Árið 1989 var japanska efnahagsbólan í hámarki og peningar hvergi af skornum skammti. Það þótti því ekkert tiltökumál þegar einkarekin sjónvarpsstöð, TBS, ákvað að halda upp á 40 ára afmæli sitt með þeim hætti að borga Sovétríkjunum 20 milljón dollara fyrir að senda japanskan fréttamann út í geim.
Hundruð starfsmanna TBS sóttu um þann heiður að verða fyrsti Japaninn að yfirgefa lofthjúp Jarðar. Af einhverjum ástæðum varð á endanum fyrir valinu Akiyama Toyohiro, 48 ára gamall drykkfelldur keðjureykingamaður sem virtist hafa lítinn sem engan áhuga á geimnum og svipaði lítið til hinna þrautþjálfuðu geimfara Sovétríkjanna.
Einhvernveginn tókst Akiyama þó að klöngrast í gegnum undirbúningsferlið og þann 2. desember 1990 gátu japanskir sjónvarpsáhorfendur loks fylgst með þegar Soyuz TM-11 lagði af stað út í geim af Baikonur-skotpallinum í Kasakstan. Innanborðs voru tveir rússneskir geimfarar, breskur vísindamaður og Akiyama Toyohiro, fyrsti Japaninn til þess að yfirgefa sporbaug jarðar. Stefnan var Mír-geimstöðin, þar sem Akiyama átti að dvelja í viku og flytja japönsku þjóðinni æsispennandi fréttir á hverju kvöldi.
Það varð hinsvegar minna úr fréttaflutningi en til stóð, þar sem Akiyama þjáðist alla vikuna af svo heiftarlegri geimveiki að hann gat fátt annað gert en að æla. Einn rússnesku geimfaranna sagðist síðar aldrei hafa séð nokkurn mann æla eins mikið og Akiyama gerði þessa einu viku sína um borð í Mír.
Tuttugu milljón dollurunum hefði getað verið betur varið. Áhorf á geimfréttir Akiyama stóðst alls ekki væntingar TBS. Sovésk yfirvöld voru hinsvegar kampakát og töldu sig hafa unnið mikilvægan sigur á Bandaríkjunum með því að verða fyrri til að skjóta miðaldra japanskan keðjureykingamann út í geim. Á móti gerðu öfundsjúkir vestrænir fjölmiðlar viðstöðulaust grín að Akiyama á meðan geimferð hans stóð.
Akiyama Toyohiro kom loks aftur niður á jörðina þann 9. desember. Hans fyrstu orð eftir að hann skrönglaðist út úr geimflauginni voru að nú vildi hann fá sér smók og eitthvað að drekka.
Ekki löngu síðar hætti hann störfum hjá sjónvarpsstöðinni, flutti út á land og gerðist sveppabóndi.