Tékkneski rithöfundurinn Franz Kafka árið 1906. Ljósmyndari ókunnur. Myndin er sögð hafa hangið á vegg í svefnherbergi Júlíu, móður Kafka. Kafka fæddist árið 1883 og var sonur þýskumælandi gyðinga af millistétt sem bjuggu í Prag sem þá var hluti Austurríkis-Ungverjalands. Hann lést úr berklum árið 1924.

 

Farþeginn

Ég stend á útipalli vagnsins rafknúna og veit nákvæmlega ekki neitt fyrir víst um stöðu mína í þessum heimi, þessari borg, innan fjölskyldu minnar.

 

Mér tækist meira að segja ekki að skýra frá því í stærstu dráttum, hverjar kröfur ég kynni með réttu að hafa fram að bera í þessa áttina ellegar hina.

 

Ég get ekki sagt nokkurn hlut því til varnar að ég stend á þessum útipalli, held mér í þennan hanka, læt berast áfram með þessum vagni, að fólk víkur undan fyrir vagninum eða gengur rólega leiðar sinnar eða þá hvílir sig framan við búðargluggana. Enginn krefst þess af mér heldur, en það skiptir ekki máli.

 

Vagninn nálgast biðstöð, stúlka kemur sér fyrir hjá þrepunum, viðbúin að stíga úr. Hún stendur mér svo skýrt fyrir sjónum að það er eins og ég hefði þreifað á henni. Hún er svartklædd, pilsfellingarnar haggast varla, blússan er þröng og með hvítan, fínmöskvaðan kniplingakraga, hún leggur lófa vinstri handar flatan með veggnum, lætur odd sólhlífarinnar í hægri hendi hvíla á næstefsta þrepi.

 

Hún er brún í andliti, nefið í þynnra lagi um miðju, en verður hvelfdara og breiðara fremst. Hún er þykkhærð og jarphærð og með eitt og eitt hár, ofursmátt, á hægra gagnauga. Fíngert eyrað liggur þétt að, þó greini ég, af því ég stend nálægt, allt ytra eyrað hægra megin aftan frá og skuggablæinn við rót þess.

 

Ég spurði sjálfan mig þegar þetta var: Hvernig stendur á því að hún vekur ekki undrun sjálfrar sín, að hún er með munninn luktan og segir ekki nokkurn skapaðan hlut sem hnígur í þá átt?

 

Farþeginn, frásögn úr „Athugunum“, sem voru samdar á árabilinu 1906-09. Hannes Pétursson þýddi. (Birtist í Morgunblaðinu í apríl 1984).