Flestir ættu að kannast við þessa súrrealísku mynd Man Ray, en fæstir þekkja sögu konunnar á myndinni. Kiki de Montparnasse var holdgervingur listalífs Parísar og er enn í dag táknmynd hugsjóna og lífsstíls bóhema millistríðsáranna. Hún var málari, söngvari, dansari, rithöfundur, fyrirsæta og vinur margra helstu listamanna 20. aldarinnar.  Hún var hin frjálsa kona.
 
Á millistríðsárunum var hvergi betri vettvangur fyrir skapandi hugsun og frelsi til óbeislaðrar tjáningar en í Montparnasse hverfinu í París og ævintýragjarnir listamenn, ferðalangar og bóhemar hvaðanæva úr heiminum flykktust þangað til að vera þátttakendur í þessu opna samfélagi lífs og listar.
 
Hverfið einkenndist af einstöku persónugalleríi skálda, rithöfunda, listmálara og heimspekinga sem komu sér oftar en ekki fyrir á kaffihúsunum Le Dôme eða La Rotonde og skeggræddu um sín hjartans mál yfir rauðvínsglasi – þar á meðal Picasso, Cocteau, Hemingway og Sartre, hóp sem Gertrude Stein kallaði týndu kynslóðina.
 
Andrúmsloft frelsisins og metnaðarins var ekki síst að þakka öflugra samskiptaneti listsala og gallería en áður þekktist, sem gerði listamönnum auðveldara að kynna og selja verk sín. Að auki gerðu borgaryfirvöld sér grein fyrir því að slíkt fríríki listamanna væri mikið aðdráttarafl fyrir ferðamennsku og því var slakað á siðgæðiseftirliti lögreglunnar í hverfinu, þannig að bóhemar, sem annars væri stungið í fangelsi fyrir  ögrandi og furðuleg látalæti, gátu stundað sína iðju í friði.
 

Lífskúnstnerinn Kiki, drottningin af Montparnasse

Án efa var þetta á meðal þess sem gerði Alice Prin – eða Kiki – kleift að brjótast undan viðjum hins hefðbundna kynhlutverks kvenna þess tíma og taka þátt í listasenunni til jafns við karlkyns félaga sína. Kiki var hjarta hverfisins sem var í augum íbúa þess miðja alheimsins.  Engum duldist að hún væri persónugervingur lífsstíls og hugsjóna tímabilsins – og var kölluð Kiki, drottningin af Montparnasse.
 
Fátækt, uppreisn og ævintýri

Alice Ernestine Prin fæddist í smábænum Châtillon-sur-Seine, í Burgundy-héraði, árið 1901. Hún ólst upp við nokkra fátækt hjá ömmu sinni, sem einnig hafði forsjá yfir fimm öðrum slysabörnum dætra sinna. Ekki var óalgengt að fjölskyldan þyrfti að þiggja ölmusu frá nunnum, sem fyrirlitu þessa fjölskylduhagi – en verst sveið Alice litlu undan afskiptaleysi föður síns, sem bjó í næsta nágrenni við þau, með eiginkonu sinni og dóttur.
 
Þegar Alice var orðin tólf ára bað móðir hennar hana um að koma til Parísar, þar sem hún bjó, svo hún gæti farið í skóla. Það gerði hún – en ári seinna, þegar Alice hafði náð löglegum lágmarksaldri til þess að fara á vinnumarkaðinn, tók móðir hennar hana úr námi og fann henni vinnu hjá bókbindara. Nokkrum árum seinna giftist móðirin fyrrverandi hermanni og sendi Alice til bakara, sem tók við henni sem lærlingi.
 
Vinnudagurinn var langur og erfiður og eftir mánuði af sálarlausu streði fyrir örfáa franka braust uppreisnarandi táningsins út og hún samþykkti boð höggmyndara um að vera módel sitt. Orðrómur þess eðlis að Alice væri að afklæða sig í herbergjum ókunnugra eldri manna barst til móður hennar, sem ruddist inn á vinnustofu höggmyndarans þegar Alice var þar. Úr ævisögu hennar: „…hún öskraði að ég væri ekki lengur dóttir sín. Ég væri skítug hóra“.
 
