Jóhannes er nafn sem birtist mjög oft í biblíunni – við höfum Jóhannes skírara, Jóhannes guðspjallamann, Jóhannes höfund Jóhannesarbréfanna, Jóhannes lærisvein Krists og Jóhannes sem skrifaði Opinberunarbókina. Nú til dags segja fræðimenn að þeir gætu allir verið sinnhvor maðurinn, en í frumkristni áttu allir nema Jóhannes skírari að vera einn og hinn sami. Mikill kraftaverkamaður sá!
Svo fjölhæfur maður hlaut að uppskera mikla aðdáun, og var því fljótt skrifuð dýrlingasaga um hann þar sem hann gerði margt undravert (og sumt miður geðslegt – til dæmis var það víst Jóhannes sem ber ábyrgð á eyðileggingu hins víðfræga Artemisarhofs í Efesos, og kramdist hofpresturinn undir, Jóhannesi til mikillar ánægju!) En þessi dýrlingasaga var ein af þeim sem hlaut ekki náð kirkjuþinganna og var hún fordæmd á öðru Níkeuþingi, árið 787. Sem betur fer lifðu nokkur handrit sögunnar bannfæringuna af, enda er þar að finna fremur sjaldgæft fyrirbæri í hinni kristnu rithefð: Einhverskonar skopskyn (þótt fremur aulalegt sé). Við komum inn í söguna þegar Jóhannes og félagar eru að ferðast frá Laódíkeu til Efesosar, og reynist ferðin erfið:
Á fyrsta degi áðum við í yfirgefnu gistihúsi, en við áttum í vandræðum með að útbúa rúm fyrir Jóhannes. Þá urðum við vitni að skemmtilegum atburðum. Það var hægt að finna eitt rúmstæði einhversstaðar inni í gistihúsinu, en engin rúmföt. Við lögðum skykkjurnar okkar á rúmstæðið og báðum hann að leggjast þar fyrir, en við myndum sofa á gólfinu. En þegar hann lagðist niður, þá fóru veggjalýs að plaga hann, og urðu til meiri og meiri óþæginda þegar á leið. Um miðja nóttina ávarpaði hann lýsnar, í áheyrn okkar allra, og sagði: „Ég segi yður, þér lýs: hagið þér yður, hver einasta; yfirgefið hreiður yðar í nótt, safnið yður saman á einum stað og haldið yður fjarri þjónum Guðs!” Við hlógum og spjölluðum saman um stund, en Jóhannes fór að sofa. Við hvísluðum til að trufla hann ekki.
En þegar dagaði, þá reis ég fyrstur á fætur, og með mér Verus og Andróníkus, en við hurðina á gistihúsinu sáum við mikinn fjölda veggjalúsa. Á meðan við undruðumst þessa sjón og bræðurnir vöknuðu allir við lætin, þá hélt Jóhannes áfram að sofa. Þegar hann vaknaði skýrðum við fyrir honum hvað við hefðum séð. Hann reis upp við dogg, leit á lýsnar og sagði: „Þar sem þér hafið hagað yður vel og hlýtt á áminningar mínar, snúið þá aftur til yðar heima.” Og er hann hafði sagt þetta, og risið upp úr rúminu, þá þustu lýsnar yfir þröskuldinn og að rúminu, klifu upp rúmfæturna og hurfu inn í liðina. Og Jóhannes sagði enn og aftur: „Þessi skepna hlustaði á rödd manns, var þolinmóð og til friðs og vildi ekki vera óboðin, en við sem heyrum rödd og boðorð Guðs, við óhlýðnumst og hugsum fánýta hluti. Hve lengi á þetta að ganga?”
Jóhannes er í dag dýrlingur ástar, tryggðar, vinskapar, höfunda, bóksala, ritstjóra, útgefenda, ritara, fræðimanna, listsala, guðfræðinga, pappírsgerðarmanna og þeirra sem þjást af brunasárum og eitrunum – en ekki meindýraeyða. Er það ekki synd og skömm?