Eitt af fyrstu rafhljóðfærum sögunnar var fundið upp fyrir slysni. Ungur rússneskur uppfinningamaður, Léon Theremin (1896-1993) var að vinna að viðvörunarbjöllu með hreyfiskynjara, þegar hann uppgötvaði að hann gat spilað laglínu með því að hreyfa hendina í kringum skynjarann. Úr varð fyrsta hljóðfærið sem hægt er að leika á án snertingar, þeremín.
„Theremin-hljóðfærið lítur út eins og hálfgerður kassi með tveimur loftnetum. Spilað er á það tvíhent; önnur höndin stjórnar tónhæð og hin styrk hljóðsins, og er það gert með því að færa hendurnar nær eða fjær loftnetunum, allt eftir því hvort hækka eða lækka á hljóðið. Hljómblærinn er allsérstakur; menn geta helst ímyndað sér hvernig theremin hljómar með því að hugsa sér „geimveruhljóð“ í gömlum bíómyndum,“ segir umfjöllun Vísindavefs Háskóla Íslands um þeremín.
„Theremin hefur tóngjafa sem sífellt gefa frá sér tóna af tíðni sem er of há til að mannseyrað greini hana. Hljóðbylgjurnar sameinast síðan og mynda nýja bylgju. Tíðni þessarar samsettu bylgju er nógu lág til að fólk geti heyrt hana sem hljóð.“
Léon Theremin leikur á eigin uppfinningu:
„Loftnetin tvö geta breytt eiginleikum hljóðbylgnanna; annað hefur áhrif á tíðni (sem við skynjum sem tiltekna tónhæð), en hitt hefur áhrif á sveifluvídd (sem við túlkum sem styrkleika hljóðs). Sá sem leikur á theremin getur síðan aftur breytt eiginleikum loftnetanna, allt eftir því hversu nálægt þeim hann fer. Líkja má þessu við þau áhrif sem fólk getur haft á óskýrar sjónvarpsútsendingar; standi það á tilteknum stað getur það gert útsendinguna skýrari en standi það á öðrum stað getur það truflað hana. Þannig getur fólk því spilað á theremin án þess að snerta það“ útskýrir Vísindavefurinn ennfremur.
Theremin sýndi uppfinningu sína á tæknisýningu í Moskvu árið 1922. Hljóðfærið vakti mikla athygli, meðal annars sjálfs æðsta leiðtoga hinna nýstofnuðu Sovétríkja, Vladimirs Lenín. Lenín kallaði Theremin á sinn fund og var svo heillaður af hljóðfærinu að hann fór strax að æfa sig á það.
Hann pantaði svo 600 þeremín af uppfinningamanninum sem átti að dreifa um Sovétríkin og sendi hann í heimsreisu að kynna þjóðum heims hið framúrstefnulega nýja hljóðfæri.
Lenín hefði eflaust kunnað að meta þessa draugalegu þeremínútgáfu af Internasjónalnum, sem Dímítríj Sjostakovítsj útsetti fyrir kvikmyndina Podrugi, 1935:
Theremin dvaldist lengi í Bandaríkjunum þar sem hann kynntist hinni ungu Clöru Rockmore. Clara var fædd 1911 og ólst upp, rétt eins og Theremin sjálfur, í Sankti Pétursborg. Hún hafði verið undrabarn á fiðlu og hafið nám við Keisaralega tónlistarskólann í Sankti Pétursborg aðeins fimm ára gömul. En vegna vannæringar í æsku var hún líkamlega veikburða og neyddist til þess að leggja fiðluleikinn á hilluna á unglingsárum.
Hið nýja hljóðfæri Theremins, sem krafðist engrar snertingar, var hinsvegar kjörið fyrir hana. Þau Theremin unnu lengi náið saman við frekari þróun og markaðsetningu þeremínsins. Að sögn þeremínunnenda eru fáir sem hafa spilað jafn listfengilega á þeremínið en Clara Rockmore.
Sjálf sagði hún þeremínið hafa bjargað „músíkalskri geðheilsu“ sinni. Léon Theremin varð á endanum ástfanginn af henni og bað hennar fjölmörgum sinnum án árangurs.
Hér er Clara Rockmore á gamals aldri ásamt systur sinni, konsertpíanistanum Nadíu Reisenberg: