Hér fyrir ofan má sjá Billie Jo Campbell, framan á fyrstu plötu bandarísku hljómsveitarinnar Violent Femmes. Platan var að mestu tekin upp um sumarið 1982 en gefin út um vorið 1983. Campbell var þriggja ára þegar myndin sem prýðir plötuna var tekin. Í dag er hún 34 ára. Hún útskrifaðist úr markaðsfræðum frá Háskólanum í Colorado og starfar hjá móður sinni í Los Angeles. Þær reka fyrirtækið Hangover Designs, sem selja einhvers konar föt fyrir stórt fólk. Campbell segist í dag vera aðdáandi Violent Femmes.

 

pumpkins

 

Ali Laenger heitir stúlkan sem er hægra megin á myndinni sem prýðir aðra plötu Smashing Pumpkins, Siamese Dream. Sú sem er vinstra megin hefur verið kölluð LySandra R. Skemmtileg saga er til um stelpurnar tvær. Billy Corgan, helsta driffjöður sveitarinnar, gerði árið 2007 dauðaleit að stúlkunum tveimur. Hann vissi ekki hvað þær hétu og lýsti hann því eftir þeim á vefnum og bað þær meðal annars um að gefa sig fram á samskiptavefnum twitter. Skömmu síðar gaf sig fram ung kona, Nicole Fiorentino, og sagðist vera stúlkan sem er hægra megin á myndinni. Það þótti sérstaklega skemmtileg tilviljun, þar sem Fiorentino hafði þá nýlega gengið til liðs við Smashing Pumpkins og var glænýr bassaleikari sveitarinnar. Corgan og Fiorentino viðurkenndu að lokum að um auglýsingabrellu hefði verið að ræða.

 

nirvana

 

Spencer Elden er líklega frægasti krakki sem hefur komið fram á plötuumslagi frá upphafi. Elden er barnið sem reynt er að veiða með dollaraseðli framan á plötunni Nevermind með hljómsveitinni Nirvana. Elden er fæddur árið 1991 og varð 23 ára í febrúar. Hann titlar sig í dag sem götulistamann og er nemi við Art Center College of Design í Kaliforníu. Því hefur verið fleygt fram að myndin af Elden sé vinsælasta „nektarmynd“ allra tíma. Það kann vel að vera rétt, en platan hefur selst í 26 milljónum eintaka þegar þetta er skrifað.

 

GooGoo

 

Framan á plötu Goo Goo Dolls frá árinu 1995, A Boy Named Goo, er strákur sem heitir ekkert Goo. Hann heitir Carl Gellert og var hann tveggja ára gamall þegar myndin var tekin. Eftir að platan kom út hins vegar, hefur Gellert ætíð verið kallaður Goo. Meira segja af foreldrum sínum! Faðir Goo fékk einmitt 6000 dollara fyrir myndina af Carl, og þetta skemmtilega gælunafn í kaupbæti.

 

biggie

 

Ready To Die, fyrsta plata Notorious B.I.G., skartaði ungum dreng með glæsilega hárgreiðslu sem gat þess vegna verið Biggie sjálfur. Á þessu ári á platan 20 ára afmæli og var að því tilefni reynt að hafa upp á drengnum á plötunni. Í ljós kom að sá er 24 ára gamall maður sem býr í Bronx-hverfi New York-borgar, Keithroy Yearwood að nafni. Móðir Yearwood fékk 150 dollara fyrir myndina en sjálfur segir hann að heiðurinn sé meira virði. Eigi hann alltaf eftir að eiga sinn sess í tónlistarsögunni og það sé ómetanlegt.

 

blindmelon

 

Framan á fyrstu plötu hljómsveitarinnar Blind Melon var mynd af yngri systur trommara sveitarinnar Glens Grahams. Hún heitir Georgia Graham og er ljósmyndin tekin árið 1976, en platan kom út 1992. Á plötunni var risaslagari sveitarinnar „No Rain“ sem færði hljómsveitinni fúlgur fjár og gerði meðlimi hennar heimsfræga. Í myndbandi lagsins var haldið í býfluguþemað en þá var ráðin önnur stúlka til verksins enda Georgia Graham vaxin upp úr slíkri vitleysu. Sú stúlka heitir Heather DeLoach. Hún reyndi fyrir sér í leiklist á táningsárum, en það er gaman að segja frá því að í dag rekur hún sitt eigið fyrirtæki: Sweet Bee Candy Stations.

 

Ljúkum þessari yfirferð á því að sjá Heather DeLoach hoppa um og skoppa í dásamlegu lagi Blind Melon:

 

Vídjó