Fyrri hluti 20. aldarinnar var hnignunartímabil Breska heimsveldisins. Helstu orsakir hnignuninar voru almenn tilhneiging, ef ekki lögmál, heimsvelda til þess að breiða of mikið úr sér og einangrun Breska heimsveldisins á alþjóðasviðinu samhliða eflingu bandarísks efnahags og auknum umsvifum þeirra á alþjóðavísu.

 

Þrátt fyrir að 20. öldin bæri í skaut sér endalok hins breska samveldis nauðungar og arðráns, sem teygði sig svo víða á jarðarkringlunni að sagt var að sólin settist ekki á því, var Bretland áfram leiðandi iðnaðar- og viðskiptaveldi í alþjóðlegum samanburði þó svo að hernaðarleg ítök þeirra færu þverrandi.

 

Lýðfræði

Til þess að geta fjallað um tengsl Íslands við Skotland þarf að setja stöðu landanna í samhengi. Þegar þróun fólksfjöldans á Írlandi, Íslandi og Skotlandi er borinn saman kemur áhugaverð saga í ljós.

 

Þróun fólksfjöldi Írlands, Íslands og Skotlands síðustu 150 árin, 1861-2011.

Um miðja 19. öld voru Írar um helmingi fjölmennari en Skotar , en þá gerist írska hungursneyðin mikla og um milljón Írar deyja úr hungri og önnur milljón flýr, meðal annars til Skotlands.

 

Á fyrri hluta 20. aldar nær fólksfjöldi Skotlands nokkurskonar jafnvægi við um 5 milljóna markið (við síðasta manntal sem var tekið 2011 töldu þeir 5,3 milljónir). Þetta jafnvægi komst á, um miðbik 20. aldar, ekki vegna lágrar fæðingartíðni né hárrar dánartíðni heldur vegna hárrar brottflutningstíðni. Áætlaður fjöldi brottfluttra Skota og afkomenda þeirra í dag er á bilinu 28-40 milljónir.

 

Í þessum samanburði komast Íslendingar ekki á blað fyrr en uppúr 20. öld. Undir lok 19. aldar verða Vesturferðirnar til þess að draga úr fólksfjölgun en með batnandi lífsgæðum eykst fólksfjöldi á 20. öld jafn og þétt. Saga Írlands og Skotlands er saga heftrar fólksfjölgunar, í tilfelli Íslendinga voru Vesturferðirnar mestmegnis farnar í blálok 19. aldar, en hjá Írum og Skotum var ferli fjöldabrottflutnings langdregnara og því samofið þjóðarsálinni.

Skotland

Ítarlegri samanburður við Ísland er freistandi. Landssvæði Skotlands (78 þúsund km²) og Íslands (103 þúsund km²) eru sambærileg að stærð.

 

Fyrst ber að nefna auðvitað að á löngu tímabili, ka. 8. – 15. öld tilheyrði strandlengja og eyjar undan Skotlandi Konungsríki Noregs. Með svipuðum hætti og flestum Íslendingum gramdist yfirráð Dana fyrir sjálfstæði burðast margir Skotar með minnimáttarkennd gagnvart Englendingum. Spurningin um sjálfstæði Skotlands er söguleg en Skotland hefur verið hluti Stóra-Bretlands frá 1603. Skrifa mætti langa umfjöllun um fjöldamorðin við Glencoe árið 1692, þegar 38 meðlimir MacDonald klansins voru myrtir af enskum hermönnum sem voru gestkomendur. Sagan af þeim minnir um margt á Íslendingasögur.

 

Glasgow

Á fyrri hluta 20. aldarinnar gat Glasgow gert tilkall til þess að vera „önnur borg Breska heimsveldsins“ (á eftir London) í krafti þess að vera framleiðin iðnaðar- og verslunarborg með góða hafnaraðstöðu. Sagt er að fimmta hvert skip sem var smíðað í heiminum hafi verið smíðað í Glasgow.

