Kornungur, myndarlegur og efnilegur háskólanemi í glæsilegum klæðum gengur í burtu alblóðugur í andlitinu.

 

Æ, hvað hefur komið fyrir, myndum við flest segja. Þarf ekki að binda fyrir sárið?

 

En hann kveinkar sér ekki. Hann brosir út að eyrum.

 

Stoltur strákur árið 1896. Þýski stúdentinn Adolf Hoffmann-Heyden með glænýtt ör eftir skylmingar. (Wikimedia Commons)

Loksins, loksins, hugsar hann.

 

Hann er loksins kominn með gríðarstórt ör sem þekur vinstri hluta andlitsins. Loksins getur hann gengið stoltur um gangana í háskólanum.

 

Þessi lýsing getur átt við fjölmarga unga þýska menn í bestu háskólum Þýskalands í lok nítjándu aldar og byrjun tuttugustu aldar.

 

Þá kepptu stúdentar í grimmilegri skylmingaíþrótt þar sem keppendur fengu stóra skurði í andlitið eftir að hafa fengið gríðarþung riddarasverð í sig.

 

Andlitsörin urðu stöðutákn og báru margir frægir og virtir menn frá þessu tímabili áberandi ör í andlitinu. Hugmyndin var að standast prófið og sýna hugrekki – ekki að meiða, heldur að verða meiddur. Sá þáttur í skylmingunum var mjög öfugsnúinn – hinn sanni sigurvegari var sá sem lauk keppni með fallegt ör.

 

Íþróttin hefur verið kölluð akademískar skylmingar eða mensur.

 

Stöðutákn
Ör eftir skylmingaeinvígi voru álitin tákn um stétt, stöðu og manndóm.

 

Helst voru hástéttarkarlmenn í Austurríki og Þýskalandi uppteknir af þessu. Hefð og tíska réðu því að ungir menn af fínum ættum gengu nær undantekningalaust í skylmingafélög í þýskum og austurrískum háskólum. Þá voru skylmingar einnig algengar innan hersins.

 

Ferðamenn sem heimsóttu Þýskaland og Austurríki um aldamótin 1900 var mjög brugðið að sjá háskólanemana í fínustu og frægustu háskólunum, til dæmis í Heidelberg, Bonn eða Jena. Þeir voru alsettir ljótum örum. Sum örin voru gömul og gróin en önnur nýleg og blóðug.

 

 

 

Andlitsöratískan var aðallega bundin við Þýskaland og Austurríki eins og áður segir, en þekktist um tíma einnig annars staðar í virtum menntastofnunum Evrópu og þar á meðal í háskólum í Oxford á Englandi. Marga hryllti þó við að sjá örin. Þjóðverjar bönnuðu einvígi og skylmingar í hernum en þær voru leyfðar um hríð í fyrri heimsstyrjöldinni.

 

Árið 1936 setti nasistastjórnin lög sem leyfðu skylmingar af þessu tagi en á sumum stöðum í Þriðja ríkinu voru ungir menn hvattir til að stunda „íþróttina“.

 

Akademískar skylmingar á þessum tíma voru gjörólíkar ólympískum skylmingum nútímans. Í stað þess að nota mjó og löng stingsverð, eins og gert er í dag, börðust keppendur með þungum og egghvössum bjúgsverðum, riddarasverðum.

 

Glaðir herramenn með ný ör.

Keppendur urðu af þessum sökum fyrir miklu alvarlegri meiðslum en nokkurn tímann skylmingamenn nútímans og báru þess merki með umræddum örum. Stundum, en ekki alltaf, notuðu stúdentarnir hlífðarfatnað.

 

137 ör eftir 13 einvígi
Það þótti fínt í skylmingunum ef menn sýndu hugrekki í einvígum með því standa uppréttir og taka við sverðahögginu, í staðinn fyrir að höggva á móti. Það þýddi að sigurvegarinn var oft álitinn sá sem gæti endað einvígi með stærðarinnar ör.

 

Það var að sjálfsögðu mikilvægt að sýna færni sína í sjálfum skylmingunum en það þótti ekki síður mikilvægt að geta sýnt manndóm í sverðaköstunum og þolað sárin með reisn.

 

Sagt er að járnkanslarinn Otto von Bismarck hafi talið örin á kinnum manna til að dæma um hugrekki þeirra.

 

Þar sem ungir menn fengu örin í þessu félagslega umhverfi, sem tengt var við fínar ætti og menntun, þóttu örin í sumum tilfellum sýna tilvonandi tengdaforeldrum að menn væru gott efni í húsbónda. Ungir sem aldnir tengdu örin við karlmennsku og menntun.

 

Vídjó

Sena úr kvikmyndinni Der Untertan, sem byggð var á samnefndri skáldsögu þýska rithöfundarins Heinrichs Mann, en hann var stóri bróðir Thomasar Mann.

 

Venjulega réðust menn á vinstri hlið höfuðsins í skylmingum til þess að hægri hliðin yrði ekki fyrir skaða. Reyndustu skylmingamenn skörtuðu þó ótal örum víða á líkamanum.

 

Árið 1877 var skrifað í bandarískri blaðagrein um þýskan háskólanema sem hafði látið lífið: „Hann barðist í þrettán einvígum en var með 137 ör á höfðinu, í andlitinu og á hálsinum.“

 

Saumuðu hrosshár í sárið
En sumir nemendur voru hræddir við einvígin. Þeir brugðu á það ráð að skera sig sjálfir í andlitið með rakhnífum eða borga lækni til að framkvæma leynilega aðgerð til að „búa til“ örið. Þá þekktist einnig á meðal þeirra að halda sárinu opnu til að stækka þau og gera „myndarlegri“.

 

Í ýktustu tilvikunum saumuðu menn hrosshár í sárið, eða notuðu salt og vín, til að framkalla ákveðna áferð á sárinu. Það var gríðarlega mikilvægt fyrir menn að sárin sæjust, svo þeir virtust hugrakkir.

 

Ör eftir einvígi var sönnun þess að menn höfðu efnivið í sér til að geta orðið meðlimir æðstu valdastétta Þýskalands og Austurríkis.

 

 

Skylmingar í Tübingen árið 1831.

 

 

Stúdent í Bonn í Þýskalandi, 1928.

 

 

 

 

Nasistinn Otto Skorzeny var með stórt skylmingaör.