Dýrlingar – hvað eru þeir eiginlega margir? Talið er að í kaþólsku kirkjunni einni séu yfir tíu þúsund dýrlingar, en hin sanna tala er á reiki, þar sem þeir eru orðnir allt of margir til þess að halda tölu á. Svo eru aðrar kirkjudeildir með sína eigin dýrlinga, og allt saman er þetta hið flóknasta mál.

 

Og þegar um er að ræða slíkan skara af dýrlingum er augljóst að inn á milli hinna allra heilögustu slæðast ýmsir sem kannski eru ekki alveg jafn sannfærandi, eða eru bara á einhvern hátt stórfurðulegir. Hér hefur Lemúrinn tekið saman nokkra allra furðulegustu dýrlinga kristninnar.

 

 

 

Sankti Drogo

 

Drogo var flæmskur aðalsmaður uppi á 12. öld. Á unglingsaldri sagði hann skilið við jarðneskar eigur sínar og gerðist fjárhirðir. Eftir nokkur ár sem fjárhirðir í Norður-Frakklandi fór hann í pílagrímsferð til Rómar en á leiðinni var hann sleginn undarlegum sjúkdómi. Hann afmyndaðist svo í andlitinu að fólk fylltist ótta og andstyggð við að berja hann augum. Þess vegna var hann lokaður inni í pínulitlum, myrkum klefa með einungis einn smáglugga sem hann fékk sakramentið í gegnum. Þar bjó hann í meira en fjörutíu ár og nærðist einungis á vatni og byggi.

 

VERNDARDÝRLINGUR: ljótra og þeirra sem aðrir telja viðbjóðslega í útliti, kaffihúsaeigenda, gallsteina o.fl.

 

 

 

Sankti Kristófer

 

Ýmsar sögur eru á kreiki um Kristófer sem ku hafa verið uppi um miðja þriðju öld. Samkvæmt rétttrúnaðarkirkjunni var hann berbneskur stríðsmaður sem var tekinn höndum af Rómverjum í Egyptalandi. Hann á að hafa verið risavaxinn að stærð, sólginn í mannakjöt og með höfuð hunds í stað manns. Þrátt fyrir þessa undraverðu fötlun snerist Kristófer til kristni og hóf að boða trúna og var að lokum tekinn af lífi fyrir trúboð í Antíokkíu.

 

Sankti Kristófer lét ekki fötlun og óhefðbundið útlit aftra sér frá því að breiða út fagnaðarerindið.

 

VERNDARDÝRLINGUR: piparsveina, flogaveiki, tannpínu, ávaxtasölumanna o.fl.

 

 

 

Sankti Rochus

 

Rochus var Frakki sem læknaði sjúka á Ítalíu á dögum plágunnar miklu. Þegar hann sjálfur sýktist fór hann út í skóg og byggði sér kofa úr trjágreinum og laufum. Þar hefði hann svelt í hel hefði ekki verið fyrir veiðihund sem kom og færði honum reglulega brauð. Rochus er alltaf sýndur með annan fótinn nakinn og gapandi graftarkýli á lærinu og oftar en ekki er hinn tryggi hundur við hlið hans, annað hvort með brauðbita í kjaftinum eða sleikjandi graftarkýlið.

 

Rochus og hundsi.

 

VERNDARDÝRLINGUR: hunda, veikra nautgripa, flísagerðarmanna, hnévandkvæða o.fl.

 

 

 

Sankti Bartólómeus

 

Bartólómeus var einn tólf lærisveina Krists. Eftir dauða Jesúa á hann að hafa ferðast um allan heim að boða guðs orð. Hann hefði þó betur sleppt því að fara til Armeníu, því trúboð hans þar fór eitthvað í taugarnar á innfæddum sem húðflettu hann og krossfestu. Myndir af Bartólómeusi sýna hann því ætíð dröslast með afskorna, blóðuga húðina af sér.

 

St. Bartólómeus með húðina góðu eins og hann birtist okkur á vegg Sixtínsku kapellunnar. Telja margir að hið gretta andlit á afflettri húðinni sé sjálfsmynd málarans, Michelangelo.

 

VERNDARDÝRLINGUR: Armeníu, leðursmiða og sútara, flórenskra osta- og saltkaupmanna o.fl.

 

 

 

Sankti Símon

 

Símon, betur þekktur sem Símon vandlætari, var sömuleiðis einn af tólf lærisveinum Jesú. Líkt og Bartólómeus fór hann í langferðir til að boða trúna og dó á endanum píslardauða í fjarlægu landi. Sögum ber ekki saman hvernig dauða hans bar að garði, en samkvæmt einni útgáfu á hann að hafa verið tekinn til fanga í Persíu og sagaður í sundur. Hann er því oftar en ekki sýndur með stóra sög sér við hlið.

 

Sankti Símon sagaður.

 

VERNDARDÝRLINGUR: sögunarmanna o.fl.

 

 

 

Sankti Margarét frá Antíokkíu

 

Margrét af Antíokkíu var með vinsælari dýrlingum á miðöldum. Hún var dóttir heiðingjaprests á 4. öld en snerist til kristni. Þetta reitti föður hennar til reiði sem lét henda henni í fangelsi. Þar hitti hún djöfulinn sjálfan í drekalíki sem gleypti hana í einu lagi. En sem betur fer var hún með kross í hendinni sem hún notaði til að skera gat á drekann og slapp út ósködduð. Hún er sýnd stíga upp úr líki drekans með krossinn trausta í hönd.

 

Margrét kemur upp úr drekanum.

 

VERNDARDÝRLINGUR: fæðinga og barnshafandi kvenna, nýrnasjúkdóma, útlaga o.fl.

