Blaðið Fjallkonan birti eftirfarandi „Gamansögur“ í nóvember 1893:
Veitingamaðr nokkur, sem hafði veitt því eftirtekt, hve borðgestir hans átu misjafnlega mikið, fann það snjallræði, að hann setti vog í forstofuna hjá sér og á hana lét hann gesti sína ganga á undan og eftir máltíð; lét þá síðan borga eftir því hve mikið þeir höfðu þyngzt. Hann auglýsti þessa uppfundning um alla borgina, og þusti þá múgr og margmenni í matinn hjá honum, til að borða eftir þyngd. Enn þessi réttsýna aðferð hans dugði ekki, því gestirnir höfðu ýms brögð i frammi; sumir báru steina í vösunum og laumuðu þeim burtu, meðan þeir vóru að borða, og endirinn varð sá, að veitingamaðrinn flosnaði upp.
Ung stúlka kærði pilt fyrir það, að hann hefði verið of nærgöngull við sig. Málfærslumaðr hans reyndi með öllu móti að flækja stúlkuna með spurningum:
„Þér segið, að hann hafi stundum setið nærri yðr?“ — „Já“, segir stúlkan og roðnaði. — „Hvað nærri?“ — „Svo, að við sátum bæði á sama stólnum“. — „Og þér sögðuð, að hann hefði tekið utan um yðr með handleggnum ?“ —„Nei, ekki sagði ég það“. — „Hvernig var það þá?“ — „Ég sagði, að hann hefði lagt báða handleggina utan um mig“. — „Og hvað gerði hann svo?“ — „Svo faðmaði hann mig að sér“. — „Gerði hann það fast?“ — „Já, ákafiega fast, svo mér lá við að hljóða“. — „Af hverju rakstu þá ekki upp hljóð?“ — „Af því, af því“ „Nú nú, engar vífilengjur; svarið þér undir eins!“ — „Af því ég var hrædd um að hann mundi þá sleppa mér“.
Hlátr um allan salinn.
Í óþurkatíð, sem gengið hafði lengi, varð bóndi einn í Noregi svo reiðr við forsjónina, að hann rauk út einn morgun, þreif bissu sína, hlóð hana og skaut upp í loftið. Kerling hans hljóp á eftir honum og segir: „Á hvað ertu að skjóta, maðr?“ „Guð almáttugan“, sagði karl, „og láti hann nú rigna“. — Karlskepnan var orðinn ruglaðr af því, að hann hafði verið fullr marga daga á undan.
— „Hver hefir skapað þig, stúlka litla“, sagði prestrinn. — „Guð skapaði mig svona litla“ (hún mátaði með höndunum) — „hitt hefi ég vaxið sjálf“.
— „Drengir mínir“, sagði prestr, „getið þið sagt mér, af hverju það er rangt að eiga tvær konur“. — Þeir hikuðu við að svara, þar til einn þeirra segir: „Enginn kann tveimr herrum að þjóna“.