Alice var ekki nema sextán ára og nú var ekki nema tvennt sem hún hugsaði um: hvernig í ósköpunum hún ætti að framfleyta sér og hvernig best væri að missa meydóminn. Hún reyndi fyrst fyrir sér með fyrrverandi fjöllistamanni, en þegar á hólminn var komið hafði hann einhverra hluta vegna meiri áhuga á því að syngja væmnar ballöður fyrir hana. Næst fór hún heim með listamanni að nafni Robert og hófu þau sambúð skömmu seinna.
 

Olíuverk eftir góðvin Kiki - hinn pólska Moise Kisling.

Þegar Alice tókst ekki að finna sér vinnu lamdi  Robert hana og skipaði henni að selja sig amerískum dátum. Hún neitaði því að leiðast út í vændi, en þegar hún var smeyk við að koma tómhent heim eitt kvöld beraði hún á sér brjóstin fyrir gamlan karl á bakvið lestarstöðina við Montparnasse fyrir þrjá franka.

 

Ættleidd af listamönnum

Einn daginn var henni meinuð innganga á kaffihúsið La Rotonde, sem var vinsælt á meðal listamanna – á þeim grundvelli að hún bæri ekki hatt á höfði sér. Hún bjó þá til skondinn og klunnalegan hatt á svipstundu. Kaffihúsaeigandinn og gestir hans hrifust svo af uppátæki Alice að hún varð uppáhaldsgestur þeirra, „…listmálararnir ættleiddu mig. Sorgirnar voru að baki. Ég var enn oft mjög svöng, en allt fjörið fékk mig til að gleyma því“.
 
Eitt skipti fór hún ásamt vinkonu  að heimsækja einn listamanninn, en þær hættu við þegar þær heyrðu í kvenmanni inni hjá honum. Þær hímdu því í kuldanum úti þar til nágranni einn birtist, skikkjuklæddur maður í skóm sem voru minnst þremur númerum of stórir. Þetta var listamaðurinn góðkunni Chaim Soutine. Hann bauð þeim inn í vinnustofu sína sem var lítið eitt hlýrri – og varði hann nóttinni í að brenna allt lauslegt til að halda á þeim hita.
 
Kiki verður eftirsóttasta fyrirsæta Parísar

Á þessum tíma útveguðu módel sér vinnu í gegnum tengslanet listamanna – einn vísaði öðrum á Kiki, eins og hún var nú kölluð, þar til hún varð ein sú eftirsóttasta. Sambönd hennar við listamenn voru oftar en ekki ósvikin vinátta frekar en viðskiptalegs eða kynferðilegs eðlis. Málverk japanans Foujita Nu couché á la toile de Jouy sló í gegn á listsýningu í Salon d’Automne og seldist fyrir heila 8000 franka.
 

Nu couche a la toile de Jouy, frá 1922. Eftir Tsugouharu Foujita.

Ekki er til óyggjandi sönnun fyrir því að Kiki hafi verið módel meistarans skammlífa Modigliani, þó svo óvenjulegar vísbendingar séu fyrir því. Skapahár Kiki óx á ósamhverfan máta og notaði hún oftar en ekki kol til að jafna út þríhyrninginn. Á nokkrum myndum Modigliani gefur að líta ónefndan kvenmann sem svipar til Kiki, með skapahár sem stemmir við þessa lýsingu.
 
Í desember árið 1921 kynntist hún Man Ray, bandarískum brautryðjanda í súrrealískri ljósmyndun. Fyrst geðjaðist henni ekki að hugmyndinni um að sitja fyrir á ljósmyndum, en þegar hún fékk að líta myndirnar sem Man Ray tók af henni varð hún ólm í að halda áfram samstarfinu. Þau hittust öðru sinni í stúdíói hans, en engar myndir voru teknar það eftirmiðdegi. Man Ray var elskhugi hennar næstu sex ár.
 
Söngur og dans – og týndar greiður

Le acrobat, 1929. Eitt af olíuverkum Kiki.

