„Hún er fallegasta kona sem ég hef nokkurntímann séð. Hávaxin, ljóshærð með skjannahvíta húð […] Eftir að hún fer get ég enn fundið lyktina af líkama hennar. Ég sleiki prjónana og diskana sem hún notaði. Ég finn bragðið af vörunum á henni. Ástríða mín er svo mikil. Mig langar til þess að borða hana. Ef ég borða hana verður hún mín að eilífu. Ég get ekki sloppið. ”
Sagawa Issei var fyrirburi, lítill og veikburða frá fæðingu. Hann fæddist árið 1949 inn í ríka og valdamikla fjölskyldu í Kobe í Japan. Hann var aðeins einn og hálfur metri á hæð þegar hann loks náði fullri stærð og smæð hans olli honum ætíð miklu hugarangri. Hann var einrænn og bókhneigður, og lamaður af minnimáttarkennd. Hans eini vinur í bernsku var eldri frændi hans sem sagði honum hryllingssögur af djöflum sem ætu börn. Þeir fóru í mannætuleiki þar sem frændinn stakk Issei litla í pott og þóttist sjóða hann.
Þessir bernskuleikir höfðu djúp áhrif á Sagawa — æ síðan var hann með mannát á heilanum. Hann dreymdi stöðugt um að leggja sér til munns hold fallegra kvenna. Sérstaklega var hann spenntur fyrir hávöxnum evrópskum konum, sem honum fannst vera einskonar heillandi andstæða við hann sjálfan, lítinn og ljótan.
Þegar Sagawa var 23 ára gamall, við háskólanám í Tókýó, fluttist þýsk kona í nágrenni við hann. Sagawa fékk hana á heilann. Nótt eina braust hann inn til hennar, vopnaður regnhlíf og með Frankenstein-grímu til að hylja andlit sitt. Innbrotið var illa úthugsað og bröltið í Sagawa vakti konuna, sem átti ekki sérlega erfitt með að yfirbuga hann.
Sagawa var kærður fyrir tilraun til nauðgunar en þýska konan hætti við ákæru þegar viðskiptajöfurinn faðir Sagawas kom aðsvífandi og borgaði henni dágóða summu fyrir að halda kjafti.
Sagawa hélt sig á mottunni næstu ár. Hávaxnar evrópskar konur urðu enda ekki oft á vegi hans, og japanskar konur heilluðu hann ekki.
Árið 1977 hélt hann til Frakklands í mastersnám í bókmenntafræði við Sorbonne-háskóla. Í París var hann umkringdur fallegum hvítum konum dag hvern. Þó virtist hann geta bælt niður hvatir sínar. Hann gat sér orð sem afburðanemandi og einbeitti sér að lokaritgerð sinni um Nóbelsskáldið og landa sinn Kawabata Yasunari.
Það var ekki fyrr en eftir fjögurra ára dvöl í Frakklandi sem Sagawa varð virkilega ástfanginn. Renée Hartevelt var 25 ára gömul, hávaxin og einstaklega falleg. Hún var nýflutt til Parísar frá Hollandi til þess að stunda nám við Sorbonne.
Sagawa mjakaði sér inn í líf hennar undir því yfirskini að hún kenndi honum þýsku, sem hún talaði reiprennandi. Þau urðu fljótt góðir vinir, Renée fannst hinn smávaxni Japani vel máli farinn og indæll. Á næstu mánuðum borðuðu þau oft saman og ræddu um bókmenntir. En það nægði ekki Sagawa.
Þann 11. júní 1981 bauð hann Renée heim til sín og bað hana um að lesa fyrir sig ljóð á þýsku inn á segulband. Þegar hún sneri baki í hann og hóf að lesa skaut hann hana með riffli sem hann hafði keypt mörgum mánuðum fyrr. Hún dó samstundis.
Sagawa hófst handa.
Fyrst smakkaði hann á hráum bita úr annarri rasskinninni á henni, en honum til vonbrigða var hann nokkurn veginn bragðlaus. Næstu tveimur sólarhringum eyddi hann einn með líki Renée og prófaði sig áfram með mismunandi líkamsparta og innyfli. Flest steikti hann og borðaði með sinnepi. Mjaðmirnar og lærin voru best, sagði hann síðar.
Hann svaf líka hjá líkinu og talaði við það, sagði „ég elska þig“ á frönsku, aftur og aftur.
