Ásrún Magnúsdóttir er fædd árið 1988 og alin upp í Reykjavík. Hún er MH-ingur sem gekk síðan í Listaháskóla Íslands, hvaðan hún útskrifaðist af samtímadansbraut sviðslistardeildar árið 2011. Ásrún hefur komið fram á á danshátíðum, á sínum eigin frumsömdu sýningum, með stærri og smærri hópum listafólks um árabil. Hún samdi til að mynda sýninguna GRRRRLS (2016), þar sem hún fékk stúlkur í gagnfræðaskóla til að túlka þá angist, sorg, gleði og spennu sem fylgir uppvaxtarárunum.  Sýningin sló rækilega í gegn og fékk glimrandi dóma gesta sem gagnrýnenda . Það sama má segja um Listening Party (2017) og Teenage Songbook of Love and Sex (2019), þar sem Ásrún hefur haldið áfram að kanna hugarheim ungmenna og þann sköpunarkraft sem þar býr, og hvernig megi hleypa þeim krafti út í kosmósið. 

Fyrir dansverk sín hefur Ásrún hlotið margvíslegar viðurkenningar, þar á meðal Menningarverðlaun DV fyrir verkið Church of Dancy (2015). Hún hefur einnig prófað aðra miðla og leikstýrði til að mynda tónlistarmyndbandi fyrir Snorra Helgason.


Ásrún býr í miðbæ Reykjavíkur í dag en hefur auk þess búið í Berlín og í Lissabon. Hún ætlar að taka Proust-próf Lemúrsins, sem er mikið ánægjuefni. Saga prófsins var auðvitað rakin hér.


Sæl, Ásrún. Það er sunnudagur í lok mars, það er að birta til en samt ekki? 

Sæll. Jú, þokkalega. Ég var að keyra heim úr sveitinni áðan um klukkan 20 og það var ennþá bjart, ég var að fíla það. Í sálarlífi mínu og flestra er kannski ekki beint að birta en sjáum til. 


Það var gott kvót sem ég sá frá Dolly Parton, að til að fá að sjá regnbogann, þurfum við víst að þola regnið. Kannski eitthvað svoleiðis?


Já nákvæmlega, það er alveg satt. Eins og amma hans Einars Áskels segir, það mega ekki vera jól á hverjum degi. Og það er magnað að vera upplifa þessa tíma sem við erum að upplifa og amk í mínu tilviki þá fatta ég enn betur hvað ég fíla að vera með vinum mínum og bara mikið af fólki og líka er ég að fatta að ég elska vinnuna mína og finnst mjög leiðinlegt að vera missa mörg gigg núna. Eða þau eru að flytjast hingað og þangað til framtíðar…sem er smá skrítið

„Eins og amma hans Einars Áskels segir, það mega ekki vera jól á hverjum degi.“ Sally, amma Einars Áskels, les fyrir unga pilta. Mynd af afons.se, höfundur Gunilla Bergström.


En ertu tilbúin í Proust-prófið? 


Já takk. 


Hver er hugmynd þín um hamingju?


Hún er sætti. Að vera sátt, örugg. 


Hvað óttast þú mest?


Dauðann, því miður. Ekki að ég deyji heldur einhver sem ég elska. 


Hvað er þér verst við í eigin fari? 


Mig langar oft að vera á mörgum stöðum í einu og ég er það oft, í huganum. Á erfitt að dvelja í núinu og stressa mig og hef áhyggjur af einhverju sem er kannski algjör óþarfi. 


Hvað er þér verst við í fari annarra? 


Þegar fólk stendur ekki við það sem það segir. 


Hvaða lifandi manneskju dáir þú mest? 

Úff…þetta er mega erfitt. Ég dái mjög marga. Ég ætla að segja í dag, Sarah Vanhee. Hún er artisti. Geggjuð. En á morgun er það örugglega einhver önnur manneskja. Það er sem ég er að tala um, svo erfitt að vera í núinu og svo erfitt að standa við það sem maður segir. 


„Sarah Vanhee. Hún er artisti. Geggjuð.“ Vanhee framkvæmir gjörninginn Oblivion (2015) í Vínarborg. (Mynd: Phile Deprez).

Hvað, ef eitthvað, áttu til að gera í óhófi? 


Tefla…á chess.com, alltof mikið þar. Missi af mikilvægum þroskaskrefum hjá sonum mínum af því ég er svo mikið að pæla í taflinu.

Hvert er þitt hugarástand núna? 


Mjög tjilluð. Er að fara að sofa, er heitt í framan af því fékk sól á mig í dag og það er mjög þægilegt. Heimavika frammundan sem er bara gott. 


Hver er ofmetnasta dyggðin? 


Vinna. Því meira sem þú vinnur því mikilvægari… ósammála. 


Við hvaða tækifæri lýgurðu? 


Kannski þegar ég kem seint heim þá segi ég við manninn minn að ég hafi komið aðeins fyrr :) Held samt að hann viti að þetta sé lygi. 


Hvað þolir þú minnst við útlit þitt? 


Mig langar að vera svona 5-10 cm stærri. 


Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari kvenna? 


Konur eru svo góðar að hlusta. 


Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari karla? 


Karlar eru svo tjillaðir. 


Hvaða orð, eða frasa, notar þú of mikið? 


Ég nota mjög mikið hérna heima frasann „read all about it“ og kalla það í svona ungum blaðadrengs stíl. Það er stolið frá pabba mínum en er bara svo fyndið og óþolandi í senn. 


„Ég nota mjög mikið hérna heima frasann „read all about it“ og kalla það í svona ungum blaðadrengs stíl. Það er stolið frá pabba mínum en er bara svo fyndið og óþolandi í senn.“ Blaðsöludrengir við Brooklyn-brúna árið 1908. (Mynd: Lewis Hine).

Hver er stærsta ástin í lífi þínu? 


Atli Bollason, athafnamaður og faðir. 


Hvar og hvenær varst þú hamingjusömust? 


Ég held þegar ég ferðaðist um Suður-Ameríku með Atla. Ég segi alltaf að það hafi verið ‘time of my life’. Ég ætla aftur eftir nokkur ár og þá með börunum mínum líka, þegar þau eru aðeins eldri og ekki alveg svona miklir bleyjubossar.


„Ég held þegar ég ferðaðist um Suður-Ameríku með Atla. Ég segi alltaf að það hafi verið ‘time of my life’. Ég ætla aftur eftir nokkur ár og þá með börunum mínum líka, þegar þau eru aðeins eldri og ekki alveg svona miklir bleyjubossar.“ Ásrún og Atli Bollason, ástin í lífinu, athafnamaður og faðir, í Atacama-eyðimörkinni í Perú árið 2013. Mynd úr einkasafni.

Hvaða hæfileika myndirðu helst vilja búa yfir? 


Ég man ekki hvað það heitir en sumir eru með það og það er þegar þú getur sungið, dansað og leikið og allt geðveikt vel. Mig dreymir um að taka þátt í einhverjum svona risa mainstream commercial söngleik á stóru sviði og ég geti gert allt þetta og steppað líka.


Ef þú gætir breytt einhverju einu við sjálfa þig, hvað væri það? 


Stundum er ég feimin og ég vildi ég gæti breytt því, sérstaklega á stundum þegar það er ekki í boði að vera feimin. 


Ef þú myndir endurholdgast sem önnur persóna eða hlutur úr náttúrunni, hver/hvað væri það? 


Ég væri fátæk kona í Súdan, hamingjusöm með margar vinkonur og ætti mörg börn. 


Í hvaða borg/landi myndirðu helst vilja búa? 


Ég pæli í þessu á hverjum degi. Ef ég má ekki segja Reykjavík þá held ég Marseille í Frakklandi. 


Hver er mikilvægasti hlutur sem þú hefur átt? 


Pabba-dúkka. Dúkka sem pabbi minn gaf mér þegar ég var pínu lítil og hún var með mér og svaf með mér vandræðalega lengi en kom mér í gegnum þetta allt saman. Hún er við hliðiná rúminu mínu ennþá en reyndar oní kassa. 


Hver er mesti harmur sem þú getur hugsað þér? 


Að missa syni mína. 


Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? 


Mér finnst lang lang skemmtilegast að dansa. Ekkert einhvern ákveðinn dans en bara dansa einhvernveginn. 


Hver er sterkasti þátturinn í þínu fari? 


Ég er til í allt.


Hverjir eru uppáhaldsrithöfundar þínir? 


Kristín Eiríksdóttir og Bragi Ólafsson. 


Hvaða skáldskaparpersóna er í mestu uppáhaldi? 


Ég held múmínmamma. 


Múmínmamma. Hún er ávallt með töskuna sína. Þar má jafnan finna ullarsokka, magameðal og trjábörk til að smíða báta. Höfundur: Tove Jansson.

Hvaða einstaklingur í mannkynssögunni er þér mest að skapi? 


Þetta eru svo erfiðar spurningar!! En ég ætla að segja Isadora Duncan.


Hvaða einstaklingur í mannkynssögunni er þér síst að skapi? 


Oh ég held Donald Trump. Hann sökkar bara svo mikið.


Hvaða tónlistarfólk er þér mest að skapi? 

Ég fíla tónlistarfólk sem skapar án þess að fylgja neinum reglum. Ég er mjög mikið að hlusta á Aldous Harding þessa dagana og hún er geggjuð og líka með geggjaðan dansstíl! Teitur Magnússon er að mínu skapi og náttúrulega miklu fleiri en einhversstaðar verð ég að stoppa.

„Teitur Magnússon er að mínu skapi.“(Mynd: Owen Fiene).


Hvernig viltu deyja? 


Ég vil sko helst ekki deyja. En örugglega bara liggjandi með mitt nánasta fólk með mér. 100 ára. 


Hvert er uppáhaldsblómið þitt? 

Fífill. 


Hvert er uppáhaldsfjallið þitt? 


Baula. Alltof gott nafn og það lúkkar líka svo vel.


Áttu þér eftirlætis einkunnarorð/mottó? 


Já, ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig. Fullkomið mottó. 

„Já, ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig. Fullkomið mottó.“ Lagið var fyrst hljóðritað á tónleikum 1978 sem komu út sem platan Drög að sjálfsmorði. Skjáskot úr Tímanum, nóvember 1978.  

Frábært! Þá er þetta komið. Kærar þakkir, Ásrún!


TAKK <3


Lesendum Lemúrsins er síðan bent á heimasíðu Ásrúnar, þar má nálgast nánari upplýsingar, ljósmyndir, hljóð og myndskeið frá afar fjölbreyttum ferli höfundar og dansara.