 

 

 

Sankti Agata frá Sikiley

 

Agata var fögur yngismey í Rómaveldi á 3. öld sem vildi ekki ganga að eiga valdamikinn dómara sem girntist hana. Hann lét því taka hana höndum og pynta hroðalega; húðstrýkja, teygja úr henni á píslarbekk og loks skera af henni brjóstin. Hún er sýnd bera afskornu brjóstin af sér á diski. Sikileyingar halda og upp á messu hennar 5. febrúar með því að gæða sér á litlum marsipanbrjóstum.

 

'Píslarvættisdauði St. Agötu' Sebastiano del Piombo til vinstri, og til hægri helgimynd af henni með brjóstadiskinn.

 

VERNDARDÝRLINGUR: brjóstakrabbameins, eldgosa, bjöllusmiða, bakara o.fl.

 

 

Sankti Díonísus

 

Díonísus var biskup í Parísarborg á þriðju öld. Hann var sérstakur áhugamaður, líkt og margir aðrir kristnir, um trúboð og sneri svo mörgum til kristinnar trúar að hann reitti heiðingjaprestana í París til reiði. Prestarnir fóru því með hann upp á hæstu hæð borgarinnar og hálshjuggu hann. Það reyndist ekki nóg til að stoppa Díonísus því hann stóð á fætur, tók höfuðið upp og gekk þrjá kílómetra og fór með prédikanir alla leiðina.

 

Brot úr 'Píslarvættisdauða St. Díonísusar' eftir Léon Bonnat.

 

VERNDARDÝRLINGUR: höfuðverks, hundaæðis, vatnshræddra, Parísar o.fl.

 

 

 

Sankti Lúsía

 

Saga Lúsíu er mjög svipuð kynsystur hennar, Agötu. Lúsía var einnig guðhrædd sikileysk yngismey sem neitaði að giftast. Vonbiðill hennar reyndi þá að þvinga hana til að ganga í hóruhús, en Lúsía var svo þung að hann gat ekki haggað henni. Þá lét hann pynta hana með því að krækja úr henni augun og drepa hana svo. Hún hefur augun ætíð með sér á diski rétt eins og Agata brjóstin. Af einhverjum ástæðum nýtur Lúsía mikilla vinsælda meðal hinna sannlútersku Svía sem halda upp á messu hennar 13. desember.

 

Sankti Lúsía með augun. Var hún rangeygð?

 

VERNDARDÝRLINGUR: blindra, sölumanna, kverkasýkinga o.fl.

 

 

 

Sankti Antoníus

 

Antoníus mikli, kallaður faðir kristins klausturlífs, fæddist í Egypalandi um miðja þriðju öld. Honum gekk svo illa að einbeita sér að trúnni að hann flutti lengst út í eyðimörkina. En jafnvel þar sótti að honum leti, leiðindi og tálsýnir af konum. Þannig að hann gróf sér gröf og dvaldi þar niðri í jörðinni í mörg ár.

 

Tálsýnirnar sem herjuðu á aumingja Antoníus eru sívinsælt mótíf í listasögunni. Michelangelo málaði þetta dæmalaust skemmtilega málverk byggt á málmristumynd eftir Schongauer.

 

VERNDARDÝRLINGUR: grafara, aflimaðra, svína, týndra hluta, skinnsjúkdóma, o.fl.

 

 

 

Sankti Símon stílíti

 

Símon stílíti var ungur maður í Býsansríki á fjórðu öld sem sóttist eftir æ öfgafyllri leiðum til að túlka trú sína. Eftir að hafa reynt að fara í klaustur og loka sig inni í helli án þess að fá frið reisti hann sér 15m háa súlu og bjó ofan á henni í 37 ár til dauðadags. Hann fyllti margar eftirhermur andagift og næstu árin voru meinlætamenn sitjandi á háum steinsúlum algeng sjón í Býsans.

 

Úr kvikmynd Luis Buñuels, 'Simón del desierto'.

 

VERNDARDÝRLINGUR: einskis!

 

 

 

Sankti Jósef frá Copertino

 

Jósef af Copertino var þroskaskertur en sérlega guðhræddur munkur á Ítalíu á 17. öld. Hann var gæddur þeim eiginleika að í hvert sinn sem hann heyrði sálm eða nafn Jesúa eða Maríu tókst hann á loft og flaug stjórnlaust upp í loft. Þetta kraftaverk olli honum og hinum munkunum talsverðum óþægindum svo að St. Jósef var færður fyrir rannsóknarréttinn og að lokum gerður útlægur.

 

Sankti Jósef tekst á loft á málverki eftir Ludovico Mazzanti.

 

VERNDARDÝRLINGUR: flugs, geimfara, prófa, lélegra nemenda, geðfatlaðra o.fl.

 

 

 

Sankti Kristín hin undraverða

 

Þegar Kristín hin undraverða var 21 árs, í Belgíu á 12. öld, fékk hún harkalegt slag og allir héldu að hún hefði látist. En í jarðarfararmessu sinni lifnaði hún við og sveif um kirkjuna. Eftir þetta hegðaði hún sér mjög undarlega. Hún þoldi ekki að vera innan um fólk vegna „óþefs syndarinnar“ sem stafaði af þeim svo að hún faldi sig innan í skápum og ofnum, klifraði í trjám eða tókst á loft. Hún hafði einnig gaman af því að velta sér í eldi og standa í ísköldu vatni svo klukkustundum skipti án þess að verða meint af.

 

Kristín hin undraverða var sífellt til vandræða. Málverk eftir Cynthiu Large.

 

VERNDARDÝRLINGUR: geðsjúkra, brjálaðra, geðlækna o.fl.