„Á þessum degi ólíkum öllum öðrum, 15. nóvember 1988, sem við stöndum við upphaf nýrrar dögunar, hneigjum við okkur af fullri hógværð og lítillæti fyrir heilögum öndum hinna föllnu, palestínskra og arabískra. Hreinleiki fórnar þeirra fyrir ættjörðina hefur lýst upp himinn okkar og gefið landinu líf.“

 

Á þessum degi fyrir 23 árum lýsti Yasser Arafat, formaður PLO, yfir sjálfstæði Palestínu á fundi Palestínska þjóðarráðsins í Algeirsborg. PLO, Frelsissamtök Palestínu, réðu þá ekki yfir neinu landsvæði. Árið áður hafði fyrsta intifada-uppreisnin brotist út og var í fullum gangi.

 

Sjálfstæðisyfirlýsingin var skrifuð af ljóðskáldinu Mahmoud Darwish. Darwish (1940-2008) var eitt dáðasta ljóðskáld Arabaheimsins og oft kallaður þjóðskáld Palestínu.

 

Í sjálfstæðisyfirlýsingunni segir meðal annars að palestínska ríkið verði friðelskandi og þar verði réttindi minnihlutahópa virt, sem og jafnrétti kynja, kynþátta, litarháttar og trúarbragða.

 

Yasser Arafat og Mahmoud Darwish.

 

Meira en 50 ríki viðurkenndu sjálfstæði Palestínu fyrstu tvær vikurnar eftir yfirlýsinguna, þar á meðal Sovetríkin, Kína og Indland. Í dag viðurkennir meirihluti meðlima Sameinuðu þjóðanna sjálfstæði Palestínu, alls 127 ríki. Á Alþingi er nú frumvarp um að Ísland bætist í hóp þessara ríkja.

 

Alla sjálfstæðisyfirlýsinguna má lesa á ensku á Wikisource.

 

Vídjó

Mahmoud Darwish les ljóð sitt Ég er Jósef. (Lesturinn hefst eftir 40 sekúndur.)