Nú um helgina komu saman fræðimenn, prófessorar og aðrir sérfræðingar saman úr öllum heimshornum á ráðstefnu nokkra í bænum Tashtagol í Kemerovo-héraði í miðri Síberíu. Tilgangur ráðstefnunnar var að ræða tilvist yéta.

 

Yétar ku vera dularfullir, loðnir risar sem líkjast mannöpum, en enn sem komið er hefur engin almennileg sönnun verið færð fyrir tilvist þeirra. Samkvæmt þjóðsögunum búa yétar í Himalayafjöllum; í Tíbet, Nepal og Indlandi.

 

En þeir virðast hafa fært sig upp á skaftið, aldrei hafa fleiri íbúar í Síberíu sagst hafa séð yéta.

 

Einn skipuleggjanda ráðstefnunnar, Igor Burtsev, segist áætla að í Síberíu séu um þrjátíu yétar.

 

Meðal gesta á ráðstefnunni var þungaviktarboxarinn og fyrrverandi heimsmeistari Nikolai Valuev. Hann lagði boxhanskana á hilluna fyrir tveimur árum  og virðist nú hafa fundið sér nýtt viðfangsefni, yétafræði. Í september í ár fór hann í rannsóknarleiðangur í helli á síberísku gresjunni, í leit að yétum.

 

Þungaviktarmaðurinn Valuev. Er hann yéti?

Veiðimenn á ferð í nágrenni hellisins höfðu sagst hafa séð undarlegar loðnar mannverur þar á vappi.

 

Þungaviktarmaðurinn fann því miður engan yéta, en taldi sig þó geta séð vegsummerki þeirra inni í hellinum.

 

Á boxferli sínum var Valuev oft kallaður „Skepnan úr austri“ eða „Rússneski risinn“ — enda er hann 2.18 metrar á hæð, rúm 150 kg. Hann var á sínum tíma bæði hávaxnasti og þyngsti heimsmeistari í hnefaleikum í sögunni.

 

Kannski gerir stærðin það að verkum að hann finnur til samkenndar með yétum. Við fjölmiðla sagði hann markmið sitt aðeins vera að heilsa upp á risana dularfullu, og „tala við þá um lífið“.

 

Yétaráðstefnan í Tashtagol stóð yfir í tvo daga. Sérfræðingar frá Bandaríkjunum, Kína, Svíþjóð og fleiri löndum rýndu í óskýrar myndir og torkennileg fótspor, greindu hár og lífsýni, og ræddu miðaldahandrit sem lýstu undarlegum loðnum mannverum

 

Þeir komust þó ekki að neinni endanlegri niðurstöðu um tilvist um yéta.