Frá ritstjórn: Þessi grein birtist fyrir stuttu í O Globo, þriðja mest lesna dagblaði Brasilíu. Íslandi er um þessar mundir víða hampað fyrir að hafa tekið skynsamlega á málum í kjölfar hrunsins. En verðskuldar Ísland slíkt hrós? Hvað finnst lesendum um þá söguskoðun er birtist hér? Mun hún kannski verða ríkjandi eftir nokkrar aldir eins og ýjað er að í greininni?
Einu sinni var eyja týnd í höfum hins Mikla Norðurs, sem lá fyrir utan mörk ímyndunaraflsins.
Þessi eyja var svo köld að hún var kölluð Ísland, eða land íssins – „Islândia“ á portúgölsku.
Þar bjuggu um það bil 300 þúsund manns. Og á þessari eyju ríkti velmegun og ríkidæmi, miðað við lífskjör þess tíma.
Eyjaskeggjar voru fagrir og heilbrigðir. Lýðræðiskerfi eyjunnar var stöðugt og stjórnað af þjóðinni.
Heilbrigðis- og skólakerfi eyjunnar voru til fyrirmyndar. Íbúar eyjunnar voru allir vel nærðir, glæpatíðni lág, lífslíkur háar, vöxtur efnahagsins var sjálfbær og fór eftir reglum settum af opinberum aðilum.
Ekkert benti til að eitthvað illt gæti gerst í þessu fyrirheitna landi. Samt sem áður áttu sér stað hörmulegir atburðir þar í landi og getur upprifjun þessara atburða ef til vill hjálpað okkur að íhuga eitt og annað um kreppuna sem vekur ugg í veröldinni á okkar tímum.
Hvenær og hvernig gerðist þessi saga nákvæmlega? Virtustu fornleifafræðingar telja — og leggja fram ýmis skjöl og sannanir máli sínu til stuðnings — að hlutirnir hafi byrjað að fara úr skorðum fyrir hundruðum ára þegar 20. öldin mætti þeirri 21.
Breiddust þá um eyjuna draumórafullar hugmyndir sem borist höfðu með erlendum fjármálaspekúlöntum, Þessar hugmyndir byggðust á þremur lykilorðum: haftaafnámi, einkavæðingu og hnattvæðingu. Ef eyjarskeggjar væru færir um að þræða þessa leið, þá myndu þeir verða moldríkir, og á mjög stuttum tíma.
Fjármálamennirnir voru sannfærandi, og þjóðin ákvað að fara að ráðum þeirra. Ríkisbankarnir voru einkavæddir og alþjóðleg fyrirtæki fengu leyfi til að hagnýta sér náttúruauðlindir eyjunnar. Eftirlitsstofnanirnar, þróttlausar, lognuðust niður.
Peningar streymdu nú inn í ríkum mæli, hlutabréfamarkaðurinn margfaldaðist í verði og byggingariðnaður óx gríðarlega. Ótrúlegir hlutir gerðust, eins og það að einkavæddu bankarnir fengu lánaðar upphæðir sem voru tíu sinni hærri en það sem á þessum tíma var kallað landsframleiðsla, það er að segja, summa alls sem var framleitt af vörum og þjónustu.
Varkárar raddir muldruðu þá: „Þetta getur ekki endað vel.“
Og þetta endaði ekki vel.
Og allt hrundi einn góðan veðurdag árið 2008. Og illa. Bankarnir fóru á hausinn. Hlutabréfavísitalan hrundi niður. Efnahagslífið stöðvaðist. Atvinnuleysi rauk upp úr öllu valdi. Og eyjan sökk á kaf í skuldir.
Þá komu fram heiðvirðir menn og báðu fólk að vera rólegt. Og á einhverju óskiljanlegu máli útskýrðu þeir orsakir og afleiðingar þess sem gerst hafði. Úr öllu myndi rætast með því að beita nýju töfraorði: aðhaldssemi.