Árið 1923 færðist meira fjör í Montparnasse þegar skemmtistaðurinn The Jockey opnaði og að sjálfsögðu tók Kiki þátt í skemmtiatriðunum. Hún söng kabarett-lög með djörfum textum og dansaði can-can. Oftar en ekki lyfti hún pilsi sínu svo hátt að gestirnir sáu meira en gerist og gengur. Kiki kaus nefnilega að ganga ekki í nærbuxum, svo hún gæti pissað á sem auðveldastan máta á fylleríum.
 
Klúbburinn varð miðstöð skemmtanalífs Parísar og þar mátti bera augum alla helstu listamenn og kvikmyndastjörnur samtímans. Á þessum tíma gerði Kiki sér ferð til Bandaríkjanna og ákvað að reyna fyrir sér í kvikmyndabransanum. Rétt áður en hún átti að mæta í prufu hjá Paramount kvikmyndaverinu áttaði hún sig á því að hún hefði gleymt greiðunni sinni heima og hætti við að mæta. „Það er hvort sem er miklu skemmtilegra að horfa á myndir en að gera þær“ sagði hún og sá ekki eftir neinu.
 
Le Violon d’Ingres

Kiki nakin, 1928. Olíuverk eftir hinn norska Per Krogh.

Þekktasta myndin af Kiki er án efa efsta mynd þessarar greinar – Le Violon d’Ingres, eftir unnusta hennar Man Ray. Titillinn inniber tvíþætta vísun: annars vegar til málarans Ingres sem Man Ray dáði mjög – og hinsvegar er þetta orðaleikur. Le Violon d’Ingres þýðir áhugamál eða ástríða, sem gefur í skyn að Kiki sé eins konar leiktæki Man Ray, líkt og fiðla.
 
Þetta leiðir hugann óhjákvæmilega að þeirri mótsögn sem fólst í lífstíl Kiki, hún var kölluð une femme liberée, hin frjálsa kona, en engu að síður var hún sífellt hlutgerð af listaheiminum sem hún var hluti af  – og birtist þetta hvað best á umræddri mynd Man Ray.
 
Myndirnar af henni eru eftir karlkyns listamenn og endurspegla sýn karla á konur og kvenleika. Þeir eignast og ráða yfir líkama þeirra og ímynd, jafnt í lífinu sem í listinni.
 
Ásökuð um vændi

Árið 1925 komst Kiki í kast við lögin. Hún ferðaðist ásamt vinum til miðjarðarhafsbæjarins Villefranche-sur-Mer. Á þessum tíma var bandaríska herskipið S.S. Pittsburgh statt við höfnina og því nokkuð um vændiskonur í bænum.
 

Kiki, 1921. Eftir Maurice Medjinsky, einn af ástmönnum Kiki.

Kiki og vinir hennar höfðu mikið gaman af félagsskap sínum við þessa erlendu gesti, en eitt sinn þegar hún fór ein að leita að einum dátanum inni á kaffihúsi kallaði eigandinn samstundis til hennar: „Engar hórur hingað inn!“ Kiki fokreiddist, braut disk á höfði hans og stormaði út.
 
Daginn eftir mætti lögreglumaður á hótelið hennar og ætlaði að færa hana niður á lögreglustöð. Þegar hann greip fullfast í hana til að taka hana með sér sló hún til hans með töskunni sinni.
 
Hún var færð í fangaklefa í Nice og dagblöðin fjölluðu um málið, þar sem hún var nafngreind og kölluð vændiskona. Verjandi hennar trúði ekki frásögn hennar og hélt að hún væri ekki annað en dæmigerð þrætusöm vændiskona frá höfuðborginni. Man Ray og vinir hennar í París nýttu áhrifamátt sinn til að liðsinna Kiki. Eftir nokkur meðmælabréf frá þekktum listamönnum til verjandans og dómarans hlaut Kiki minniháttar dóm og dagblöðin kölluðu Kiki „…sjarmerandi 22 ára stúlku sem sér mikið eftir að hafa slegið til lögregluþjóns.“
 

Kiki rak kabarettinn Chez Kiki í nokkur ár. Myndina tók Brassai.