Þegar flugur byrjuðu að sitja um lík Renée skar Sagawa það niður í bita, setti þá ljúffengustu inn í ísskáp en tróð leifunum niður í tvær ferðatöskur. Þegar tók að dimma fór hann í leigubíl með ferðatöskurnar í almenningsgarð í nágrenninu. Hann reyndi ekkert sérstaklega að láta lítið fyrir sér fara og fjölmargir vegfarendur tóku eftir skrýtna, smávaxna manninum sem dró á eftir sér tvær þungar ferðatöskur.
Hann ætlaði að losa sig ferðatöskurnar ofan í stöðuvatn í garðinum, en hætti við þegar hann sá að vegfarandur horfðu forviða á hann þar hann reyndi veikum mætti að drösla þeim ofan í vatnið. Hann lagði á flótta og skildi illa leiknar líkamsleifarnar eftir fyrir allra augum.
Lögreglunni var gert viðvart og hún var ekki nema tvo daga að hafa upp á litla asíska manninum sem hafði tekið leigubíl í almenningsgarðinn þetta sumarkvöld. Þegar lögreglumenn rannsökuðu íbúð Sagawa var ekki um að villast að hann var sekur.
Ekki nóg með að blóð Renée væri um alla íbúð og bitar af henni inni í ísskáp heldur hafði hann einnig tekið morðið sjálft upp á segulband og tekið ljósmyndir af líki hennar. Sagawa var líka ólmur að játa á sig verknaðinn og sýndi enga iðrun. Hann virtist jafnvel stoltur af því.
Sagawa var úrskurðaður geðsjúkur og ófær um að verða færður fyrir rétt. Honum var komið fyrir á geðveikrahæli í París og átti að dúsa þar um ókomna tíð. En þá kom aftur til skjalanna faðir Sagawas. Hann réð fínasta og dýrasta lögfræðing í Frakklandi sem sannfærði frönsk yfirvöld um að sonurinn væri byrði á frönskum skattgreiðendum og rétt væri að framselja hann til Japans.
Rúmum tveimur árum eftir morðið var Sagawa settur upp í flugvél og farið með hann heim til Japans. Þar var hann settur inn á geðveikrahæli en það var í raun ekkert sem hélt honum þar, og árið 1984 stóð hann einfaldlega upp og fór. Æ síðan hefur hann verið frjáls maður.
Ef til vill er líf Sagawa Isseis síðan hann losnaði af geðspítalanum það allra ósmekklegasta við þennan ósmekklega atburð.
Örlög Renée Hartevelt vöktu gríðarlega athygli í Japan og hinum frjálsa Sagawa fannst sjálfsagt að nýta sér þá athygli. Hann skrifaði bók, Í þokunni, þar sem hann lýsir ódæðisverkinu á ítarlegan og miður geðslegan hátt.
Bókin varð margföld metsölubók, og Sagawa hefur skrifað meira en tólf bækur í viðbót. Flestar eru um morðið — en einnig hefur hann skrifað bækur um aðra morðingja, leiðarvísi um París og leikrit, jafnvel teiknað myndasögu um sjálfan sig. Hann hefur haldið fyrirlestra í virtustu háskólum Japans, gefið út plötu, leikið í klámmyndum, komið fram í matreiðsluþáttum og skrifað veitingahúsagagnrýni fyrir japönsk tímarit.
Á þessu lifir hann góðu lífi og hefur meira að segja efni á að bregða sér reglulega til útlanda að frílysta sig. Jafnan í fylgd með ungum, hávöxnum hvítum konum sem hann kynnist úti á næturlífinu í Tókýó, og hafa ekki hugmynd um hvað Sagawa gamli dundaði sér við á námsárunum í París.
Sumarið 1998 kom hann til dæmis Íslands með ungri austurrískri vinkonu sinni, sem var við nám í japönskum háskóla. Hún var meira en höfðinu hærri en hann. Þau fóru á helstu ferðamannastaði hérlendis og löbbuðu um Reykjavík í sumarblíðunni. Sagawa var hrifinn af íslenski náttúrufegurð og er honum ferðin mjög eftirminnileg. Á myndinni hér á undan, sem er úr einkasafni Sagawa, standa þau fyrir utan Næpuna svokölluðu við Þingholtsstræti.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur Lemúrnum ekki tekist að hafa upp á austurrísku stúlkunni. Það er því spurning hvort að hún hafi yfirleitt snúið aftur úr Íslandsferðinni.
Sólgin í enn meiri hrylling? Svarta bókin er einstakt safn frásagna um ýmsa skelfingarviðburði úr sögu og samtíð okkar eftir ritstjóra Lemúrsins.is. Bókina má fá í öllum betri bókaverslunum.