 

Kápa bókarinnar No Mean City

 

Skáldsagan No Mean City, sem segir sögu fjölskyldu í hinu alræmda fátækrahverfi Gorbals, fangar samtíma-andrúmsloft aðþrengjandi þéttbýlis, iðnvæðingar, fátæktar og ofbeldis í Glasgow. Fyrir þá sem muna eftir Taggart sakamálaþáttunum sem prýddu sjónvarpsskjái RÚV á seinni hluta tíunda áratugar 20. aldar er gaman að segja frá því að þemalag þáttarins heitir í höfuðið á bókinni.

 

Edinborg

Hafi Glasgow verið helsta iðnaðarborg Skotlands var Edinborg, höfuðborg Skotlands, fyrst og fremst háskólabær með sinn heimsþekkta Edinborgarháskóla sem var stofnaður 1582.

 

Edinborg var miðpunktur skosku upplýsingarinnar, hreyfingar hugsuða á 18. og 19. öld sem lögðu áherslu á vísindalegar aðferðir sem byggðust á reynsluhyggju og gerðu margar mikilvægar uppgötvanir á borð við framlag Maxwells til rafsegulfræði, gufuaflsvél Watts, síma Bells og sjónvarp Bairds.

 

Helstu kennileiti Edinborgar; 1: Edinborgarkastali 2: Princes Street 3: Princes Street Gardens (dalverpið) 4: Walter Scott minnismerkið 5: Waverley aðallestarstöðin 6: St. Andrews byggingin (skoska stjórnarráðið) 7: Calton hæðin

 

Guðmundur Hannesson læknir sagði frá ferð sinni til Edinborgar árið 1921 í Morgunblaðinu snemma árs 1922. Hann fjallaði sérstaklega um Princes Street Gardens sem hann nefndi einfaldlega dalverpið:

 

Dalverpið. Hefði þetta dalverpi milli Kastalans og Princess-street verið í Reykjavík, má hamingjan vita hvað menn hefðu gert við það. Líklega hefðu menn reynt að fylla það með ösku og skarni, og „spekulerað“ svo með lóðina á eftir. Skotinn hefir notað það til margra nytsamlegra hluta, en tekist það svo vel, að altsaman verður hin mesta borgarprýði. Á allstóru svœði neðst hefir hann blátt áfram bygt yfír dalinn, bygt þarna niðri í jörðinni stóreflis járnbrautarstöð, sölutorgs- hallir og hvað það nú alt er, sem þar er niður komið. Þakið á byggingum þessum er flatt steypuþak, í sömu hæð og gatan (Princess-street). Ofan á þakið hefir síðan verið fluttur jarðvegur, þar sem ekki eru skálagluggarnir eða gangstígar. Og enn eru þar ræktuð alkonar blómstur og skrautjurtir. Það verður enginn var við óþrifalegu járnbrautarstöðina, þó hún sje blátt áfram í miðjum bænum. Það sjest ekki annað af henni en þakið, og það lítur út sem skrautgarður, með blómum og skemtigöngum.

 

Edinborgarverzlun

Bretland, og Skotland nánar tiltekið, er almennt ekki mjög tengt íslenskri verslunarsögu. Fólki er líklega tamara að hugsa til danskra kaupmanna, þar sem þeir einokuðu verslun á Íslandi frá 1602-1787. Þó eru dæmi um umsvifamikla kaupmenn á borð við Louis Zöllner sem flutti út íslenskt sauðfé á fyrri hluta 20. aldar. Edinborgarverzlun var stofnuð í Reykjavík í lok nítjándu aldar og átti eftir að setja svip sinn á hina ört vaxandi höfuðborg.

 

Ljósmynd eftir Sigfús Eymundsson frá 1895, stuttu eftir að verslunin opnaði. „Í gluggum sér í verslunarvörur: Enos Frout salad, mixed drops brjóstsykur, mixed picles, Falconbrand Lobster, nautakjöt og súpur. 5 karlmenn standa fyrir framan verslunina. Bátur á hvolfi í forgrunni. Ásgeir Sigurðsson kónsúll fyrir miðju og tveir menn til beggja handa.“

 

Árið 1881, árið sem lokið var við byggingu Alþingishússins, eða þar um bil sneri Ásgeir Sigurðsson, þá um 16 ára gamall, aftur til Íslands eftir að hafa dvalið í um sex ár í Edinborg hjá föðurbróður sínum Jóni A. Hjaltalín. Í Edinborg hafði hann gengið í skóla og komist í kynni við örar framfarir, svo sem einkasímum sem byrjað var að nota á heimilum í Edinborg á 8. áratug 19. aldar.

