Fyrir Íslendingum er Vilhjálmur Stefánsson hetja. En ýmsar bækur greina frá hörmulegum mistökum hans í leiðöngrum um norðurslóðir. Það var til dæmis honum að kenna að kona hafnaði alein á ískaldri eyju í Norður-Íshafi. Amundsen kallaði hann „mesta svikara heims“.

 

Vestur-Íslendingurinn heimsfrægi, Vilhjálmur Stefánsson frá Gimli í Manitoba í Kanada, var einn áhrifamesti landkönnuður heims í kortlagningu landsvæða við norðurheimsskaut jarðar og vegna rannsókna sinna á inúítaþjóðum Norður-Ameríku.

 

Vilhjálmur sigldi á Norður-Íshafi á seglskipinu Karluk með áhöfn sinni og kannaði áður óþekktar slóðir. Árið 1913 lagði hann af stað í leiðangur fyrir kanadísk yfirvöld til að kortleggja og rannsaka landsvæði norður af Alaska og notaði Karluk til siglingarinnar. Þetta var árið áður en fyrri heimsstyrjöldin hófst. Það eimdi enn af gamla tímanum.

 

Þó að ártalið 1913 tilheyri tuttugustu öldinni hafði það ár meira sameiginlegt með nítjándu öld, að minnsta kosti með sjónarhorni nútímamannsins. Bílar, flugvélar og útvörp voru öll í vöggu. Ímyndum okkur Ísland árið 1913. Þá var nánast ekkert af þessu komið til sögunnar. Enn var langt í land að mikilvægar vísindalegar uppgötvanir, sem umbylt hafa lífi okkar, litu dagsins ljós. Árið 1913 hættu menn enn lífi sínu með því að sigla á lélegum viðarskipum á norðurslóðir.

 

Karluk_in_the_Ice_Bartlett

Karluk.

 

Fjölmiðlar fylgdust grannt með Vilhjálmi og félögum hans. Í áhöfninni voru 25 manns. Mikill hetjublær var í dagblaðaskrifum um leiðangurinn. Kanadamenn voru stoltir af þessum fræknu köppum og bjuggust við miklu af þeim.

 

Eftir nokkrar vikur festist skipið hins vegar í hafís og sat pikkfast. Vilhjálmur yfirgaf þá skip sitt og hélt út á ísinn við þriðja mann. Þeir voru á ferðalagi í um 100 daga og veiddu sér til matar með riffli þar til annað skip kom og sigldi með þá heim.

 

Ferð Karluks. Mynd: Wikipedia.

Ferð Karluks. Mynd: Wikipedia.

 

Karluk rak hins vegar með ísnum og feyktist að lokum með honum yfir Beringsund á hafsvæðið á milli Síberíu og Alaska sem nefnist Tjúksí-sjór. Þar brotnaði skipið og sökk í janúar 1914. Fjórir menn náðu til Herald-eyjar en létust þar úr vosbúð. Herald-ey er ísköld eyðieyja norður af Síberíu, hún var ekki uppgötvuð fyrr en á nítjándu öld. Eyjan heitir í höfuðið á bresku herskipi en áhöfn þess uppgötvaði hana árið 1849. Hún tilheyrir Rússlandi í dag.

 

Aðrir áhafnarmeðlimir hröktust til Wrangel-eyju og var þeim sem lifðu af hörmungarnar þar bjargað um borð í bandarískt fiskveiðiskip átta mánuðum seinna.

 

Karluk_survivors

Skipverjar af Karluk.

 

Wrangel-ey liggur líkt og Herald-eyja norður af Síberíu og tilheyrir Rússum í dag. Wrangel er hins vegar mun stærri eyja, um það bil einn af tíundi af Íslandi. Eyjan er í dag á heimsminjaskrá UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hún er mikilvæg fjölda dýrategunda sem þar búa. Í Wrangeleyju er þéttbýlasta byggð ísbjarna í heiminum. Þar eru líka selir, rostungar og læmingjar. Talið er að síðustu mammútar eða loðfílar heimsins hafi búið á þessari eyju. Nokkrir þjóðgarðsverðir búa á eyjunni og vísindamenn fara til hennar reglulega en annars búa menn ekki þar.