Alþjóðlegar stofnanir og alþjóðlegir bankar myndu koma þeim til hjálpar. Öll vandamál myndu leysast, jafnvel þó nauðsynlegt yrði að spenna öryggisbeltið. Að sjálfsögðu, margir myndu missa húsið sitt, eignir, atvinnu, framtíð og meira til.
Skuldirnar myndu þó verða borgaðar upp og heiðrinum þar með bjargað. Heildarlausnin, pökkuð inn með slaufu og öllu og samþykkt af þjóðarþinginu, varð að lögum. Árið 2009 gæti þjóðin verið búin að gera upp þennan reikning.
En fólkið lét ekki plata sig einu sinni enn.
Það vildi bara skilja hvernig svona hagsæl þjóð gæti orðið að betlara meðal þjóða á minna en tíu árum. Bar enginn ábyrgð á því?
Farið var út á götur með flautur og stórar trommur, hnífapörum var slegið í tóma pottana. Hoppandi og öskrandi umlukti lýðurinn þjóðarþingið, kastaði eggjum og tómötum í þingmenn. Engin lögregla gat haldið aftur af reiði fólksins.
Árið 2010 var gengið í garð þegar þrýstingurinn frá þessum skipulögðu mótmælum þvingaði fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Lögunum sem þjóðarþing hafði samþykkt var hafnað af 93% kjósenda. Skuldir fárra manna skyldu ekki greiddar af öllum. Það var nauðsynlegt að hrista þessar skuldir af sér og byrja aftur á byrjunarreit.
Þá hófst rannsókn á því hverjir væru ábyrgir. Æðstu stjórnendur og forstjórar bankanna voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Eigendur bankanna og þeir sem gátu, flúðu eins og rottur sem yfirgefa sökkvandi skip. Á sama tíma var ákveðið að semja nýja stjórnarskrá sem væri líklegri til að vernda þjóðina frá öðrum fjármálafléttum.
Um land allt fór fólk að taka þátt í þessu. Bæjarfundir voru haldnir í hverju héraði. Og allir sem í þeim tóku þátt gerðu sér grein fyrir að Hið opinbera átti skilið meiri umhyggju og varkárni. Og þá buðu sig fram yfir 500 menn sem allir voru óháðir stjórnmálaflokkum (þar sem enginn treysti lengur gömlu flokkunum). 25 þeirra voru kosnir til að semja frumvarp að nýrri stjórnarskrá, byggðri á uppástungum frá bæjarfundum, ótengdum bæði ríkisstjórn og stjórnmálaflokkum.
Frumvarp þeirra myndi síðan vera borið undir aðra þjóðaratkvæðagreiðslu. Eftirlit og höft, orð sem höfðu fallið í gleymsku, voru mikils metin á ný. Til að byrja með voru bankarnir ríkisvæddir að nýju, og fólk sammældist um að peningar allra landsmanna væru of mikilvægir til að fela á hendur fárra manna.
Þessi þjóð hefur sýnt fram á að stundum, eins og Edgar Morin sagði, gerist hið óhugsanlega. Ríkisstjórnin var felld. Stokkað var upp á þingi. Sjálfsstjórn var beitt. Ný stjórnarskrá var skrifuð þar sem aðaláherslan var lögð á fólkið í landinu en ekki peningana. Og velmegun kom á ný, eins og hagtölur fyrir árin 2011 og 2012 báru vott um.
Sannkölluð bylting. Friðsamleg og lýðræðisleg bylting.
En þetta gerðist fyrir mörgum, mörgum öldum í landi einu sem er svo langt, langt í burtu…
Kannski er það þess vegna sem það er svo sjaldgæft að maður heyri um eyland þetta og um þessa undraverðu atburði sem einu sinni áttu sér stað á fögru Íslandi, eylandi útópíunnar.
Daniel Aarão Reis er prófessor í sagnfræði við Ríkisháskólann í Rio de Janeiro (Universidade Federal Fluminense).
Luciano Dutra þýddi úr portúgölsku.