Þetta var ekki eina skiptið sem lífsstíll hennar og fas var ranglega túlkað. Þrátt fyrir að vera kynferðislega frjáls manneskja og yfirlýsingaglöð um dásemdir kynlífs, varð hún oftar en ekki fyrir óvelkomnu áreiti karla á The Jockey. Þegar dólgur einn greip fast um brjóst hennar, sló hún hann og elti út á götu. Hamaganginum lauk ekki fyrr en að barþjónninn, stór og stæðilegur Svíi, bar Kiki aftur inn á klúbbinn og róaði hana niður.
 
Það að Kiki hafi reynt að njóta sama frelsis í kynferðismálum og karlmenn þýddi sumsé að hún var álitin skækja – af siðferðispostulum sem vildu henda henni í fangelsi, jafnt sem þeim sem vildu greiða fyrir aðgang að líkama hennar.
 
Velgengni, skandalar og eggjakökur

Kiki fékkst sjálf við listmálun og hélt afar farsæla sýningu árið 1927. Sýningin var fjölsótt og seldust verk hennar ansi vel. Einn af þeim sem komu við á opnunardeginum var innanríkismálaráðherrann Albert Sarrault, sem Kiki heilsaði með orðunum „Þú ert ágætis náungi – þú átt ekki heima innan um alla þessa ráðherrabjána. Flyttu til okkar og sittu fyrir á myndum fyrir mig“. Árið 1929 gaf hún út ævisögu sína, þá aðeins 28 ára gömul.
 
Sjálfur Hemingway samþykkti að skrifa formála ensku útgáfu bókarinnar og þar sagði hann meðal annars: „Í um tíu ár var hún eins nálægt því að vera drottning og nútímakonur í dag komast, en það þýðir ekki endilega að hún hafi hegðað sér eins og dama“. Bókin seldist vel í Frakklandi en tollurinn í Bandaríkjunum gerði bókina upptæka þegar farmurinn barst til Public House útgáfunnar, þar sem frést hafði út að efni hennar væri ekki siðsamlegt.
 

Bronsstytta af Kiki frá 1928, eftir Pablo Gargallo

Í öllum sögum sem til eru af Kiki er hún ávallt miðpunktur athyglinnar, umkringd hlæjandi vinum og aðdáendum. Hún kunni þá list að vera opinská án þess að særa blygðunarkennd nærstaddra, að segja djarfa brandara án þess að vera smekklaus, gróf án þess að móðga. Hún sagði eitt sinn við mann sem sýndi henni engan áhuga: „Þú ert ekki alvöru homme (karlmaður), þú ert homme-lette (sem hljómar eins og orðið omelette, eggjakaka)“.
 
Laukur, brauð og rauðvín

Í annarri sögu sést vel hvaða mann hún hafði að geyma. Á veitingastaðnum La Coupole tók hún eftir ungri stúlku sem grét úti í horni. Barn hennar hafði látist og hún átti engan pening til að leggja í jarðarförina, ekki einu sinni nóg til að kaupa blóm.
 
Kiki bað þjóninn um að færa stúlkunni glas af brandy og nóg að borða. Því næst gekk hún milli borða og lyfti fæti sínum í can-can dansstíl og sagði „Þetta var virði minnst eins eða tveggja franka“. Eftir stundarkorn mætti hún aftur með hrúgu af peningum sem hún færði stúlkunni, með orðunum: „Hérna, núna hefur þú nóg fyrir jarðarförinni, blómunum og nýjum fötum“.
 

Kona með sígarettu. Kees van Dongen,1922.

Kiki de Montparnasse lést fyrir aldur fram, árið 1953,  líkaminn illa farinn eftir ýmsa kvilla og langvarandi áfengis- og fíkniefnanotkun. Árin eftir seinni heimsstyrjöld höfðu ekki verið henni góð. Gömlum vinum sem rákust á hana brá þegar þeir sáu hversu illa var fyrir henni komið, en hún neitaði að þiggja hjálp. „Það eina sem ég þarf í lífinu er smá laukur, brauð og rauðvín – og það er alltaf einhver reiðubúinn til þess að gefa mér það“.
 
Fjölmennur hópur aðdáenda og vina fylgdu henni til grafar. Á grafsteini hennar segir: Kiki, 1901-1953, söngkona, leikkona, málari – drottningin af Montparnasse.
 

Vídjó