Franski listmálarinn Henri de Toulouse-Lautrec hefur öðlast heimsfrægð í seinni tíð fyrir ódauðleg málverk af lífinu á öldurhúsum Montmartre-hæðarinnar í París. Eins og svo margir sem höfðu atvinnu af skapandi greinum í París undir lok 19. aldar var Toulouse-Lautrec sérstaklega hrifinn af hvers kyns lúxus í mat og drykk.

Er til að mynda hanastélið „Jarðskjálfti“ (Tremblement de terre) uppfinning hans, en í því munu vera þrír hlutar af Absinth á móti þremur hlutum af koníaki. En Toulouse-Lautrec var ekki bara góður í að panta sér og borða mat, hann þótti sjálfur vera einkar snjall kokkur.

Einhverjir ævisagnaritarar telja að hæfni Toulouse-Lautrec í eldhúsinu megi rekja til kvennavandamála hans. Eins og margir vita þá var meistarinn dvergvaxinn og hafði fólk á orði að engin kona myndi nokkurn tímann leggjast með honum án þess að þiggja greiðslu fyrir.

Toulouse-Lautrec fékk því útrás fyrir minnimáttarkennd sína með því að sýna vændiskonunum við Boulevard de Clichy snilldartakta í eldhúsinu – en aldrei leið þeim betur í návist hans nema einmitt þegar hann var með vínglas í annarri hendi og sleif í hinni. Aðrir smávaxnir stórlaxar mættu ef til vill taka sér slíkt til fyrirmyndar og nægir þar að nefna menn eins og Josef Stalin eða Napóleon Bonaparte (báðir undir 160 cm að hæð), sem elduðu sem minnst þeir máttu.

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá listfræðinginn Waldemar Januszczak taka sig til og elda svokallaða „Steak à la Toulouse“. Þessi uppskrift ætti að sóma sér vel í neyslumenningu okkar vesturlandabúa, enda er meirihluta hráefnisins hent í ruslið eftir að það er eldað. Það eina sem þarf í þessa uppskrift eru þrjár entrecote (rib-eye) steikur, Dijon-sinnep (með kornum) og mikið af pipar. Athugið samt að það þarf þrjár steikur fyrir hvern matargest og einnig að steikurnar eiga að vera grillaðar yfir eldi frá vínviði, og hananú.

Vídjó