Hér fyrir ofan fær þýska leikkonan Brigitte Helm sér hressingu við tökur á Metropolis. Þarna er hún í búningi Maschinenmensch, vélmennis í meistarastykki Fritz Lang sem fjallar um dystópíu í framtíðinni.

Metropolis, sem frumsýnd var árið 1927, var ein dýrasta kvikmynd þögla tímans. Hún var ennfremur ein allra fyrsta vísindaskáldsögukvikmyndin í fullri lengd og lagði grunninn fyrir óteljandi myndir á því sviði. Blade Runner vísar sterkt í þessa mynd. Gotham-borg Batmans líka. C-3PO í Star Wars er nokkurs konar afkvæmi vélmennisins að ofan.

Lang gerði þessa mynd árin 1925 og 1926, á dögum Weimar-lýðveldisins í Þýskalandi, áður en nasistar náðu völdum og þegar hinn svokallaði þýski expressjónismi var á hátindi sínum. Listamenn vörpuðu bjöguðum myndum af samfélagi og veröld, þar sem tjáning tilfinninga er aðalatriðið og flett er ofan af bældum hugsunum.

Metropolis segir frá hræðilega stéttskiptu þjóðfélagi í framtíðinni, þar sem þorri manna þrælar neðanjarðar í vélrænum störfum á meðan fámenn stétt ríkra býr í turnum ofanjarðar.

Vídjó

Metropolis í fullri lengd!

Skoðum fleiri myndir frá tökum Metropolis.

Leikmyndahönnuðir byggja borgina. (Hulton Archive/Getty Images)
Leikarar. (Hulton Archive/Getty Images)
Vatnssena. (Hulton Archive/Getty Images)
Vélmennið býr sig undir tökur. Fritz Lang fyrir miðju. (Hulton Archive/Getty Images)
Verkamenn á barnsaldri teygja sig í átt að myndavélinni. (Hulton Archive/Getty Images)
Neðanjarðar. (Hulton Archive/Getty Images)
(Hulton Archive/Getty Images)
Brigitte Helm ávarpar verkamenn. (Hulton Archive/Getty Images)
(Hulton Archive/Getty Images)
Flóð. (General Photographic Agency/Getty Images)
(Hulton Archive/Getty Images)
(Hulton Archive/Getty Images)

Svona sagði Morgunblaðið frá þessari brautryðjendamynd í vísindaskáldskap þegar hún var til sýninga í kvikmyndahúsum Reykjavíkur, í ársbyrjun 1928:

Metropolis er heimsborgin sem gnæfir hátt við himin með voldugum turnum, tilkomumikil og ógnarleg, eins og óhemjustór kastalaþyrping, þar sem miljónir manna starfa – í undirdjúpunum.

Vjelaiðnaðurinn hefir náð fullkomnunarstigi. Alt er unnið með vjelum, hvert handtak. Og vjelaöldin hefir mótað mennina. Niðri í jörðinni eru íverustaðir verkalýðsins, sem gæti vjelanna miklu og starfrækir þær, vjelanna, sem eru líffæri Metropolis – heimsborgarinnar, eins og þýskir hugvitsmenn gera sjer í hugarlund að hún verði árið 2000.

Þarf enginn að efast um, hve stórfróðlegt það er, að sjá starfsmennina og stritandi vjelarnar í þessari voldugu borg framtíðarinnar, eins og Þjóðverjar lýsa lífinu í henni í þessari merkilegu kvikmynd.

En hátt uppi á efstu hæðum og þökum Metropolis, þar sem sólskin er og hiti, þar eru hinir svo kölluðu „eilífðargarðar“, sem auðmennirnir hafa útbúið handa börnum sínum og erfingjum. Þar eru íþróttaskálar, bókasöfn o.s.frv. Óhófs of eymdarlífi er lýst, jafnt kjörum „sólskinsbarnanna“ og barna „undirdjúpanna“, en að lokum bent á leiðina til samlyndis og samveru.

Morgunblaðið, 12. febrúar 1928.

Heimildarmynd um gerð Metropolis:

Vídjó