Tímaritið Mánaðartíðindi kristilegs unglingafélags birti þessi skilaboð til ungra íslenskra stúlkna í október árið 1899:
„Kristnum ungum stúlkum
þykir vænna um heimili sitt en götuna. Sannar unglingafjelagsstúlkur sjást örsjaldan að óþörfu á götunni, en heima hittast þær og eru þá allt af að gjöra eitthvað til þarfa fyrir heimilið. —
Þegar þær fara á fætur snemma á morgnana þá biðja þær guð fyrir heimilinu, og foreldrum sínum og systkinum. Svo eru þær óþreytandi að hjálpa og ljetta undir með móður sinni. Þær gjöra allra handa smá muni til þess að láta heimilið vera sem viðunanlegast, þegar faðir og bróðir koma heim.
Þær eru blíðar glaðlegar í viðmóti, og gjöra heimilið svo skemmtilegt fyrir föður og bræður, að þeim þykir bezt að vera heima, þegar þeir ekki hafa útistörf. Þannig geta þær opt laðað heimilismenn frá veitingarhúsunum og frá óreglu og slæpingshætti. Þær lengja lífdaga móður sinnar með því að hlífa henni sem mest og taka eins mikið og þær geta á sínar eigin herðar. Á kveldin þakka þær svo guði fyrir það sem þær hafa getað leitt af ánægju inn á heimilið þann dag og biðja um styrk til komandi dags.
Sælt er það heimili sem á eina sannkristna unga stúlku og einn sannkristinn dreng, því hann er sómi þess út á við, en hún prýðin inni fyrir.
Hvar er sönn unglingafjelags stúlka?
Hún er heima við vinnu sína, meðan stelpur þjóta út um götur í iðjuleysi og slæpingi.
Heima!“