Í litlu sveitaþorpi í Paragvæ bera sumar göturnar þýsk nöfn. Sveitin ber nafnið Nueva Germania, (ísl. Nýja-Germanía) en íbúarnir eru afkomendur þýskra bænda sem fluttu til staðarins seint á nítjándu öld með hjónunum Bernhard Förster og Elisabeth Nietzsche en hún var systir heimspekingsins Friedrichs Nietzsche. Draumur skötuhjúanna var að skapa hreinræktaða aríanýlendu. Þær áætlanir enduðu með ósköpum.

 

Elisabeth Nietzsche var afar náin Friedrich bróður sínum á meðan þau ólust upp í þýska bænum Röcken í Saxlandi, sem þá var hluti af Prússlandi. Á námsárunum fór hið nána samband nokkuð dvínandi, enda bjuggu systkinin á ólíkum stöðum og ræddu ekki mikið saman, nema með bréfaskriftum. Þegar Elisabeth kynntist manni að nafni Bernhard Förster breyttist hins vegar allt.

 

Friedrich Nietzsche hafði óbeit á þeim manni og fordæmdi ástarsamband þeirra. Systkinin hættu að skrifast á eftir að þau náðu fimmtugsaldri en þá hafði Elisabeth giftst Bernhard árið 1885.

 

Gyðingahatur
Bernhard þessi Förster var menntaskólakennari sem ungur hafði hrifist af kynþáttahyggju öfgahægrisinnaðra afla í þýskum stjórnmálum. Hann varð svo einn helsti fánaberi hreyfingarinnar, Deutscher Volksverein (Þýska þjóðarsambandsins), sem barðist gegn gyðingum.

Hjónin Elisabeth Nietzsche og Bernhard Förster.

 

Hugmyndir Försters og bandamanna hans um „sníkjudýrið gyðinginn“ var ein þeirra er lögðu grunninn að þeim samsæriskenningum og kynþáttahyggju er nasistarnir æstu upp í þýsku þjóðarsálinni röskum fimmtíu árum síðar.

 

Bernhard og Elisabeth fluttu búferlum árið 1886 alla leið til suðurameríska ríkisins Paragvæ, sem þá var í sárum eftir skelfilega styrjöld við Brasilíu, Úrúgvæ og Argentínu þar sem paragvæska karlþjóðin var nánast þurrkuð út.

 

Á þessum árum sýndu Þjóðverjar Suður-Ameríku mikinn áhuga og vildu margir auðugir menn styðja hugrakka landnema er gætu stofnað þýskar nýlendur þar syðra. Þúsundir Þjóðverja höfðu flutt til Brasilíu, Argentínu, Chile og fleiri landa, en fátt var þó vitað um Paragvæ.

 

Útópía í frumskóginum
Til Paragvæ höfðu skötuhjúin flust til að stofna nýlendu þar sem lögð yrði stund á kenningar um yfirburði aríska kynstofnsins. Draumur Försters var að skapa þýskt þjóðfélag sem fengi að vaxa og dafna fjarri samfélögum gyðinga sem hann hataði af lífi og sál. Hann vildi að landnemarnir þýsku myndu aðeins blandast innbyrðis og með tímanum yrði til stór nýlenda manna með „hreint arískt blóð“.

 

Fjórtán fjölskyldur fluttust með Förster og Nietzsche til Paragvæ. Flestir voru úr stétt fátækra bænda frá Saxlandi, sem lofað var gulli og grænum skógum, velsæld í nýrri útópíu.
Landnemarnir höfðu miklar væntingar fyrir fram til hinna nýju lenda í Paragvæ. Ljóst var að mikið landrými var laust þar í landi eftir mannfallið í styrjöldinni. Fólkið virtist sjá þetta fjarlæga, sólríka land í miklum hillingum, áður en lagt var af stað.

 

Árið 1888 voru allir landnemarnir nýju komnir til Paragvæ og samningar höfðu tekist við paragvæsk stjórnvöld um kaup á stóru landsvæði á strjálbyggðu frumskógasvæði í héraðinu San Pedro og var það nefnt upp á spænsku Nueva Germania (Nýja-Germanía). Þýskir bankar veittu Förster ríkulegt lán til að standa að stofnkostnaðinum við Nueva Germania.

 

Nueva Germania. Svæðið er grænt og fagurt, en ákaflega erfitt viðureignar. Þýsku landnemunum mistókst að beisla skóginn í hinu gífurlega raka og heita loftslagi í innsveitum Paragvæ.

