„Í borginni Görz í Austurríki bar það til um miðjan janúar síðastl., að tvö börn voru skilin eftir ein í herbergi ásamt stórum ketti. Þetta var 4 ára drengur og 6 ára stúlka. Þau tóku nú að leika sjer að kettinum og voru all harðleikin við hann.
Loks fundu þau upp á því, að binda um rófu hans dagblaðpappír og kveykja svo í öllu saman. Kötturinn varð afar íllur við, hljóp hann fyrst í sveininn og reif hann allan í framan, hann dó. Síðan gerði hann stúlkunni sömu skil, og lifði hún stutt eftir.
Maður, sem bjó í húsinu, kom til að hjálpa börnunum, en kötturinn rjeðist framan í hann og blindaði hann á báðum augum.“
Þessi hræðilega saga birtist í dagblaðinu Vísi þann 5. mars árið 1913, undir liðnum ‘Frá útlöndum’, ein af tveimur erlendum fréttum í Vísi þann daginn. (Hin fjallaði um hugsanlega raflýsingu í Sankti Pétursborg.) Borgin Görz er nú í Ítalíu og betur þekkt sem Gorizia.
Sigurður Þór Guðjónsson fann þessa frétt og birti upphaflega á Facebook-síðu sinni. Myndina tók Wolfgang Hermann.