Þeir sem hafa alið manninn í ofneyslusamfélagi Vesturlanda eru líklega sammála um að ísskápar séu hið mesta þarfaþing. Jafnvel á Íslandi, þar sem meðalhitastig á ári hverju er í raun það sama og inni í venjulegum ísskáp.
Fyrstu ísskáparnir litu ekki dagsins ljós fyrr en á 19. öld en voru til að byrja með talsvert frábrugðnir þeim ísskápum sem við þekkjum í dag. Tók það um heila öld að þróa skáp sem þótti henta til fjöldaframleiðslu, en sá var framleiddur af Fridgidaire Company og kom á markað á hinu örlagaríka ári 1918. Fridgidaire-skápurinn sló hins vegar ekki í gegn, aðallega sökum þess að hann þótti rándýr.
Öðru gegndi um Monitor ísskáp General Electric, sem kom á markað 1927. Sá seldist einkar vel þótt hann hafi síður en svo verið gallalaus – hann var beinlínis lífshættulegur. Kælikerfin í fyrstu ísskápunum notuðust meðal annars við brennisteinsdíoxíð sem gat valdið miklum óþægindum, brunasárum og sjónmissi, til handa þeim sem notuðust við skápinn.
Umhverfið var næsta fórnarlamb ísskápanna, en það þótti mikil bylting þegar kæliefnið Freon var kynnt til sögunnar. Á síðustu áratugum hefur verið reynt að útrýma notkun Freons, enda hefur snarlega dregið úr mengun af völdum efnisins – sem talið var eiga stóran þátt í ósonþynningu í andrúmsloftinu.
Nýlegir ísskápar menga ekki jafn mikið en eru óneitanlega orkufrekir, sem vekur fólk til umhugsunar á þeim póstmódernísku tímum umhverfisvitundar sem við búum við í dag. Einhverjir myndu ganga svo langt að segja ísskápa hvetja til óumhverfisvæns lífsstíls – ísskápseigendur eiga það nefnilega til að fylla skápinn af mat án þess þó að klára hann nokkurn tímann. Afgangurinn endar í ruslinu.
En hvað er þá til ráða? Sögupersónan Cosmo Kramer úr Seinfeld-þáttunum er með svarið!