„Er leyfilegt að flytja inn og selja hreinar ópíumsígarettur?
Í gær kom maður hér í bænum inn á viðtalsstofu mína og vildi selja mér 10 pakka af sígarettum, sem hann gerði ráð fyrir að einhverjum af sjúklingum mínum gæti þótt góðar.
Taldi hann þær góðar til lækninga á asthma. Vana verð taldi hann 3 kr. á pakka, en eg átti að fá þær með sérstöku verði, 1 kr. pakka, á meðan eg væri að prófa þær.
Utan á pakkanum stóð cannabis indica fullum stöfum og að sígaretturnar væru búnar til í lyfjabúð í París.
Það sem beit höfuðið af skömminni var álímdur miði: „Vindlingar. Tollur greiddur“.
Í gærkveldi varð eg var við að sígaretturnar voru víða komnar um bæinn og sumum kaupendum beinlínis sagt frá áhrifum þeirra.
— Mér er spurn, slær það opinbera verndarhendi yfir það, sem í öðrum löndum er nú talið glæpsamlegast allra glæpa, eiturnautnalyfjasölu?
–Læknir“
Vísir, 12. nóvember 1926.
(Efri mynd eftir Torbakhopper. Flickr CC.)
Einföld leit á Google leiðir í ljós að umræddar sígarettur – merktar Cannabis Indica (sem bendir auðvitað til að þær voru ekki úr ópíum, heldur kannabis) – voru algengar á fyrri hluta tuttugustu aldar og notaðar, eins og fram kom, gegn astma: Cigarettes Indiennes (Cannabis Indica) Contre L’Asthme. Grimault’s Paris.