Þegar kom að því að velja innréttingar fyrir kvikmyndaútgáfu Tim Burton af ævintýrum Leðurblökumannsins árið 1989, var sæti Jókersins eitt þeirra húsgagna sem þurfti að útvega.
Oftar en ekki er það svo að munir úr kvikmyndum eru endurnýttir, enda ætti enginn að taka eftir því að sami græni lampinn eða svarta náttborðið birtist í hundrað ólíkum myndum.
Á lóð Warner kvikmyndaversins er því að finna risavaxin vöruhús stútfull af hverju sem til þarf til að innrétta kvikmyndasettið – og þar á meðal eru heilu haugarnir af húsgögnum. Einhverra hluta vegna var eldgamalt silfurlitað hásæti fyrir valinu fyrir Jókerinn, án þess að uppruna hans væri gefinn nokkur gaumur.
Glöggir sænskir kvikmyndahúsgestir hafa síðan væntanlega orðið nokkuð hissa þegar þeir sáu illmennið Jókerinn sitja í hásæti 17. aldar drottningarinnar Kristínu Ágústu.
Í ljós kom að stóllinn hafði legið ónotaður í vöruhúsi Warner-kvikmyndaversins frá 1933, þegar hann var smíðaður fyrir kvikmyndina Queen Christina, þar sem hin sænska Greta Garbo lék drottninguna viljasterku.
Á silfurhásæti Jókersins (sem leikinn er af Jack Nicholson) má því sjá Tre Kronor skjaldarmerkið auk gyðjanna Justitia og Prudentia.
Hönnun stólsins er hins vegar ekki sagnfræðilega nákvæm, því að á tímum Kristínu var fangamark hennar á hásætinu. Krúnurnar þrjár bættust ekki við hásætið fyrr en við krýningu Adolfs Friðriks árið 1751.