Einar Falur Ingólfsson er ljósmyndari, menningarritstjóri, rithöfundur og kennari fæddur árið 1966. Hann er búsettur í Reykjavík en ólst upp í Keflavík og gekk í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Einar fór snemma að fást við ljósmyndun og var kominn í öflugt lið ljósmyndara Morgunblaðsins um miðjan 9. áratug síðustu aldar. Meðfram störfum sínum sem fréttaljósmyndari lauk Einar BA-prófi í bókmenntafræði við Háskóla Íslands árið 1991. Hann flutti í kjölfarið til Manhattan í New York til að stunda meistaranám í ljósmyndun við School of Visual Arts og lauk þaðan MFA-prófi árið 1994.
Einar hefur haldið tugi einkasýninga á undanförnum þremur áratugum. Hann hefur starfað sem ljósmyndaritstjóri Morgunblaðsins og sem menningarritstjóri blaðsins nú síðustu ár. Á sama tíma hefur Einar starfað sem stundakennari, bæði við Listaháskóla Íslands og Ljósmyndaskólann. Ljósmyndir Einars hafa þá einnig verið birtar í blöðum og tímaritum um allan heim. Hann hefur komið að gerð um 50 bókmenntaverka sem höfundur, ljósmyndari eða hvort tveggja. Meðal verka Einars má nefna Án vegabréfs – ferðasögur (2011) og Landsýn/ Land Seen (2017). Ljósmyndadagbækur hans hafa vakið verðskuldaða athygli og þá eru áhugamál á borð við íslenska náttúru, stangveiði og ferðalög til framandi landa oft í brennidepli.
Einar ætlar að taka Proust-próf Lemúrsins, sem er auðvitað miskunnarlaus þjófnaður og virðingarvottur við þýðingu Egils Helgasonar á prófinu, eins og má lesa um hér.
Sæll, Einar. Við erum að ræða saman á föstudegi í upphafi maí. Það hefur verið mikið að gera í kennslu eins og jafnan á þessum árstíma hjá þér. Hvernig hefurðu það í dag?
Ég er þokkalegur, takk fyrir. Stirður eftir silungsveiði gærdagsins – veiði getur reynt á… svo var það erillinn í dagvinnunni á föstudegi. Svona er lífið.
Svona er lífið. En þú ert til í prófið?
Heldur betur – sjálfsagt góð byrjun á helginni, eða ég vona það…
Segjum tveir. Ræsum þetta.
Hver er þín hugmynd um hamingju?
Það byrjar á brattann: Ein góð hugmynd um hamingju er að vera við eftirætis á, þar sem ég hef komið ár eftir ár svo hún hefur smám saman farið að flæða um æðar mér, og leggja fallega flugu þar vongóður á hylinn…
Hvað óttast þú mest?
Flestir hljóta að óttast dauðans óvissa tíma – og þá sinn eiginn. En eftir að ég varð faðir óttast ég meira að eitthvað slæmt gæti hent dætur mínar.
Hvað er þér verst við í eigin fari?
Ég er nú orðinn það gamall að ég hlýt að vera búinn að sætta mig við það hvernig ég er… helst að það pirri mig að komast ekki yfir allt það sem ég vil gera.
Hvað er þér verst við í fari annarra?
Neikvæðni kemur fyrst í hugann – hún getur verið ergileg. Þegar fólk sér ekki jákvæðu hliðarnar og leitar ekki lausna með jákvæðum hætti. Líka yfirlæti, og ætli ég nefni ekki leti líka…
Hvaða lifandi manneskju dáir þú mest?
Ég reyni að upphefja enga í huga mér, en ég get frekað dáð snjöll verk sem snjallt fólk skapar. Bestu listamennirnir eru til dæmis oftast nær venjulegt og hógvært fólk, eins og vera ber, og ástæðulaust að dá það… Nei, ég nefni engan, nema þá bara fjölskylduna sem umber mig fyrir að vera eins og ég er.
Hvað, ef eitthvað, áttu til að gera í óhófi?
Það sem er gott og gaman er erfitt að gera í óhófi, meðan það gerir andanum gott.
Hvert er hugarástand þitt núna?
Satt best að segja þá er það býsna gott. Ég er að leggja hönd á fjögur síðustu bókverkin af fjórtán úr eins-og-hálfs-árs dagbókarverkefni, bækur sem ég gef út í 50 tölusettum eintökum, og hlakka til að ljúka hönnun þeirra í kvöld og á morgun.
Hver er ofmetnasta dyggðin?
Dyggðirnar ræddi ég einmitt við kollega sem voru samtímis mér í Rómaríbúð norrænna listamanna í fyrra og komst í raun ekki að niðurstöðu um þetta. Aristóteles taldi upp dyggðir, Biblían líka, og svo voru það dyggðirnar sjö sem Caravaggio túlkar glæsilega í altaristöflu í kirkju í Napólí. Allt ólík nálgun. Ein miðaldadyggðanna er skylda manna að grafa þá dauðu – ætli ég nefni hana ekki bara, við erum búin að fela það verk verktökum…
Við hvaða tækifæri lýgurðu?
Einstaka sinnum smávegis hvít lygi og þá til að trufla ekki flæði lífsins að ástæðulausu. Ekkert alvarlegt við það…
Hvað þolir þú minnst við útlit þitt?
Karl á sextugsaldri er fyrir löngu búinn að sætta sig við útlitslýtin – eða það er fyrir löngu orðið of seint að gera eitthvað við þeim. Hálfblint auga gæti hafa pirrað en svo er bara eitthvað skemmtilegt við það að vera hálfblindur ljósmyndari.
Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari karla?
Bara karla? Ég get nefnt jákvæðni, vinnusemi, áhuga um lífið og listina… það er svo margt, og auðvitað traust. Hvað má nefna margt? Látum þetta duga…
Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari kvenna?
Eins gott að þú spyrð líka að því! Nákvæmlega þá sömu…
Hvaða orð, eða frasa, áttu til að nota of mikið?
Hmm… ég vona að ég sé ekki mikill frasaakóngur. Tyggjóorðið sko nota ég líklega of mikið. Man ekki eftir frösum. Afsakaðu það.
Hver er stærsta ástin í lífi þínu?
Við Ingibjörg kona mín kynntumst fyrir 34 árum á balli í Stapa þar sem ég spilaði á bassann. Giftum okkur tuttugu árum síðar. Tvær dætur. Köttur. Mikil ást þar. Og svo er það lífið, nauðsynlegt að elska það til að njóta.
Hvar og hvenær varst þú hamingjusamastur?
Það er göfugt markmið að leita sífellt hamingjunnar. Ég hef oft fundið hana við mínar eftirlætis veiðiár. Og fyrir framan verk eftir Caravaggio …
Yfir hvaða hæfileika myndirðu helst vilja búa yfir?
Að geta birst fyrir framan öll þau myndlistarverk og á öllum þeim heimsins sýningum sem mig langar að sjá – og geta sleppt fyrirhöfninni, svo ekki sé minnst á kostnaðinn, við að komast á staðinn.
Ef þú gætir breytt einhverju einu við sjálfan þig, hvað væri það?
Kannski, að vera enn agaðri í vinnunni við mín eigin persónulegu verkefni.
Ef þú myndir endurholdgast sem önnur manneskja, dýr eða lifandi vera, hvað væri það?
Ég kýs að nefna William Gershom Collingwood – hann var góður maður.
Í hvaða borg/landi myndirðu helst vilja búa?
Reykjavík varð fyrir valinu, við snérum heim frá New York fyrir aldarfjórðungi. Ég lít enn á New York sem annað heimili, kem þar oft, en gallarnir á bandaríska kerfinu eru miklir. Hér á Norðurlöndum búum við að besta og sanngjarnasta samfélagsskipulag sem enn hefur verið þróað – þótt það sé auðvitað líka með vissa galla. En Reykjavík já, vegna tungumálsins, bókmenntanna, og íslenskrar náttúru. Svo er hitt að ég er með mikið Indlandsblæti, hef dvalið löngum þar suðurfrá og á sterka tengingu við elstu borg jarðar, Varanasi. Hún fær því að vera með hinum tveimur á listanum.
Hver er mikilvægasti hlutur sem þú hefur átt?
Ætli ljósmyndarinn verði ekki að nefna myndavél … Eftirlætis bækur og myndverk hafa líka verið mikilvæg fyrir mig tilfinningalega.
Hver er mesti harmur sem þú gætir hugsað þér?
Ég endurtek svar síðan áðan – ef eitthvað illt henti dætur mínar.
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera?
Það er þetta með hamingjuna – ég er alsæll á kafi í góðri bók, hlýðandi á góða tónlist eða við að njóta áhugaverðrar myndlistar. Nefni samt það að kasta flugu á straumvatn og reyna að fá fisk til að taka – og það að mæta verki eftir Caravaggio sem ég hef ekki séð áður. Þeim fer þó fækkandi.
Hver er sterkasti þátturinn í þínu fari?
Finnst erfitt að segja eittvað um það sjálfur… ég reyni bara að standa mig vel í því sem ég tek að mér.