 

En aftur að Vilhjálmi Stefánssyni. Hann var harðlega gagnrýndur fyrir örlög Karluks. Mörgum fannst að ekki hefði verið staðið nægilega vel að skipulagningu og undirbúningi leiðangursins.

 

Vilhjálmur Stefánsson um 1915.

Vilhjálmur Stefánsson um 1915.

 

Skipstjóri á skipinu hafði áhyggjur af ástandi skipsins áður en lagt var af stað. Vélstjórinn sagði síðar að vél skipsins hefði verið mjög léleg.

 

Að auki þótti óafsakanlegt af leiðtoganum Vilhjálmi að yfirgefa menn sína þegar vandræðin hófust.

 

Árið 1921 skipulagði Vilhjálmur nýjan leiðangur til Wrangel-eyjar. Markmiðið var að slá kanadískri eign á eyjuna. En kanadísk yfirvöld vildu reyndar ekki taka opinberlega þátt í leiðangrinum vegna skipskaðans 1914.

 

Vilhjálmur réði fjóra unga menn til leiðangursins sem hann valdi vegna reynslu þeirra og þekkingar á sviði landafræði og vísinda. Þeir voru Allan Crawford frá Kanada og Bandaríkjamennirnir, Lorne Knight, Milton Galle og Fred Maurer. Sá síðastnefndi var einn áhafnarmeðlima Karluk sem dúsað hafði í átta mánuði á Wrangel-eyju árið 1914. Vanur maður.

 

Ada Blackjack.

Ada Blackjack.

 

Fjórmenningarnir lögðu af stað frá Nome í Alaska og tóku með sér í leiðangurinnn unga inútíakonu, Ödu Blackjack, sem skyldi verða kokkur og saumakona hópsins. Landkönnuðunum ungu og Ödu var svo skutlað með skipi til Wrangel-eyju og voru þau skilin eftir á henni þann 16. september 1921.

 

Fljótlega kom í ljós að ekki svaðilförin var ekki nægilega úthugsuð. Útbúnaður hópsins var lélegur fyrir hinar vægast sagt óblíða veðurfar Wrangel-eyjar. Og það kom á daginn að piltarnir fjórir voru engan veginn nógu reyndir heimsskautafarar fyrir svona erfiðan leiðangur. Þeir fóru því auðvitað að örvænta. Ada Blackjack virtist hraust og tilbúin fyrir harðan vetur. Hún var samt, eins og hinir, ung og reynslulaus og var logandi hrædd við byssur og ísbirni. Hún var líka hálfstressuð í kringum hvítu borgarstrákana sem hún var allt í einu lent ein með á heimsskautaeyju. Hún kunni ekki að veiða, leggja gildrur eða reisa snjóhús.

 

Þegar vistir hópsins höfðu verið kláraðar mun fyrr en áætlað var fóru piltarnir á veiðar. Lítið sem ekkert hafðist upp úr krafsinu og hungrið svarf að.

 

Wrangel-eyja. Kort frá National Geographic.

Wrangel-eyja. Kort frá National Geographic.

 

Þann 28. janúar 1923 ákváðu þrír landkönnuðanna að freista þess að ferðast fótgangandi rúma þúsund kílómetra yfir ísilagt hafið yfir til næstu byggðar á meginlandi Síberíu til að leitar aðstoðar og matar þar.

 

Þúsund kílómetrar eru nú ekki beint stuttur göngutúr. Sem viðmið skal nefnt að um þúsund kílómetrar aðskilja Ísland og Noreg.

 

Þeir skildu Ödu Blackjack eftir með Lorne Knight sem þjáðist af skyrbjúgi og öðrum kvillum. Til þremenninga hefur ekki nokkuð maður heyrt síðan og er talið að þeir hafi látist á ísnum skammt frá Wrangel-eyju.