 

Ásgeir Sigurðsson, Geo Copland og Norman Berrie.

 

Verslunin Edinborg var stofnuð árið 1895 af Íslendingnum Ásgeiri Sigurðssyni, og tveimur Skotum, George Copland og Norman Berrie. Edinborgarverslun auglýsti töluvert í þeim blöðum sem komu út og varð fljótt þekkt og vinsæl verslun. Helsta nýlunda verslunarinnar var að hún var fyrsta verslunin sem notaði eingöngu peninga í viðskiptum en ekki vöruskipti eins og hafði tíðkast fram að því. Verslunin hafði útibú á Akureyri, Ísafirði, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, Akranesi, Keflavík og Stokkseyri.

 

1907 Byggingar, fataverslun Verslunin Edinborg í Hafnarstræti, skreytt vegna konungskomu, Hafnarstræti 2-4.

 

Verslunin gekk vel og þeir félagar stækkuðu við sig með því að byggja stórt timburhús árið 1905. „Í það var lögð fyrsta miðstöðvarlögn bæjarins. Á því voru einnig stærri sýningargluggar en þekktust hér áður. Var þetta fyrsta nýtízku verzlunarhúsið, sem reist var á landinu.“ Sagt er að blómatíð verslunarinnar hafi verið fyrir fyrri heimsstyrjöld og þá hafi þegar verið notast við sofistikeruð markaðssetningartrix fengin frá Ameríku:

 

Hver, sem keypti pund af kaffi, fékk með í pakkanum miða, sem bókstafur var prentaður á, og þegar húsmóðirin gat skilað miðunum þannig, að úr þeim mátti lesa orðin: „Edinborgar Excelsior-kaffi“, þá mátti hún kjósa sér einhvern nytsaman búshlut úr verzluninni.

 

Byggingin sem byggð var árið 1905 og sér á myndinni hér að ofan brann þó í brunanum mikla árið 1915 sem áður hefur verið fjallað um í greininni Einn versti dagur Reykjavíkur: Bruninn mikli árið 1915. Árið 1917 eignaðist Ásgeir Sigurðsson Edinborgarverslun að fullu.

 

Um 1930 Borgarmynd, götumynd Hafnarstræti 10-12. Verslunin Edinborg, Ásgeir Sigurðsson. Breska ræðismannsskrifstofan H.Ólafsson & Bernöft, vörubifreið og fólk á reiðhjólum.

 

Verandi nú orðinn einn eigandi að Edinborgarversluninni lét Ásgeir byggja stóra byggingu við Hafnarstræti 10-12 og var hún tilbúin 1925. Edinborgarverslun var rekin í marga áratugi og var Íslendingum að góðu kunn. Berrie hafði ekki önnur afskipti af viðskiptum á Íslandi en öðru máli gegnir um Copland sem var nokkuð umsvifamikill í fiskverslun og var af greinarhöfundi Alþýðublaðsins sagður höfuðpaurinn í Fiskhringnum sem seldi fisk til Spánar með miklum hagnaði að talið var.

 

Í nýlegri sagnfræðiritgerð við HÍ er ferill Coplands rakinn og bent á að hann hafi verið í aðstöðu til „að flytja hagnaðinn út en skilja tapið eftir á ríkisábyrgð hjá Íslandsbanka“ og sannarlega tapaði Íslandsbanki á viðskiptum við hann. Þegar fyrirtæki hans var tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun árs 1931 var reiknað tap bankans „samtals kr. 3.250.872,95, eða sem næst sjötti hluti af samanlögðu tapi Íslands-banka á árunum 1920-1930“.

 

Heimildir