Langt fram á 20. öld var það álitinn heilagur sannleikur að konur gætu ekki hlaupið svokallað maraþonhlaup — hin langa vegalengd, 42 kílómetrar, væri viðkvæmum líkömum þeirra einfaldlega um megn.

 

Fyrsta konan sem hljóp maraþon sem skráður keppandi með keppnisnúmer var Kathrine Switzer, sem hljóp hið gamalgróna Boston-maraþon árið 1967. Konum var þá bannað að taka þátt í hlaupinu, en Switzer skráði sig undir nafninu „K. V. Switzer“ og tók hvergi fram kyn sitt. Hún var tvítug.

 

Önnur kona, Bobbi Gibb, hafði hlaupið í Boston árið áður. Hún skráði sig þó ekki, heldur faldi sig í runnum við upphaf hlaupsins og laumaði sér inn í karlahópinn. Hún hljóp á tímanum 03:21:40 en fékk það hvergi skráð, þar sem hún var ekki gildur keppandi.

 

Kathrine Switzer hafði hlaupið rúma sex kílómetra þegar skipuleggjandi hlaupsins, Jock Semple, kom auga á hana innan um aðra hlaupara. Að sjá konu í hlaupinu virðist hafa fyllt hann ævareiði. Hann stökk út á veginn og þreif í Switzer, hrópandi: „Hypjaðu þig úr hlaupinu mínu og komdu með þetta númer!“

 

Aðrir keppendur komu Switzer til hjálpar og snéru Semple niður. Hún hélt áfram að hlaupa og kom að lokum í mark á tímanum fjórir tímar og tuttugu mínútur.

 

Fimm árum síðar, 1972, var konum loks leyft að taka þátt í Boston-maraþoninu.

 

Skipuleggjandinn Jock Semple ræðst á Katherine Switzer.