Í hinu sögufræga Transylvaníuhéraði í Rúmeníu má finna lítið þorp sem heitir Săpânţa, þar sem íbúafjöldinn er rétt yfir þrjú þúsund manns. Með sanni má segja að kirkjugarður þessa litla samfélags sé eilítið á skjön við þá ímynd sem við gerum okkur alla jafna af þeim stöðum þar sem mannfólkið öðlast sína hinstu hvílu – því að í stað grárra og ópersónulegra legsteina er þar að finna ævintýralega flóru af litríkum myndskreytingum, auk hreinskilinna og oft skondinna frásagna af lífi fólksins sem þar hefur verið lagt til hvílu.

Í kirkjugarðinum má finna litskrúðugar myndir af fólki við dagleg störf

Heiti staðarins – Cimitirul Vesel  (káti kirkjugarðurinn) – má virðast þversagnakenndur, en ku endurspegla dakíska arfleifð þorpsverja og viðhorf forfeðra þeirra til dauðans: fyrir handan bíður betra líf.

Hefðin á þó ekki rætur sínar að rekja svo langt aftur í tímann því í raun hófst gerð þessara óvenjulega minnisvarða  aðeins um miðjan fjórða áratug seinustu aldar. Smiðurinn, skáldið og málarinn Stan Ioan Pătraş hóf að skapa legsteina úr eik sem hann myndskreytti með þeim hætti að þeir endurspegluðu líf og tilveru hinna látnu.

Yfirleitt eru myndirnar af fólkinu í samhengi við ævistörf þeirra – þannig að bóndinn er sýndur á traktornum sínum, slátrarinn er sýndur vera að skera kjöt og kennari sýndur í skólastofunni. Þó kemur fyrir að myndirnar sýni frá því hvernig dauða þeirra bar að og því má til dæmis finna myndir af hryllilegum aftökum og ýmiss konar slysum – og jafnvel eina þar sem svört beinagrind dregur bæjarbyttuna ofan í gröf sína á meðan hann sýpur af vínflösku.

 

Fyrir kemur að sýnt er frá því hvernig dauða fólksins bar að.

Undir myndskreytingunum fylgja stuttar vísur, yfirleitt skrifaðar í fyrstu persónu, þar sem fram koma hreinskilnar lýsingar á ævi og persónueinkennum hins látna – og jafnvel sagt frá leyndarmálum og löstum.

Ioan Toaderu elskaði hesta

en svo var annað sem hann elskaði meira:

að sitja á bar

við hlið eiginkonu annars manns

Undir þessum þunga krossi

liggur greyið hún tengdó

en ekki reyna að vekja hana

því ef hún snýr aftur

er hún vís til þess að lúskra á mér

Nú ætla ég að leyfa ykkur að heyra einn góðan

ég var dálítið veikur fyrir plómuvíni

hitti oft félaga mína á barnum

gleymdi svo yfirleitt hvað ég ætlaði mér að gera

Æska mín var of stutt. Ég fékk ekki að lifa og dauði minn olli foreldrum mínum mikilli sorg. Ég varð að yfirgefa systur mína. Kæra systir, viltu hafa umsjón með leiði mínu svo lengi sem þú lifir. Ekki gleyma mér. Ég átti góða systur en við gátum ekki verið saman, því ég varð að deyja.

 

Hér hvíli ég. Nafn mitt er Stan Ion og ég var lögreglumaður frá Mihaies. Þaðan fór ég til Brasov þar sem ég sinnti skyldum mínum vel. Og nú kveð ég ykkur, því þið munuð aldrei sjá mig aftur. Ég kvaddi þetta líf 58 ára gamall, árið 1952.

 

Hér hvíli ég. Manaila Ion Mahumesc er nafn mitt og ég var sonur Nani. Það eru fáir eins og ég var. Ég var vingjarnlegur og myndarlegur. En ég var ekki lánsamur, því ég dó ungur að árum og líkami minn liggur nú undir grænni torfu og eyðist. Kæru mamma, eiginkona og börn mín - ég vona að Guð varðveiti ykkur, því ég elskaði ykkur öll afar mikið. Og ég bíð þess að við hittumst aftur.

 

Ég heiti Dioca Tahului og nú hvíli ég undir skugga plómutrjánna. Frá barnæsku hafði ég unun af því að vinna og dytta að húsinu mínu. Og ég kveð það með tárum og trega. Mér þótti einnig gaman af því að vinna með hesta og fé. Enginn í þorpinu átti hesta og fé eins og ég. Ég elskaði hesta rosalega mikið og ég lést meira að segja af þeirra völdum. Ég sat ofan á heyvagni sem var dreginn áfram af hesti, þegar ég datt og lést.

Litirnir á myndnum hafa táknrænt gildi: grænn táknar lífið, gulur táknar frjósemi, rauður táknar ástríðu og svartur merkir oft að hinn látni hafi dáið fyrir aldur fram. Svartir fuglar gefa til kynna að viðkomandi hafi látist við grunsamlegar aðstæður. Bakgrunnurinn er þó ávallt blái liturinn sem samkvæmt Pătraş stóð fyrir himininn, von og frelsi.

 

Ungverskur hermaður tekur smala af lífi

Ég ætla að fá mér svona þegar ég dey - með merki Besta flokksins. Djók.

Hér gefur að líta grafreit Stan Ioan Pătraş. Eftir að hann lést tóku lærlingar hans við starfinu.