Heimildarmyndin Er kynlífið betra hjá kommúnistum? (e. „Do Communists Have Better Sex“) ber saman viðhorf, stefnur og hugmyndir um kynlíf í Austur- og Vestur-Þýskalandi á árunum eftir seinni heimsstyrjöld. Fjölmargir kynfræðingar hafa komist að því að íbúar Þýska alþýðulýðveldisins, eða Austur-Þýskalands, áttu mun innihaldsríkara og ánægjulegra kynlíf en íbúar Sambandslýðveldins í vestri. Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til stöðu kvenna í austurhlutanum en þar var jafnrétti kynjanna fest í lög.

 

Þar unnu konur sömu störf og karlar og fengu jafn mikið greitt fyrir sína vinnu. Voru þær því sjálfstæðari en kynsystur sínar í vesturhlutanum og félagsmótun ungra kvenna ekki bundin við það eitt að verða að undirgefinni þjónustustúlku eiginmanns – eins og raunin varð í vesturhlutanum. Því þrátt fyrir að konur hafi unnið svo til öll störf í vesturhluta Þýskalands á meðan seinni heimsstyrjöldin geisaði var annað uppi á teningnum þegar ný kynslóð karla óx úr grasi eftir stríð og stríðsfangar bandamanna snéru heim. Samantekin ráð stjórnvalda, fjölmiðla og kirkjunnar lögðu línurnar fyrir konur, ungar sem aldnar, og þær hvattar til að helga sig heimilisstörfum – svo karlar þeirra gætu snúið aftur til „hefðbundinna“ karlastarfa.

 

Í myndinni má sjá merkileg brot úr sjónvarpsþáttum og fræðslumyndböndum um samskipti kynjanna bæði í austri og vestri á árunum 1950-1989 en mörg þeirra eru nokkuð spaugileg. Eftir sem áður er umfjöllunarefnið stórmerkilegt og ekki síður niðurstaða kynfræðinganna sem koma fram í myndinni. Að hugsa sér, um miðjan 9. áratug síðustu aldar höfðu aðeins 50 prósent kvenna í Vestur-Þýskalandi upplifað kynferðislega fullnægingu. Í Austur-Þýskalandi var þetta hlutfall 85 prósent!

 


Do Communists Have Better Sex by filmow