 

Gráðugir svindlarar
Í framhaldinu unnu Bernhard Förster og Elisabeth Nietzsche dag og nótt að því að lokka fleiri Þjóðverja til nýlendunnar og suðuðu í paragvæskum stjórnvöldum um aukna fjárstyrki. Fjárhagsáætlunin gerði ráð fyrir að 110 þýskar fjölskyldur flyttust til Nueva Germania á ári, sem virtist ganga sérlega illa því fáir vildu setjast þarna að, fyrir utan þá fyrstu sem komið höfðu með hjónunum.

 

Einn landnemanna var maður að nafni Julius Klingbeil. Hann sneri heim til Þýskalands árið 1889, aðeins ári eftir að hann flutti búferlum til Paragvæ. Í farteskinu var Klingbeil með bók sem hann hafði skrifað á leiðinni heim. Bókin hét Uppljóstranir varðandi nýlendu Bernhards Förster.

 

Í bókinni lýsti Klingbeil því sem enginn Þjóðverji vissi, fyrir utan fátæku bændurna sem lokkaðir höfðu verið í miðju frumskógarins með Förster og Nietzsche: Nueva Germania var eitt allsherjarsvindl og hjónin hrokafullir og gráðugir svindlarar.

 

Klingbeil skrifaði að landspildan sem Förster hefði keypt væri á geysilega illvígu svæði í miskunnarlausum frumskógi þar sem hin ýmsu sníkjudýr og móskítóflugur herjuðu á íbúana daginn út og inn. Í bókinni var enn fremur skrifað að nánast ómögulegt væri að rækta jörðina á þessum stað og stöðugar rigningar héldu íbúunum í gíslingu innan dyra þar sem fátt væri gert nema að drekka brennivín.

 

 

Sprautaði sig með eitri

Bókin vakti mikla athygli í Þýskalandi og var Förster í raun sviptur ærunni. Lánardrottnar skrúfuðu fyrir frekari lán til nýlendunnar sem sárvantaði fjármagn. Sívaxandi óróa gætti nú á meðal þýsku landnemanna, sem höfðu aldrei fundið þá paradís sem þeim hafði verið lofað heldur aðeins strit, sjúkdóma og fátækt við framandi og óþekktar aðstæður.

 

Förster flýði Nueva Germania og bjó á hóteli í borginni San Bernardino þar sem hann lá hugsjúkur í rúminu og drakk viskí allan sólarhringinn. Hann framdi sjálfsmorð skömmu síðar með því að sprauta sig með eiturblöndu er innihélt morfín og striknín.

 

Hitler viðstaddur útförina
Elisabeth Nietzsche sigldi heim til Þýskalands fjórum árum síðar, árið 1893. Hún flutti heim til Friedrichs bróður síns sem hafði greinst með alvarlega geðveilu og leið miklar kvalir. Elisabeth hjúkraði bróður sínum og kynnti verk hans fyrir samtímamönnum, en ritverk Nietzsches voru orðin vel þekkt innan háskólasamfélagsins í Evrópu. Heimspekingurinn Friedrich lést árið 1900 úr heilablóðfalli.

 

Hitler heilsar Elisabeth Nietzsche.

 

Elisabeth Nietzsche lést árið 1935. Síðustu árin hafði hún lýst miklum stuðningi við nasistaflokkinn, sem þá var að komast til valda í Þýskalandi. Nasistarnir veittu Elisabeth peningastyrk gegn því að hún myndi tengja nafn bróður síns við hugsjónir nasismans. Sjálfur Adolf Hitler var viðstaddur jarðarför hennar.

 

Nasistalæknirinn Dr. Josef Mengele, sem frægur var fyrir skelfilegar læknisfræðilegar pyntingar á gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni, flýði til Suður-Ameríku eftir stríð, sem frægt er. Hann dvaldi um skamma hríð í Nýju-Germaníu.

 

Gleymdu Aríaþvælunni
Þýsku landnemarnir sem eftir urðu í Nueva Germania gleymdu fljótt hugmyndunum um aríska hreinræktun og blönduðust við aðra íbúa á svæðinu. Enn má finna afkomendur þeirra í viðjum San Pedro-héraðs sem sumir bera svipmót fátæku bændanna frá Saxlandi sem Förster og Nietzsche lokkuðu með sér til Paragvæ.

 

Sveitin ber enn heitið Nueva Germania. Íbúar hennar eru einir fátækustu íbúar Paragvæ, sem er eitt fátækasta land Suður-Ameríku.

 

Nueva Germania í dag. Það er lítið, fátækt og afskekkt landbúnaðarsamfélag. Athugið að gata ber nafn Elisabethar.

 

Afkomendur þýsku landnemanna bera sumir svipmót og ljóst útlit forfeðranna.

 

Elisabeth hjúkrar Friedrich Nietzsche. Heimspekingurinn var afar veikur á ævikvöldinu og systir hans var honum stoð og stytta síðustu árin.