Hvaða rithöfundar eru þér mest að skapi?
Þessi er erfið! Ég hef afskaplega fjölbreytilegan bókmenntasmekk. Húsið er fullt af bókum. Hm… ég nefni bara vini mína, sem hafa haft áhrif á mig með vináttunni og skrifum sínum: Gyrðir, Jón Kalman, Óskar Árni, Eiríkur Guðmundsson… og ég gleymi mörgum eða kem þeim ekki að. Ónefndur höfundur Njálu… hana les ég árlega. Svo þeir erlendu, Carver kemur í hugann. Allir ferðasagnahöfundarnir – ég safna ferðasögum, finnst það svo áhugavert form sem steypir saman öllum bókmenntagreinum, Chatwin auðvitað framúrskarandi þar. Og svo ljósmyndaskríbentar: ljósmyndarinn Robert Adams og hans frábæru greinasöfn, Teju Cole, Geoff Dyer. Svo ég gleymi ekki ljósmyndurunum sem pökkuðu verkum sínum svo meistaralega í bækur: Cartier-Bresson, Mary Ellen Mark, Robert Frank, Joel Sternfeld…
Hvaða skáldskaparpersóna er þér mest að skapi?
Ætli ég nefni ekki bara drenginn í Gangandi íkorna eftir Gyrði Elíasson. Ég hef lesið þá bók oftar en nokkra aðra skáldsögu, skrifaði BA-ritgerðina um fyrstu prósaverk Gyrðis. Hef alla tíð fundið fyrir mikilli tengingu við hans verk og hugarheim.
Hvaða einstaklingur úr mannkynssögunni er þér mest að skapi?
Sem betur fer hef ég haft spurnir af nokkrum góðum úr sögunni en þær samvistir sem ég átti við W.G. Collingwood um þriggja ára skeið – eða réttara sagt verk hans og hugmyndir, hann var fæddur 1854, látinn 1932, fær mig til að nefna hann. Einstakur maður.
Hvaða einstaklingur úr mannkynssögunni er þér síst að skapi?
Það er erfitt að sjá framhjá sjálfhælna raðlygaranum sem situr nú í Hvíta húsinu vestanhafs til annnarra ómerkilegra karaktera. Það er samt nóg af þeim. En ástæðulaust að skjalla þá með því að nefna þá.
Hvaða tónlistarfólk er þér mest að skapi?
Hér er rétt eins og með rithöfundana hægt að nefna ótal ótal marga. Hlusta mikið á tónlist og hef afar fjölbreytilegan smekk, held ég að ég geti fullyrt. Nefni fyrst Tom Waits, hann hefur fylgt mér óslitið frá unglingsárum, og haft þannig áhrif á mig. Svo eru það djassmennirnir eins og Coltrane, Mingus, Miles. Og miklu fleiri. Megas og Bubbi eru þarna báðir. Ein eftirminnilegasta listræna upplifunin var á tónleikum Nick Cave og Bad Seeds í Beacon-leikhúsinu í New York fyrir þremur árum. Mitt tónskáld er J.S. Bach, hlusta á verk hans meðan ég vinn, dag eftir dag – og síðustu misseri hef ég hlusta meira á Bach-plötu Víkings Heiðars en nokkuð annað; þangað til nýja platan hans kom á fóninn, með verkum eftir Debussy og Rameau – hef hlýtt daglega á hana…
Hvernig viltu deyja?
Á bakkanum við eftirlætis hylinn… En kannski er það óþarfa sjálfselska, þá þyrftu aðrir að sjá um að drösla skrokknum í burtu. Af tillitssemi við fólk ætti maður því að deyja sem styst frá líkhúsinu.
Hvert er uppáhaldsblómið þitt?
Öll blómin sem ná að stinga upp kollinum í íslenskri náttúru eru í uppáhaldi, fyrir að þrauka og gleðja.
Hvert er uppáhaldsfjallið þitt?
Bjarnafell og Bláfell eru fjöll æsku minnar, sveitarinnar hjá ömmu og afa. Hafrafell er fjall veiðidraumanna.
Áttu þér eftirlætis einkunnarorð/mottó?
Nei, það hefur mér aldrei dottið í hug. Ég dáðist þó að blaðinu sem fannst í vinnubókum Jóhannesar Kjarvals þar sem hann skrifar orðið starfa, starfa, starfa aftur og aftur og aftur. Kannski ætti ég að taka það upp.
Prýðilegt! Þá er þetta komið, kærar þakkir fyrir þátttökuna, kæri Einar.
Þakka þér sömuleiðis kæri lemúr! Þetta var ekkert svo erfitt og hreinlega gaman.