 

Ada hjúkraði Knight þar til hann lést í apríl 1923. Þar með var hún alein eftir á einu kaldasta landsvæði jarðar með engan sér til félagsskapar nema kött, sem leiðangursmennirnir höfðu tekið með sér. Hún lærði að lifa upp á eigin spýtur og þraukaði þangað til kunningjar Vilhjálms Stefánssonar, sem áttu leið hjá, björguðu henni og kattargreyinu í ágúst 1923. Hún hafði þá dvalið á eyjunni í tvö ár og þar af fimm mánuði alein.

 

00000854_ac_0001

 

Við heimkomuna uppnefndu fjölmiðlar Ödu Blackjack „kvenkyns Robinson Krúsó“. Hún notaði launin frá Vilhjálmi til að leita góðrar lækningar fyrir son sinn sem þjáðist af berklum. Hún seldi skinn og feldi sem hún safnaði á Wrangel-eyju og bjó um tíma í Seattle í Washington-ríki í Bandaríkjunum. Hún var hlédræg ung kona og þoldi ekki kastljós fjölmiðlanna. Því varð úr að hún leitaði aftur á norðurslóðir og settist að í Alaska og lést 85 ára að aldri árið 1983.

 

Orðspor Vilhjálms Stefánssonar beið enn hnekki fyrir hörmungar ungu leiðangursmannanna á Wrangel-eyju. Hann hafði í annað sinn gjörsamlega klúðrað leiðangri, sent illa búna og reynslulitla unga menn út í opinn dauðann.

 

Og hafði í þokkabót ekki tekist að senda björgunarskip fyrr en of seint. Fjölskyldur látnu leiðangursmannanna voru vonsviknar og sárar honum fyrir að hlúa ekki betur að mönnum sínum. Seinna voru svo skrifaðar metsölubækur um leiðangurinn til Wrangel-eyju og er Vilhjálmur sagður hafa grætt stórfé á þeim. Ada Blackjack sá aldrei einn einasta eyri af gróðanum þrátt fyrir að hafa lifað atburðina af og verið eina vitnið um þá.

 

Jennifer Niven.

Jennifer Niven.

 

Þetta er að minnsta kosti það sem fram hefur komið í nýlegum bókum um þessi mál. Rithöfundurinn Jennifer Niven hefur skrifað tvær bækur um svaðilfarir Vilhjálms Stefánssonar. Sú fyrri fjallar um leiðangur Karluks og nefnist Ísherrann en hún kom út á íslensku 2002 í þýðingu Rúnars Helga Vignissonar. Niven hefur auk þess skrifað bók um Ödu Blackjack.

 

Dr. Gísli Pálsson prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands ritaði grein í Lesbók Morgunblaðsins árið 2001 þar sem hann fjallaði um Ísherrann eftir Niven. Hann segir að þrátt fyrir að bókin sé heillandi, hrífandi og átakanleg sé hún nokkuð hlutdæg vegna þess að hún skrifi einvörðungu frá sjónarhóli fórnarlambanna. Það sé mikil einföldun að segja að Vilhjálmur hafi verið ábyrgur fyrir öllu sem úrskeiðis fór. Og hann bendir á að Vilhjálmur hafi verið mikið gagnrýndur uppúr 1950 eftir að hann var sakaður um að vera kommúnisti á árunum þegar bandaríski öldungardeildarþingmaðurinn Joseph McCarthy stundaði sínar nornaveiðar. Það verði að setja þá gagnrýni sem verk Vilhjálms Stefánssonar urðu fyrir á síðari hluta tuttugustu aldar í samhengi við kalda stríðið.

 

En Roald Amundsen, Norðmaðurinn sem vann það afrek að verða fyrstur til að ná til suðurpólsins, sagði að Vilhjálmur Stefánsson væri „mesti svindlari heims“.

 

Amundsen.

Amundsen.

 

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur vakið máls á þessari sögu. „Á Íslandi er minningu Vilhjálms hampað með því að setja á laggirnar árið 1998 rannsóknastofnun sem ber hans nafn, af því að hann var frægur. Rannsóknir síðari tíma sýna nú að hann er frægur að endemum.“