Þessi skemmtilega ljósmynd mun vera frá þjóðhátíð í Reykjavík í byrjun ágúst árið 1898. Hátíðahöldin þóttu merkileg fyrir margar sakir en keppt var íþróttagreinum á borð við siglingar og hjólreiðar í allra fyrsta sinn á landinu. Dagblöðin á Íslandi fjölluðu um dagskrána og flestir virtust jákvæðir í garð þjóðhátíðarinnar. En penninn „Don Ramíró“ birti langa grein í Þjóðólfi þar sem níddi skóinn af Reykvíkingum fyrir smáborgarahátt og asnaskap. Greinin hét „Eintal sálarinnar um Landakotshátíðina“:

 

Þegar komið var undir hádegi fór eg að horfa á hátíðagönguna; gekk hún allóskipulega eins og títt er um skrúðgöngur hér á landi. Fer illa á því að „Golíatar“ og dvergar gangi samhliða í skrúðgöngu eða sjá suma menn sparibúna og velþvegna en aptur aðra í hversdagsgörmunum og óhreina svo að hattar fyrir á hálsi og úlfliðum. Þá er það ekki fögur sjón að sjá menn í hátíðagöngu hendast yfir steingarð, alveg eins og sauðkindur, sem geltinn og glepsinn rakki er að elta.

 

Síðdegis þriðjudaginn 2. ágúst var haldin siglingakeppni í Reykjavíkurhöfn í tilefni af þjóðhátíðinni. „Mun þetta vera fyrsta formlega siglingakeppnin sem sögur fara af á Íslandi. Fjórir bátar voru skráðir til leiks en aðeins tveir virðast hafa þreytt keppni. Sjór var úfinn og farið að hvessa,“ segir í fróðlegri samantekt á vef Brokeyjar.

 

Don Ramíró var ekki hrifinn af þessari keppni:

 

Þá er að nefna kappróðurinn og kappsiglinguna. Hvorttveggja var mesta ómynd frá Íslendinga hálfu. Gengur það ósvinnu næst að þreyta kappróður og kappsigling með öðrum eins fleytum og hásetum og hér var völ á, og til þess að bíta höfuðið af skömminni var útlendum flotaforingjum falin dómarastörfin. Eg hefði ímyndað mér, að það væri nóg að vér bærum kinnroða, hver fyrir öðrum, þó að vér ekki kveddum útlendinga til vitnis um amlóðahátt vorn og klaufaskap. Thomsen gamli kaupmaður var sá eini sem hélt dálítið uppi sóma vorum í kappsiglingunni. En af hinum tveim bátunum komst annar með herkjum miklum frá bæjarbryggjunni að bryggju Christensens og lá við sjálft, að hann liðaðist þar í sundur. Útbúningurinn var ekki betri en svo, að aðra stýrislykkjuna vantaði og átti 4 þuml. nagli úr Breiðfjörðsbúð að koma í hennar stað. Hásetinn sýndi ötulleik í því að stjaka bátnum á bryggjuna í staðinn fyrir frá henni. Eins má geta þess, að báturinn var ekki tilbúinn að fara út, fyr en 1/2 tíma eptir að hinir voru lagðir á stað. Hinn báturinn gat ekki „vent“ þegar til kom og formaður hafði stakt lag á því að láta seglin kala á víxl.[…] Svona fór nú um sjóferð þá.

 

Myndina tók breski ljós­mynd­ar­inn Frederick W.W. Howell, sem ferð­að­ist til Íslands og Færeyja (Cornell University Library).

 

Howell var mikið á Íslandi á síð­asta áratug nítj­ándu aldar og starf­aði meðal ann­ars sem leið­sögu­maður fyrir erlenda ferða­langa. Hann gekk á Hvannadalshnúk árið 1891, hugs­an­lega fyrstur manna, og fór yfir Langjökul þveran 1899. En Howell drukkn­aði í Héraðsvötnum sumarið 1901 og var jarð­aður að Miklabæ. Lemúrinn mælir með bók­inni Ísland Howells — Howell’s Iceland (1890–1901), eftir list­sagn­fræð­ing­inn Frank Ponzi, en hún kom út árið 2004.

 

„Howell tók þessar myndir á þeim tíma sem nútíma­menn­ing var vart farin að ryðja sér til rúms á Íslandi, og því hafa þær mikið heim­ilda­gildi,“ sagði Ponzi í við­tali við Morgunblaðið árið 2004.