Áður óbirtar ljósmyndir úr smiðju einkaljósmyndara Adolfs Hitler komu nýlega í leitirnar. Þær sýna íbúð foringjans í Berlín, sumarhöll hans í Bæjaralandi og skrifstofu hans í höfuðborginni.

 

Hugo Jaeger var einkaljósmyndari Hitlers á árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina. Hann var einn af fáum ljósmyndurum heims á þeim tíma er unnu með litmyndir.

 

Myndirnar sem við sjáum hér munu hafa verið teknar á árunum 1937-1939, þegar hin hörmulega styrjöld var rétt handan við hornið.

 

Alls tók Jaeger um tvö þúsund myndir fyrir Hitler. Við stríðslok árið 1945 faldi hann þær í skjalatösku. Þegar bandarískir hermenn leituðu í töskunni fundu þeir koníakflösku og lokuðu töskunni, opnuðu flöskuna og deildu með Jaeger. Þeir sáu því ekki myndirnar.

 

Hann faldi myndirnar síðar í glerkrukkum sem hann gróf í jörðu. Tímaritið LIFE keypti flestar ljósmyndirnar af Jaeger árið 1965, en nokkrar þessara mynda hafa aldrei sést fyrr en nú.

 

Risavaxin skrifstofa Hitlers í Reichskanzlei í Berlín.

 

Glæsilegur salur í Berghof, sumarhöll Hitlers í Berchtesgaden í Efra-Bæjaralandi.

 

Áramótaveisla á kanslaraskrifstofunni í Berlín. Hitler ræðir við prúðbúna gesti. Til hægri má sjá útsendara Vatíkansins.

 

Hitler snæðir miðdegisverð ásamt einkalækni sínum, Theodor Morell (til vinstri) og eiginkonu svæðisstjórans Alberts Forster í Berghof.

 

Fallegur dagur í Bæjaralandi. Myndin er tekin við Berghof, sumarhöll Hitlers.

 

Íbúð Hitlers í Berlín.