Austurríska rithöfundarins Stefan Zweig er í dag aðallega minnst fyrir sjálfsævisöguna Veröld sem var, en á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar var hann stórstjarna í bókmenntaheiminum. Hann var líka Gyðingur og þegar Hitler komst til valda flúði hann til Bretlands og þaðan til Bandaríkjanna og loks Brasilíu. Árið 1942 framdi Zweig sjálfsmorð með eiginkonu sinni Charlotte Elisabeth Altmann á heimili þeirra í Petrópolis í Brasilíu.
Í kveðjubréfi sínu gerir Zweig svofellda grein fyrir þessari örlagaríku ákvörðun:
„Áður en ég kveð lífið af frjálsum vilja og með réttu ráði, finn ég mig knúinn til að gera lokaskyldu mína: að votta þessu dásamlega landi innilegar þakkir fyrir að hafa búið mér og starfi mínu svo góðan griðastað. Þetta land hefur orðið mér kærara með hverjum degi sem leið, og hvergi hefði ég fremur viljað hefja nýtt líf, eftir að veröld minnar eigin tungu er mér glötuð og andlegt heimkynni mitt Evrópa hefur tortímt sjálfri sér.
En maður yfir sextugt þarf óvenjulegt þrek til að taka upp nýjan þráð einu sinni enn. Og eftir hin löngu ár á vegalausu flakki eru kraftar mínir á þrotum. Ég tel því betra, að ljúka í tæka tíð og óbugaður því lífi, sem þekkti enga óblandnari gleði en andlegar iðkanir og engin gæði á jörðu æðri persónulegu frelsi.
Ég bið að heilsa öllum vinum mínum! Megi þeim auðnast að sjá roða af nýjum degi eftir þessa löngu nótt! Ég hef enga biðlund og fer því á undan þeim.“
(Þýðing Halldórs J. Jónssonar og Ingólfs Pálmasonar, bréfið birtist í íslenskri útgáfu Bókaútgáfu Menningarsjóðs á Veröld sem var árið 1958.)