Ísland var nafli alheimsins í nokkra daga þegar leiðtogafundurinn fór fram í Reykjavík í október 1986. Ronald Reagan Bandaríkjaforseti og Mikhaíl Gorbatsjov, aðalritari Sovétríkjanna, funduðu í Höfða við Borgartún.

 

Japanska rækjukaupmanninum og Íslandsvininum Sakuhana fannst viðburðurinn svo merkilegur að hann hann reisti nákvæma eftirlíkingu af Höfða á heimaslóðum sínum í Hyogo í Japan.

 

Morgunblaðið birti myndina sem við sjáum hér að ofan í september 1990 (og LEMÚRINN endurbirtir hana með bessaleyfi). Kristinn Pálsson tók myndina af japanska Höfða. Í Mogganum sagði:

 

Þeir ferðalangar sem leið sína leggja til Japan í bæ einn á vesturströndinni er Hyogo heitir geta augum litið þessa eftirlíkingu af Höfða. Þar í bæ býr maður að nafni Sakuhana, en hann er rækjukaupandi og hefur m.a. keypt alla þá rækju sem Oddeyrin EA hefur veitt, auk þess sem hann kaupir mikið af rækju annarra Samherjaskipa, Margrétar EA og Hjalteyrar EA.

 

Sakuhana hefur oft komið til Íslands vegna rækjukaupanna, að sögn Kristins Pálssonar sem tók þessa mynd, en hann starfar hjá Samherja hf. „Við vissum af því að hann hefði byggt þetta hús, en óneitanlega var skrýtið að sjá nákvæma eftirlíkingu af Höfða þarna úti í Japan,“ sagði Kristinn. Hann sagði að Sakuhana hefði ætlað sér að byggja húsnæði undir skrifstofur fyrirtækis síns og hugmyndina hefði hann að líkindum fengið í kjölfar leiðtogafundarins, þegar þeir hittust í Höfða Gorbatsjov og Reagan.

 

Brillouin, franskur konsúll, byggði Höfða árið 1909 en entist ekki lengi þar. Einar Benediktsson skáld bjó í húsinu um hríð en það varð síðar sendiráðsbústaður Bretlands. Um 1950 var Höfði í niðurníðslu og þar höfðust við rónar (þetta er ekki orðaleikur). Á sjöunda áratugnum var Höfði gerður að móttökuhúsi fyrir Reykjavíkurborg og hefur verið það síðan.

 

Valdamestu menn heims fyrir utan Höfða. Skilti Heimilistækja HF logar í bakgrunni.

Valdamestu menn heims fyrir utan Höfða. Skilti Heimilistækja hf logar í bakgrunni.

 

Höfði sjálfur.

Höfði sjálfur.