Tónlistardeild bandarísku útvarpsstöðinnar NPR býður reglulega tónlistarmönnum í heimsókn til sín að taka upp tónleika sem síðan verður útvarpað. Staðsetning þessara tónleika er nokkuð óhefðbundin þar eð þeir fara fram á skrifstofu útvarpsmannsins Bob Boilen. Tónlistarmennirnir taka sér stöðu og spila fyrir aftan skrifborð Boilens — enda eru þessar upptökur nefndar Tiny Desk Concerts.
Hér er það malíska hljómsveitin Tinariwen sem treður upp við skrifborðið pínulitla. Tinariwen eru forsprakkar tónlistarstefnu sem kölluð er eyðimerkurblús. Meðlimir Tinariwen eru allir Túaregar, berbískir eyðimerkurhirðingjar, sem kynntust í herþjónustu í Líbýu (Gaddafí þótti mjög ákjósanlegt að fá Túarega í hersveitir sínar). Þegar þeir snéru heim til norðurhluta Malí stofnuðu þeir hljómsveit sem síðan hefur farið sigurför um heiminn og haft áhrif á ótal fleiri eyðimerkurblúsara sem nú spretta upp hvarvetna í Malí, Níger, Máritaníu og öðrum löndum Sahara-eyðimerkurinnar.
Rafmagnsgítarinn er eitt helsta einkenni tónlistar Tinariwen en hér koma þeir fram órafmagnað. Eru þó ekkert verri.
Ótal fleiri ‘smáborðstónleika’ má sjá og heyra á
NPR Music.