Um þessar mundir berast fregnir frá Bretlandi þar sem menn hafa vikum saman keppst um að fá að búa og starfa við Downing-stræti 10 í Lundúnum. Allt það karp er þó nokkuð ómerkilegt — þar sem eins og allir vita eru það kettir sem sinna mikilvægustu störfunum í Downing-stræti.
Nokkuð er nefnilega um músagang í Downing-stræti — þar er í raun mjög litríkt dýralíf og meira að segja refir venja þangað komur sínar. Allt frá dögum Hinriks VIII Englandskonungs hafa starfað þar sérstakir músaveiðarar af kattarkyni, Chief Mouser to the Cabinet Office.
Þeir fá borgað úr ríkissjóði og teljast því ríkisstarfsmenn. Á skjalasöfnum má finna heimildir um fjölda katta í breskum stjórnarbyggingum í gegnum árin, og alls hefur breska ríkið um hundrað þúsund ketti í vinnu við að halda meindýrum í skefjum í opinberum byggingum.
Kötturinn Humphrey, sem starfaði í Downing-stræti frá 1989 til 1997, er vafalítið sá frægasti þessara opinberu músaveiðara, og einnig sá umdeildasti.
Hann var rúmlega ársgamall villiköttur þegar starfsmaður hjá forsætisráðuneytinu fann hann á ráfi nálægt Downing-stræti. Þá vildi svo til að fyrrverandi aðalmúsaveiðari, kötturinn Wilberforce, var nýlátinn og fékk Humphrey því stöðu hans.
Hann sannaði sig fljótt í starfi og lýsti forsætisráðuneytið því yfir að hann stæði sig betur en hinn rándýri, mennski meindýraeyðir sem einnig starfaði í Downing-stræti og hafði aldrei veitt eina einustu mús.
Forsætisráðherra fyrsta ár Humphreys í starfi var Margaret Thatcher og kom þeim vel saman. Síðan tók John Major við og var hann einnig öflugur málsvari Humphreys. Þegar dagblaðið Daily Telegraph birti árið 1994 frétt þess efnis að Humphrey væri grunaður um svívirðilegan glæp, dráp á fjórum þrastarungum í hreiðri fyrir utan ráðherrabústaðinn, kom Major kettinum til varnar.
Enda játaði blaðamaður Telegraph löngu síðar að hafa klínt sök á köttinn, þar sem hann grunaði að það væri forsætisráðherrann sjálfur sem bæri ábyrgð á dauða þrastarunganna.
Sumarið 1997 tók Tony Blair við forsætisráðherrastólnum. Blair hafði varla búið í Downing-stræti í viku þegar sögur af ósætti milli Humphreys og Cherie Blair, eiginkonu forsætisráðherra, birtust í fjölmiðlum.
Ljósmyndir af Humphrey í örmum Cherie gerðu lítið til að slá á þessar sögur.
Í nóvember yfirgaf svo Humphrey Downing-stræti og flutti til gamalla hjóna í úthverfi Lundúna. Umsjónarmaður Humphreys sagði þetta vera vegna þess hve heilsulítill kötturinn væri orðinn en stjórnarandstaðan sakaði Cherie Blair um að hafa bolað honum burt eða jafnvel látið myrða hann.
Í samtali við Daily Telegraph sagði Alan Clark, þingmaður Íhaldsflokksins og góðvinur Humphreys: „Ef hann hefur ekki samband við mig eða kemur fram opinberlega, þá fer mig að gruna að hann hafi verið skotinn.“
Litlar fréttar bárust svo af Humphrey fyrr en í mars 2006, þegar talsmaður forsætisráðherra tilkynnti fjölmiðlum að hann hefði látist á heimili sínu í Lundúnum.
Downing-stræti var kattarlaust í tíu ár, þar til Gordon Brown tók við forsætisráðherrastólnum og Blair-hjónin fluttu út, árið 2007. Alistair Darling fjármálaráðherra hafði þá með sér köttinn Sybil frá Edinborg.
Því miður kunni Sybil ekki vel við sig í Downing-stræti — og einnig var orðrómur um að Gordon Brown væri ekki sérstaklega hrifinn af henni. Hún snéri því aftur til Edinborgar eftir aðeins tvö ár í starfi.
En ekkert lát er á ásókn músa og annarra meindýra í gamlar byggingarnar við Downing-stræti og þegar David Cameron var fluttur í ráðherrabústaðinn voru háværar kröfur um að ráðinn yrði nýr músaveiðari.
Í kattholti einu í Battersea var því fundinn kötturinn Larry sem flutti inn í húsið við númer 10 og hóf þar störf í febrúar 2011.
Embættistíð Larrys hefur ekki verið tíðindalaus. Hann þótti fyrst um sinn ekki standa sig í stykkinu, enda liðu nokkrar vikur þar til hann veiddi sína fyrstu mús, og var sagt frá því í fjölmiðlum að virtist vera hrifnari af því að sofa á ýmsum stöðum og blanda geði við aðra ketti í nágrenninu en að sinna skyldustörfum.
Neyddist hann því til að deila starfstitlinum aðalmúsavörður Downing-strætis með nágrannanum Freyju í Downing-stræti 11, ketti George Osbornes fjármálaráðherra, sem ku vera afar lunkin við músadráp.
Árið 2013 var því svo haldið fram í bók að David Cameron og fjölskyldu hans væri illa við Larry, og forsætisráðherrann þyldi ekki kattarhár á jakkafötunum sínum og lyktina af kattarmat Larrys. Cameron vísaði þó þessum ásökunum öllum á bug.
Hann segir sjálfur að Larry sé ekki sá allra mannblendnasti, enda gæti hann hafa þurft að þola margt áður en hann flutti í Downing-stræti. Hann sé þó hrifinn af Barack Obama Bandaríkjaforseta.
Larry, sem hefur nú búið í fjögur ár í Downing-stræti og fer væntanlega hvergi í bráð, er sívinsælt umfjöllunarefni breskra fjölmiðla. Á Wikipedíu má lesa ítarlega umfjöllun um feril hans og Telegraph tók saman myndaseríu með myndum af Larry við leik og störf.
Hann er að sjálfsögðu einnig með eigin síðu á vef bresku ríkisstjórnarinnar og þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af keppinautinum Freyju, sem var látin fara eftir að fjármálaráðherrann og fjölskylda fengu sér hund.