Uppgangur piparávaxta hefur verið hraður á Vesturlöndum en á undanförnum árum hefur neysla á þessum afurðum Capsicum fjölskyldunnar margfaldast. Það á sérstaklega við um þá fjölskyldumeðlimi sem skora hátt á Scoville-kvarðanum svokallaða, en sá kvarði er til þess fallinn að mæla styrkleika í piparávöxtum – eða með öðrum orðum, hversu „sterkur“ piparinn er.

 

Naga Jolokia, einn sterkasti chili-pipar í heimi.

Capsicum fjölskyldan er alltént betur þekkt sem Chili-pipar, en tegundir hennar eru fjölmargar. Þar má telja allt frá venjulegri papriku, sem er 0 stig á Scoville-kvarðanum, til Naga Jolokia piparsins, sem er rúmlega milljón stig.

 

Uppruna kvarðans má rekja til bandaríska lyfjafræðingsins Wilbur Scoville. Árið 1912 þróaði hann aðferð til að mæla magn virka efnisins í piparávöxtum, en það nefnist capsaicin. Mælingarnar geta þó ekki talist mjög vísindalegar, en lokaniðurstaða á magni Scoville-eininga er einfaldlega ákvörðuð af fimm manna dómnefnd þaulsetinna Chili-sérfræðinga. Þess vegna mælist til að mynda Jalapeno pipar með 2.500-8.000 stig, þar sem erfitt er að meta hve sterkur hann hefur reynst sérhverjum meðlimi dómnefndarinnar.

 

Íslendingar hafa ekki látið chili-byltinguna framhjá sér fara, en neysla þjóðarinnar á sterkum mat hefur aldrei verið meiri. Hefðin er reyndar ekki sterk. Það þótti til að mynda bylting þegar loksins reyndist mögulegt að fá einmitt Jalapeno-pipar á pizzur í byrjun 10. áratugar síðustu aldar. Íhaldssamir matarrasistar fussuðu og sveiuðu á meðan ævintýragjarnir matgæðingar gripu gæsina á lofti. Margir töldu að með neyslu á chili-ávöxtum væri einungis verið að skrifa undir ávísun á slæma klósettreynslu þótt rannsóknir hafi sýnt að engin tengsl eru milli þess hve sterkur matur kann að bragðast og hvernig hann kann að meltast. Í raun eru jákvæð einkenni chili-ávaxtarins óumdeild. Hefur hann verið notaður um árþúsundaskeið sem meðal við gigt og höfuðverkjum, auk þess sem hann er talinn hafa fyrirbyggjandi áhrif gegn krabbameinsmyndun. Chili-pipar er góður fyrir alla.

 

Í dag telst sjálfsagt að hafa ferskan chili-pipar á innkaupalista íslensku vísitölufjölskyldunnar, þó það verði að viðurkennast að úrvalið mætti vera meira. Í dýrari matvöruverslunum má þó rekast á sérútbúna plastbakka sem hafa að geyma blöndu af sterkum piparávöxtum, þeirra sterkastur Habanero piparinn. Hann er 100.000-350.000 stig, og telst því sterkasti piparinn sem er fáanlegur á Íslandi – samkvæmt óvísindalegri rannsókn.

 

Mai Thai við Hlemm selur sterkar afurðir á góðu verði.

 

Fyrir þá sem sækjast annars eftir góðu úrvali chili-piparávaxta og annarra chili-afurða þá mælir Mahlzeit með versluninni Mai Thai, staðsett við Laugaveg á móti Hlemmi. Þar er gífurlegt úrval af alls kyns sósum og öðru góðmeti, sem og þurrkuðum og ferskum Thai-chili ávöxtum á mjög hagstæðu verði. Thai-chili er 50.000-100.000 stig á Scoville-kvarðanum, en til samanburðar eru hinir algengu Cayenne-chili (rauður-chili) 30.000-50.000 og Anaheim-chili (grænn-chili) 3.500-8.000.

 

Rétt er þó að minna lesendur á að gæta sín þegar chili-pipar er meðhöndlaður. Sérstaklega er varhugavert ef virka efnið, capsaicin, kemst í snertingu við augu, nef eða kynfæri. Því þarf að þvo sér vel um hendur eftir að chili-pipar hefur verið meðhöndlaður, og þeim mun meira eftir því sem piparinn er sterkari (í raun er rétt að nota plasthanska eftir að 50.000 stiga múrinn er rofinn). Capsaicin er heldur ekkert grín, það er einmitt notað til að framleiða svokallaðan piparúða – sem margir þekkja af slæmri reynslu eftir undangengin Austurvallar-ævintýri síðustu ára.

 

Að lokum má hér sjá myndskeið úr sjónvarpsþættinum Top Chef, en sá þáttur ber höfuð og herðar yfir aðra þætti sinnar tegundar (þegar keppt er í matargerð). Hérna keppast þátttakendurnir við að matreiða rétt þar sem þeim ber að nota chili-pipar, þar sem verðlaunaupphæðin helst í hendur við styrkleika piparsins sem þau kjósa að nota (byrjar 02.10). Réttirnir sem eru þarna útbúnir líta þónokkuð vel út, og spurning hvort það sé ekki næst á dagskrá að elda eitthvað með Naga Jolokia!

 

Vídjó