Argentínski rithöfundurinn Jorge Luis Borges skrifaði formálann að suðuramerísku útgáfunni af smásagnasafninu Martian Chronicles (Marsannálarnir) eftir Ray Bradbury.
Í formálanum ræðir Borges um vísindaskáldskap í fortíð og nútíð. Það skemmtilega bókmenntaform virðist miklu eldra en við gerum okkur grein fyrir. Borges minnist til dæmis sýrlenska heimspekingsins Lúkíaníusar frá Samosata sem var rómverskur þegn og skrifaði um verur á tunglinu.
Martian Chronicles er margrómuð bók, eitt allra frægasta verk bandaríska vísindaskáldskaparheimsins.
Í henni rekur Bradbury landnám mannsins á Mars sem hefst í kringum það herrans ár 1999. Mannkynið hefur gert í brækurnar með því að sundursprengja jörðina með kjarnorkuvopnum og ræðst nú með mikilli frekju inn á lendur nágrannaplánetunnar. En þar búa nú þegar Marsbúar sem eru ekki par sáttir við yfirganginn. Og það er auðvitað að sumu leyti vísun í atburðina í Nýja heiminum þegar Evrópumenn gereyðilögðu samfélög indíána á sínum tíma.
Ég rakst á rykfallið eintak af þessari útgáfu bókarinnar – sem á spænsku heitir Crónicas Marcianas – í fornbókabúð í Buenos Aires og snaraði formála Borges yfir á íslensku.
FORMÁLI
Á annarri öld tímatalsins okkar, tók Lúkíanos frá Samosata saman ritið Sönn saga, sem geymir, á meðal annarra furða, lýsingu á tunglbúunum, sem (samkvæmt hinum sannsögla sögumanni) spinna og kemba málma og gler, geta tekið úr sér augun, drekka loftsafa úr kreistu lofti; í byrjun sextándu aldar ímyndaði Ludovico Ariosto sér að riddari finni á tunglinu allt það sem fer til spillist á jörðinni, tár og ekkasog elskendanna, tímann sem fer í spil og leiki, tilgangslaus verkefni og óskir þeirra ófullnægðu; á 17. öld skrifaði Kepler ritið Somnium Astronomicum, sem að hans sögn var endurrit af bók sem lesin var í draumi, hvers síður lýsa á snyrtilegan hátt líkamsgerð og háttum skriðdýranna á tunglinu, sem flýja hitann á daginn með því að dvelja í djúpum hellum og fara út þegar myrkvar.
Það liðu eitt þúsund og þrjúhundruð ár á milli fyrsta og annars þessara ímynduðu ferðalaga og nokkur hundruð á milli annars og þess þriðja: tvær fyrstu sögurnar eru án efa ábyrgðarlausar og frjálslegar og hin þriðja er líkt og hömluð vegna löngunar til að virðast sönn og raunsæ. Ástæðan er augljós. Í augum Lúkíaníusar og Ariosto var ferð til tunglsins tákn eða erkimynd hins ómögulega, líkt og svartir svanir voru fyrir þá latnesku; í augum Kepler var slík ferð orðin möguleg, líkt og okkur finnst.
Skrifaði ekki John Wilkins, uppfinningamaður alheimstungumáls, á þessum árum Uppgötvun heims á tunglinu, eða ritgerð sem reynir að sanna að annar byggilegur heimur sé á þeirri plánetu, þar sem eftirmáli með titlinum Möguleikinn á ferð þangað fylgdi? Í Nóttum í Attíku eftir Aulus Gellius má lesa að Pýþagóringurinn Arkítas smíðaði viðardúfu sem flaug um himinninn; Wilkins spáði því að við gætum einn daginn ferðast með samskonar farartæki til tunglsins.
Með þeirri viðleitni sinni að spá í hugsanlega eða líklega framtíðarsýn, er Somnium Astronomicum fyrirboði þess, ef ég fer ekki með fleipur, hins nýja bókmenntaforms er Norður-Ameríkumenn kalla vísindaskáldskap og sem annálarnir sem hér fara eru aðdáunarvert dæmi um. Efni þeirra er landnám og stofnun nýlendu á plánetunni. Það erfiða verkefni mannfólksins í framtíðinni virðist dæmt til að verða epískt en Ray Bradbury hefur hins vegar valið (án þess kannski að ákveða það, og vegna leynilegs innblásturs snilligáfu hans) að gefa sögunni angurværan tón. Marsbúarnir sem í byrjun sögunnar eru hryllilegir, eiga náð skilið þegar útrýmingin nálgast. Mennirnir bera sigur úr býtum í stríðinu og höfundurinn kætist ekki yfir sigrinum. Hann segir beiskur og vonsvikinn frá útbreiðslu mannkyns á plánetunni rauðu – sem í spádómi hans birtist sem eyðimörk tómlegra blárra sanda með borgarrústum sem minna á taflborð og gulum sólsetrum og ævafornum skipum sem sigla í sandinum.
Aðrir höfundar skrifa um dagsetningar í fjarlægri framtíð og við trúum ekki á það sem þeir segja, því við vitum að þannig er þessi bókmenntahefð; en Bradbury skrifar 2004 og við skynjun þungann, mæðina, hið gríðarstóra og óskiljanlega safn fortíðarinnar – „the dark backward and abysm of Time“ úr texta Shakespeare. Endurreisnin uppgötvaði, með orðum Giordano Bruno og Bacon, að hinir raunverulegu forsögulegu menn erum við en ekki fólkið úr sköpunarsögunni eða úr Hómer.
Hvað hefur hann gert þessi maður frá Illinois, spyr ég sjálfan mig, til þess að ég fyllist ótta og einmanaleika við lestur um landvinninga á öðrum hnöttum?
Hvernig geta þessar fantasíur komið svona við mig og svona innilega?
Allar bókmenntir (dirfist ég að svara) eru táknrænar; aðalatriðin í heiminum eru ekki mörg og það skiptir ekki máli hvort rithöfundur noti fantasíu eða það raunverulega til að miðla þeim, hvort hann noti Macbeth eða Raskolnikov, eða innrásina í Belgíu í ágúst 1914 eða innrásina á Mars. Hvaða máli skiptir skáldsagan sjálf í vísindaskáldskapnum? Þessa bók, sem á yfirborðinu virkar óraunveruleg, hefur Bradbury hlaðið með löngu sunnudögunum sínum, amerísku þreytunni sinni, einmanaleikanum sínum, líkt og Sinclair Lewis gerði í Main Street.
Líklega er Þriðja ferðin skelfilegasta frásögnin í þessu safni. Hrollvekjan í henni (held ég) er frumspekileg: óvissan um hverjir gestir Johns Black skipstjóra séu gefur í skyn á óþægilegan hátt að kannski vitum við sjálf ekki heldur hver við erum eða hvernig við komum öðrum fyrir sjónir. Ég vil líka benda á söguna Marsbúann, en hún er óhugguleg útgáfa af goðsögunni um Próteus.
Í kringum árið 1909 las ég, með hrifningu og ótta, í rökkruðu herbergi í húsi sem er ekki lengur til, Fyrstu tunglfarana eftir H.G. Wells. En þökk sé þessum Marsannálum hef ég fengið að endurlifa þennan sama ánægjulega ótta á síðustu haustdögum ársins 1954.