því sem Bowie syngur hærra – er opnað fyrir þann næsta. Undir lok lagsins, þegar söngurinn er hæstur, er opið fyrir alla hljóðnemanna í einu – sem skapar magnaðan hljóðmúr með tilheyrandi „fídbakki“ og bergmáli.

Lagið þótti einstakt, og þykir enn. Svo einstakt að ákveðið var að gefa það einnig út á þýskri tungu – já, og franskri tungu líka! Þá er bara spurning hvað tungumálaséníum finnst um þessa veislu.

Auf Deutsch:

David Bowie – „Helden“

Vídjó

En français:

David Bowie – „Héros“

Original:

David Bowie – „Heroes“

Vídjó